12.12.1950
Neðri deild: 33. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það var aðeins út af tveimur atriðum, sem ég vildi segja nokkur orð. Hv. þm. Hafnf. taldi það ekki mikils virði, sem ég færði fram, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað fengið um þessi mál, væri þessi aðstoð þannig, að hún mætti sízt minni vera. Upplýsingarnar eru fengnar fyrir tilstilli tveggja manna, sem ferðuðust um allt svæðið. Þá var því haldið fram, að ástandið mundi geta breytzt. Því var gert ráð fyrir því í till. þessara manna, að þurrkar mundu e.t.v. koma í sept., og því voru till. gerðar með tilliti til þess, að eitthvað mundi nást inn í sept. Þá komu ekki þurrkar, heldur slagveður og snjóar. Ég er ekki í neinum vafa um, að hv. þm. Hafnf. veit, að hey, sem búið er að liggja allt sumarið í bleytu og siðan undir snjó, breytir engu um þetta. Heyið er næringarlítið eða næringarlaust, það er hægt að nota það sem magafylli með mat. Ég veit, að hv. þm. hefur það mikla þekkingu á málunum, að hann veit, að þetta breytir engu, og tel ég því atriði þar með svarað. Enn fremur er að koma í ljós, að þau hey, sem sett voru í votheysgryfjur og reiknað var með að bættu, eru miklu verri en búizt var við.

En eitt er alveg víst, og það vil ég benda hv. þm. á, að það, sem lagt er til landbúnaðarins og það er kannske hin stóra yfirsjón okkar — er sett á fjárlög. Það, sem veitt er í Búnaðarbankann og hann þarf til að geta veitt ódýr lán, kemur fram á fjárlögum, en ekki kemur fram á fjárlögum það, sem lagt er til rekstrarlána við sjávarútveginn, sem er sams konar gjöf. Það kemur hvergi fram. Hvað margar milljónir eru það? Það kemur heldur ekki fram, hvað hefur tapazt á lánum til sjávarútvegsins, en hvar eru töpin á lánum til landbúnaðarins? Ég hygg, að það hafi aldrei tapazt eyrir af lánum til hans. Ég held, að við ættum að taka upp aðra reikningsfærslu um þetta. Það er allt fært á fjárlög, sem til landbúnaðar fer. En til aðstoðar bátaútveginum hafa farið óteljandi upphæðir, sem að vísu koma seint og síðar meir á fjárlög og skipt hafa á 3. tug millj. kr. Annars álít ég, að það eigi ekki að vera að metast um þessi atriði. En þjóðin skilur ekki, að hún lifir aldrei hamingjusömu lífi í landinu fyrr en hún skilur, hvers virði moldin er, en þau ósköp eru í þjóðinni núna, að þetta hefur gleymzt.