26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (3956)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Finnur Jónsson:

Ég vildi aðeins segja það, að ég er þessari till. fyllilega samþykkur. En þegar verið er að ræða um, hvernig ræður eru úr garði gerðar, þá er alls ekki rétt að halda fram, að allar ræður séu þannig, að þær séu ekki leiðréttanlegar, eins og einn hv. þm. komst að orði hér. Og þegar verið er að bera saman væntanlega vélræna upptöku á þingræðum við það að handskrifa þær niður að öðrum kosti, þá verður að gæta þess að bera það saman við verk fyrsta flokks hraðritara. Við höfum haft hér í þinginu um margra ára skeið fyrsta flokks hraðritara, sem hafa skilað ræðum hv. þm. þannig, að þar hefur ekki þurft að breyta einum stafkrók. Einnig höfum við haft við þingskriftir menn, sem ekki hafa kunnað neina hraðritun, og það eru vitanlega þeir skrifarar, sem hv. þm. kvarta undan, þegar þeir kvarta undan því, hvernig ræðum sé skilað af hálfu þingskrifara. Það væri eins konar lokun á þinginu, ef hætt væri að prenta ræður hv. þm. En eins og mikill hluti af þingræðunum er nú látinn fara í prentun, sýna þær ekki rétta mynd af því, sem gerist í Alþ. Þetta er þinginu og forsetum þess ekki til sóma, og væri gott, ef samtök tækjust um það milli alþm. yfirleitt og forseta þingsins að kippa þessu í lag.

En umfram alla muni, viðkomandi vélrænu upptökunni: Berum saman þingræður, sem fyrsta flokks hraðritarar skila, og árangurinn af því verki, sem þeir geta skilað, annars vegar, og hins vegar árangurinn af því, sem við getum fengið út úr því að nota vélar við upptöku þingræðnanna. Og það má segja, að það hafi verið ákaflega illa farið, að ekki skuli hafa verið litið betur eftir því en gert er, að til þingsins veljist þingskrifarar, sem séu starfi sinn vaxnir, og er það illa farið, að ekki hafa valizt eingöngu úrvalsmenn til þingskriftastarfsins, svo sem við höfum haft kost á á undanförnum árum.