26.10.1950
Sameinað þing: 9. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3957)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það virðist svo, að margir séu þeirrar skoðunar, að ástand það, sem nú ríkir um útgáfu þingræðna, sé ekki viðunandi. Það hefur upplýstst í umr., að nú orðið líði jafnvel 5–6 ár frá því að ræða er flutt og þar til hún er prentuð. Hæstv. utanrrh. komst svo að orði hér í umr. áðan, að ekki væri nema um tvennt að gera í þessum efnum, annaðhvort að hefja vélræna upptöku þingræðna eða að hætta með öllu að skrifa ræðurnar og prenta þær. Þeir hv. þm., sem hér hafa talað, virðast þeirrar skoðunar, að taka beri upp nýjar aðferðir til að tryggja, að ræðurnar séu réttar; jafnframt hefur sú till. komið frá sumum, að taka beri upp það fyrirkomulag að prenta ræðurnar vikulega. Ég geri ráð fyrir, að till. verði vísað til n. að lokinni þessari umr., þar sem hún verði athuguð nánar. En áður en svo verður, þá vil ég láta koma fram mína skoðun á málinu, því að hún er nokkuð önnur en annarra hv. þm., sem hér hafa tekið til máls. Ég held sem sé, að réttasta leiðin sé sú að hætta að skrifa niður umr. og prenta þær. Það hefur verið minnzt á það, að nauðsynlegt væri, að þingið væri opið, svo að almenningur gæti fylgzt með, hvað hér væri að gerast. Nú má segja, að þingið sé ekki miklu opnara, þó að gefnar séu út 5–6 ára gamlar þingræður. En nú hafa á seinni árum opnazt ýmsir möguleikar fyrir almenning til að fylgjast með þingstörfum, sem ekki voru áður fyrir hendi. Nú eru alloft útvarpsumr. og hugsanlegt er að auka slíkt, og einnig mætti breyta nokkuð tilhögun á þeim, þannig að í stað þessara umr. yrði öðru hverju útvarpað heilum þingfundum með venjulegu sniði. Útvarpið hefur þannig ýmsa möguleika til að opna þingið fyrir almenningi. Ég held, að það sé rétt, sem saft hefur verið hér, að þingtíðindi séu minna lesin en áður var, bæði sökum þess, hve seint þau koma út, og hins, að menn fá vitneskju um, hvað í þinginu er að gerast, á annan hátt. Hins vegar er mjög mikill kostnaður samfara núverandi fyrirkomulagi, og jafnframt munu ræður þær, sem birtast í þingtíðindum, ekki vera algerlega eins og þegar þær voru fluttar. Hins vegar er sjálfsagt að prenta skjalapartinn og atkvgr., og vil ég þá minnast á eitt mikilsvert atriði. Það er það, að mér finnst, að meira megi vanda til þskj. af hálfu þm. og n. heldur en nú er gert. Ef svo er gert, þá er hægt á einfaldan hátt að koma í þingtíðindin meginrökunum fyrir hverju máli. Ég held því, að við ættum að stefna að því að vanda meira til þskj. og láta rök með og móti málunum koma í þskj. — Ég vék að því áðan, að komið hefði fram í umr., að hinar prentuðu ræður væru ekki eins og þær hefðu verið fluttar, og hafa sumir undrazt þetta. Ég held satt að segja, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að prentuð ræða sé nákvæmlega eins og ræða er þegar hún er flutt. Það hentar ekki alltaf að prenta talaðar ræður óbreyttar. Ég held því, að væru allar ræður prentaðar óbreyttar, þá mundi það ekki þykja alls kostar heppilegt. Ég er ekki með þessu að halda því fram, að ræðurnar séu svona lélegar, heldur hitt, að ritað mál verður alltaf dálítið öðruvísi en talað. Ég veit ekki, hvernig hv. flm. hafa hugsað sér að hafa þetta, en að mínu áliti er óhjákvæmilegt að breyta ræðunum eins og þær koma af stálþræðinum nokkuð áður en þær eru prentaðar. — Ég skal ekki lengja þessar umr., en vildi aðeins láta þetta koma fram. Það ætti að hætta að skrifa ræðurnar niður og gefa þær út. Af skriftunum er mikill kostnaður og enn meiri af útgáfu ræðnanna, og ég er ekki í vafa um, að sá kostnaður mundi aukast verulega, ef um vikulega útgáfu umræðupartsins væri að ræða. Það gefur auga leið, að svo yrði, þar sem við útgáfa ræðnanna yrði fast starfsfólk, og svo er það þannig hér í þinginu, að fundir eru oft mjög langir, og ef ætti að gefa þær umr. út vikulega, þá yrði að bæta við starfsfólki, og það hefði í för með sér mikinn aukakostnað. Útgáfukostnaður yrði minni, ef ekki liggur mikið á og útgáfan gæti að skaðlausu dregizt nokkuð.

Ég mun svo ekki hafa mál mitt lengra, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég teldi það til mikillar bótar, ef þm. almennt vildu leggja meiri áherzlu á að vanda til þskj. heldur en nú er, og held, að það gæti að miklu leyti komið í staðinn fyrir umræðupartinn í því formi, sem hann er nú.