05.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. ríkisstj. í sambandi við brtt., sem ég og annar hv. þm. eigum. Í sambandi við þá brtt. eru bornar brigður á, að atvinnuástandið á Vestfjörðum sé eins slæmt og ég hef haldið fram. Ég vil því gefa upplýsingar um þetta mál. 1946–48 voru, auk margra smábáta, 20 skip yfir 40 tonn á Ísafirði. Þar af fóru 15 á fiskveiðar á haustvertíð. Í fyrra voru 10 bátar yfir 40 tonn með lóðir, auk dragnótabáta. Voru þá um 100 sjómenn á fastri tryggingu. Nú gengu 3 dragnótabátar, sem hættu í nóv. vegna aflaleysis. 2 mótorbátar fiska nú í sig og sigla með fisk til Englands. Af 10 lóðabátum í fyrra eru nú aðeins 2 með lóðir. Því má gera ráð fyrir, að af 100 sjómönnum, sem voru í fastri atvinnu í fyrra, séu ekki fleiri en 20 –30 í atvinnu nú. Ég tel mig hafa ástæðu til að taka þetta fram, þar sem hv. þm. N-Ísf. sagði, að ég málaði ástandið of svart. Af 7 eru nú 3 dragnótabátar hættir veiðum, eftir að hafa aflað mjóg lítið, eins og ég sagði áðan.

Ég fullyrði, að atvinnuástandíð er mjög slæmt, og finnst hryggilegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki taka málið til rækilegrar athugunar. En henni er raunar vorkunn, þar sem mér og hv. þm. N-Ísf. ber ekki saman. Landbrh. lét fara fram nákvæma rannsókn á heybirgðum í hverjum hreppi á Norður- og Austurlandi. Væri þá nokkuð fjarri lagi, að einnig færi fram rannsókn á atvinnuástandinu fyrir vestan? Landbrh. gaf átakanlega lýsingu á ástandinu fyrir skepnur á óþurrkasvæðunum. Ég gæti einnig gefið lýsingu á atvinnuástandinu á Vesturlandi, og ekki síður átakanlega en lýsinguna af óþurrkasvæðunum, þótt ekki sé farið að slátra vegna atvinnuleysisins. En margur atvinnuleysinginn á erfitt með að leita til sveitar.

Ég vil beina sérstakri áskorun til hæstv. landbrh. og ríkisstj. um að láta fara fram sams konar athugun á atvinnuleysinu á Vesturlandi og fór fram á óþurrkasvæðunum. Nú væri ekki óeðlilegt, að valdir yrðu til þess tveir þingmenn. Okkur hv. þm. N-Ísf. hefur ekki borið saman. Leyfi ég mér því að koma með þá tillögu, að senda hv. þm. N-Ísf. og mig til að athuga atvinnuástandið fyrir vestan. Ég skal sjálfur kosta för mína, svo að hún þurfi ekki að kosta ríkissjóð neitt. Ég veit, að hv. þm. N-Ísf. mun ekki telja sig of góðan til að gera þetta fyrir kjósendur sína. Vænti ég þess, að uppástunga mín fái góðar undirtektir hjá ríkisstj., ekki sízt þar sem hæstv. landbrh. sagði í Ed., að talað væri um hallæri á Vesturlandi og sjálfsagt ekki að ástæðulausu. Vitanlega á að athuga þetta. Ég skora því á hæstv. ríkisstj. að láta gera athuganir þessar og senda hv. þm. N-Ísf. og mig til þess. Síðan mun ég gefa rétta skýrslu um málið. Læt ég hér útrætt um þetta mál og treysti því, að hæstv. landbrh. flýti fyrir því, að þetta verði gert.