24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3950)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, þáltill. á þskj. 61, er að vissu leyti gamall kunningi. Það má heita, að það sé shlj. og efnislega alveg eins og till. sú, sem við flm. þessarar till. fluttum á síðasta Alþ., og hún er á þá leið, að hætt verði hér þingskriftum, að ekki verði skrifaðar upp á þingi ræður þingmanna, er þeir halda, heldur verði athugað um það, hvort ekki verði hægt að taka þær upp á plastþráð eða stálþráð eða önnur vélræn tæki. Og það er gert ráð fyrir, að þegar það er búið, þá verði vélritunarstúlkur, sem eru flinkar í sér, og þær vélriti niður ræðurnar, eins og þær koma talaðar hér á þingi. — Það er talinn galli á þessu, að það er ekki hægt að stemma þennan þráð, því að hann snýst allt of fljótt og er hraðmæltur nokkuð. En jafnan má færa þráðinn til baka, ef ekki hefur náðst það, sem sagt hefur verið, svo að það ætti ekki að vera skaði.

Ég hefði hugsað mér það, og ég býst við, að hv. meðflm. minn sé á svipuðu máli um það, að þegar búið sé að vélrita, þá eigi að vera hægt að fjölrita þetta þannig, að tekin væru t. d. 30 til 50 eintök af þessum ræðum, og mætti þá senda það söfnum, láta það liggja fyrir á Alþ. og e. t. v., ef ástæða þætti til, senda það alþingismönnum, en þá þyrftu eintökin að vera nokkru fleiri. Þetta væri nokkru ódýrara. Svo gæti verið um það að ræða, að ræðurnar væru ekki fjölritaðar, heldur lægju þær aðeins fyrir vélritaðar hér með skjölum þingsins. Þeir kostir, sem þetta hefur, eru, að þá hverfur kostnaður við að hafa þingritara alla, og einnig það, að ég geri ráð fyrir, að ræður þingmanna yrðu yfirleitt styttri og skilmerkilegri, þegar þannig væri um hnútana búið. Og eitt er það, að með þessu móti væri trygging fyrir því, að ræðurnar kæmu fram eins og þær væru talaðar og yrðu ekki látnar aflagast, hvorki í höndum ritara eða kannske við leiðréttingar sjálfra þeirra, sem talað hafa, sem oft vill vera, og er ekki gott um að dæma, frá hverjum leiðréttingin er eða breyt., sem verða, þegar svo á sér stað.

Nú er svo ástatt, að umræðupartur þingtíðindanna hefur ekki komið út fyrr en mörgum árum eftir það þing, sem hann nær yfir eða er frá. Við erum því í þessu langt á eftir tímanum. Síðan eru þingtíðindin eða umræðupartur þeirra mjög lítið lesin, en þau látin liggja og grotna niður hér og þar úti um bæi og sveitir landsins.

Hv. fyrrv. forsrh., 8. landsk.. þm., hefur flutt hér brtt. við þessa þáltill. Get ég verið fáorður um þá brtt. Ég býst við að þáltill. ásamt brtt. verði vísað til nefndar, sem ég tel sjálfsagt, að verði allshn., og mun hún geta verið fljót að afgreiða þetta mál, þar sem hún hefur fjallað um það á þingi fyrr á þessu ári, þó ekki fengist fullnaðarafgreiðsla á till. þá frá þinginu. Og ég vil taka fram, að þessi sama till. lá þá fyrir allshn., og var sú n. því hliðholl, að þessi leið væri tekin til athugunar. Ég vil ekki á þessu stigi fara að agnúast við nefndina. En við treystum okkur ekki til að taka þau atriði upp í till., sem lagt var þá til, að prenta umræðupartinn vikulega, af því að við töldum, að það mundi verða bæði mjög dýrt og e. t. v. erfitt að framkvæma það, þar sem nú er bæði talað um pappírsleysi og annir hafa verið mjög miklar í prentsmiðjum undanfarið, Og ég hygg a. m. k., að ríkisprentsmiðjan hafi nú nóg að starfa og geti ekki komið því af að prenta umræðupartinn vikulega. En annað hefur mér dottið í hug, sem við báðir flm. till. höfum minnzt á, hvort ekki væri fært að gefa út útdrátt af þingræðunum, þannig að sá útdráttur kæmi út vikulega eða kannske oftar. En þá kostar það það, að þá þarf að ráða ágætan mann til þess starfs við skrifstofuna. Getur það verið heldur óvinsælt verk og mundi verða stórum óvinsælla heldur en þingfréttaflutningur, því að sumir mundu þá ekki vilja láta sleppa því, sem kannske sleppt yrði af þeirra ræðum. Svo að þetta yrði dálítið vandaverk.

Meira og minna hefur það komið fram hjá ýmsum mönnum, að eins og nú væri komið, væri réttast að sleppa alveg að skrifa nokkuð þingræður eða gefa út þingræðupartinn. En ég er, á þessu stigi a. m. k., frekar á móti því, og tel það heldur ókost að geta ekki haft fyrir sér a. m. k. framsöguræður hv. þm., því að það er oft, að það upplýsist betur í framsöguræðum, hvað flm. mála eða nefndir meina með þeim málflutningi og till., sem þeir koma fram með. Og getur það verið nokkur grundvöllur til að byggja á um afstöðu mála að geta kannað það og lagt fram til skilningsauka. En annars mundi e. t. v. vera höfð sú aðferð að koma því fram í grg. eða nál., þannig að við því mætti nokkuð sjá á þann hátt, þó umr. væru ekki prentaðar.

Sem sagt, við flm. látum þessa till. fara þannig af stað hér í þinginu eins og ég hef greint, og hv. þm. aðrir geta þá betrumbætt hana, við aukið eða úr fellt. En okkur flm. kom saman um að hafa till. þannig, án þess að við viljum á nokkurn hátt vera að agnúast við því, þótt brtt. komi fram við till Við væntum þess, að þær einar breyt. komi fram á till., sem verða til bóta, þótt ég, því miður, sé í vafa um, hvort það eru þessar breyt., sem felast í brtt. fram komnu, sem yrðu til bóta. En ég geri ráð fyrir, að sú brtt. fái, eins og till. sjálf, rækilega athugun í n.