24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3964)

40. mál, vélræn upptaka á þingræðum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var hér 26. okt. til umræðu og vísað til allshn. Sþ. till. til þál. frá mér og hv. 1. þm. N-M. (PZ) um vélræna upptöku á þingræðum, og hefur nú ekki neitt spurzt til framkvæmda í því máli. N. hefur ekki skilað af sér enn þá, og nú er svo komið, að það vantar aðeins einn dag upp á ársfjórðung frá því að hún tók við þessu máli og til dagsins í dag. Ég vildi því biðja hæstv. forseta að koma því til leiðar, að n. hraði afgreiðslu þessa máls, þannig að hægt væri að hafa nokkra afgreiðslu á því á þessu þingi, því að það sýnist full þörf vera á því að sinna þeirri sparnaðarviðleitni, sem felst í þessari þáltill.