26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3955)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það er í sjálfu sér að bera í bakkafullan lækinn að mæla með till., sem hér liggja fyrir, aðalþáltill. og brtt. við hana. Ég get þó ekki látið það vera, vegna þess hve ég tel þetta mál mikilsvert. — Því er hreyft hér, að það mundi verða feikidýrt að gefa Alþt. út jafnóðum, þ. e. umræðupartinn. En mér er það, sannast sagt, óskiljanlegt mál, af hverju það ætti að vera dýrara að prenta þetta jafnóðum en að gera það eftir á. Eina skýringin á því, að ódýrara væri að prenta þetta eftir á, kannske 4 til 5 árum eftir á, heldur en að prenta umr. jafnóðum, er, að þetta sé látið mæta afgangi í prentsmiðjunum og unnið að því á þeim tíma, þegar engum öðrum störfum sé að sinna þar og þetta tekið þá sem nokkurs konar búsílag fyrir prentsmiðjurnar og unnið þar fyrir lægra verð. Ég veit ekki, hvort það mundi vera af þessum ástæðum ódýrara að prenta umr. eftir á heldur en jafnóðum. En ég kem ekki auga á aðra ástæðu, sem væri fyrir því, að þarna yrði kostnaðarmunur á. En ef sá skilningur er hjá forráðamönnum á Alþ., að það sé of dýrt að prenta ræðurnar nokkurn veginn jafnóðum og því lítt framkvæmanlegt, þá finnst mér, að það ætti að leiða af sér þá ályktun að segja, að það væri óframkvæmanlegt að prenta umr. á Alþ., og ætti þá að hætta að skrifa og prenta þingræður frá Alþ. Því að það er þýðingarlaust að láta afbakaðar ræður koma prentaðar fjórum til fimm árum eftir að þær eru fluttar. Ég vil ekki deila á hæstv. forseta eða skrifstofustjóra Alþ. En mér finnst, að sá háttur, sem hefur verið hafður á þessu, hafi haldizt allt of lengi.

Það er tiltölulega skammt síðan til okkar var verið að bera ræður, sem haldnar höfðu verið á Alþ. árin 1942, 1943 og 1944. Og hvaða þýðingu halda menn, að slík prentun þingræðna frá Alþ. hafi? Það getur skeð, að slík prentun þeirra komi einhverjum að gagni, sem vilja athuga meðferð mála sögulega, einum eða tveimur vísindamönnum. En þeir geta alveg eins gengið að þessu skriflegu, þannig að hægt væri að spara sér prentunina. Fyrir Alþ. hefur slík útgáfa enga þýðingu. Hins vegar hafa hv. þm. oft raun af því að sjá, hvernig ræður þeirra eru útleiknar, þannig að það eru ekki fá dæmi þess, að því er alveg snúið við í meðförum, sem hv. þm. hafa a. m. k. ætlað sér að segja. Ég veit, að þingskrifarar gera það ekki af illvilja, en þessi er staðreyndin. Og það eru ekki einstakir hv. þm., sem hafa orðið fyrir þessu, heldur er þetta það, sem hver hv. þm. segir við annan í sinn hóp. Svo að ég tel í rann og veru, að ekki sé um nema tvennt að ræða, annaðhvort að hætta alveg að skrifa ræðurnar, sem fluttar eru á Alþ., og láta þá blöðin og fréttamenn óháða Alþ. um það, hvað berst til þjóðarinnar af þeim ræðum, eða að taka þann hátt upp, að ræður í þinginu verði, á einn eða annan veg, tryggilega rétt skrifaðar niður og svo prentaðar alveg jafnóðum. Og ég tel, að þó að það yrði eitthvað dýrara að prenta ræðurnar jafnóðum, sem ég legg höfuðáherzluna á í þessu sambandi, að sé gert, þá yrði það mun ódýrara í framkvæmd í raun og veru, vegna þess að nú er því mikla fé, sem varið er til þingskrifta og prentunar umræðuparts Alþt., í raun og veru alveg kastað á glæ. Það kemur ekki að neinu gagni, svo teljandi sé, sá mikli kostnaður. Ef hins vegar væri tryggilega frá þessu gengið og almenningi gefinn kostur á að fylgjast með þessu jafnóðum, þá mætti segja, að þetta mikla fé, sem greiða verður fyrir upptöku ræðnanna og útgáfuna, kæmi að gagni, ef þetta væri í sæmilegu horfi, fremur en það mikla fé gerir, sem greitt er fyrir þetta nú, til þess að hafa þetta í ólagi. Því að þetta fé kæmi að miklu gagni, ef það yrði til lærdóms og nytja.

Það er sennilega ekki hægt að gera í þessu breyt. á þessu þingi. Það getur skeð, og er sennilegast, að það þurfi, ef á að taka upp vélræna skrift á ræðum í Alþ., að gera slíkar breyt. hér innan húss, að það sé erfitt að gera það meðan þing situr. En lengur en þetta þing má núverandi ástand ekki haldast. Ég vil þess vegna mjög eindregið skora á hv. n. að taka þetta mál til skjótrar afgreiðslu og á hæstv. forseta að láta síðan málið koma hér til umræðu og fylgja því eftir með framkvæmdum. Og ég tel, að með því móti einu sé hægt að bæta upp þá miklu skömm, sem af því stafar, hvernig þessi mál eru komin.