22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (4040)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Viðskmrh, (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ef ræða hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, á að vera gagnrýni á menntmrn. fyrir það að hafa sett fótinn fyrir. dagskrá útvarpsins, ef svo mætti segja, þá hefur hann þar farið yfir lækinn til þess að sækja vatn. Því að áður en þetta þskj. kom fram, sem hér liggur fyrir, hafði ráðun. skrifað hv. fjvn. um þetta og lagt til, að fjárveiting til dagskrár útvarpsins yrði aukin um 200 þús. kr., og lagði jafnframt fram skilríki yfir það, hvernig tekjur gætu komið á móti. En þegar ríkisútvarpið sendi sína síðustu áætlun um rekstrarkostnaðinn og dagskrárféð, þá voru áætlaðar 1200 þús. kr. til dagskrárinnar, með því fororði, að útvarpsnotagjöldin yrðu hækkuð um 50%. Skal ég koma að því síðar. En það var engin leið að láta áætlun um rekstur útvarpsins frá sér fara eins og hún var, nema því aðeins, að fundnar væru tekjur á móti auknum gjöldum í þessu efni, vegna þess að annars hefði áætlunin komið út með tekjuhalla á fjárl. Ég hef talið mér skylt að fylgja fjárl. í sambandi við útvarpið eins og í sambandi við aðrar stofnanir, sem heyra undir mín ráðuneyti. Og ég tilkynnti útvarpsráði og útvarpsstjóra, þegar fjárl. höfðu verið samþ., að þeir yrðu að haga sinni dagskrá innan þeirra takmarka, sem fjárl. ákveða. Hins vegar viðurkenndi ég fyllilega, að þeir ættu kröfu á nokkuð réttlátri leiðréttingu, þar sem fjárlög voru ekki samþ. fyrr en fjórir mánuðir voru liðnir af árinu, sem fjárl. giltu fyrir. Og mátti því segja, að útvarpsráð hefði haft nokkra ástæðu til að ætla, að þeir mættu eyða því fé, sem upphaflega var lagt til, að varið væri til dagskrárinnar. Þess vegna samþ. ég, að þeir mættu fara 100 þús. kr. fram yfir áætlun fjárlaga, með tilliti til þessa og með tilliti til þess, að á miðju ári höfðu þeir eytt svo miklu fé í rekstur útvarpsins, að útvarpið hefði þurft að stöðvast, ef fara hefði átt stranglega eftir ákvæðum fjárl. um útvarpið. Og þeir höfðu, eins og ég sagði, nokkra afsökun fyrir að hafa eytt meira fé en fjárl. sögðu til. Það voru þess vegna 100 þús. kr., en ekki 200 þús. kr. eins og hv. 3. landsk. þm. gat um, að ég hefði síðar gengið inn á.

Mér þykir rétt að geta þess, að þessi gagnrýni hjá hv. þm. um það, að ráðuneytið hafi ekkert gert til þess að athuga, hvort ekki mætti fara þá leið að minnka almennan rekstrarkostnað útvarpsins og auka fé til dagskrár útvarpsins — þessi gagnrýni finnst mér ekki réttmæt aðfinning, vegna þess að ráðuneytið hafi ekki gert mjög ýtarlegar tilraunir til þess að fá úr því skorið, hvort ekki væri hægt að lækka þann almenna rekstrarkostnað útvarpsins og taka þá það, sem þar mætti spara, og bæta við dagskrárféð. Í því efni var farið mjög nákvæmlega í gegnum marga rekstrarliðina, og þ. á m. var tekinn sá rekstrarliður, sem hv. 3. landsk. þm. gat um, sem er aukavinna, sem greidd er starfsmönnum útvarpsins árið 1949. Þessi aukavinna er upp á 258 þús. kr. Ég tilkynnti bæði útvarpsstjóra og útvarpsráði, að ef hægt væri að spara þetta fé á rekstrinum, þá mætti það allt renna til dagskrárinnar. Eftir miklar umræður og bollaleggingar varð niðurstaðan sú, að útvarpsstjóri tilkynnti útvarpsráði, að af þessum lið gæti fengizt sparnaður, sem næmi hálfu árskaupi eins manns.

Vegna þess að hér er um nokkuð háa fjárhæð að ræða, þykir mér rétt að geta hér um nokkrar tölur í þessu sambandi. — Aukavinna, sem greidd var innheimtuskrifstofu, nemur um 17 þús. kr. Aukavinna á auglýsingaskrifstofu 11500 kr. Aukavinna á fréttastofu 47 þús. kr. Aukavinna hjá þulum 33 þús. kr. Þess er þó að geta í því sambandi, að einn af þulum útvarpsins var veikur nokkuð langan tíma á þessu ári, sem um er að ræða. Aukavinna í magnarasal 53 þús. kr. Aukavinna á Vatnsendastöð 23 þús. kr. — Nú er ekki auðvelt fyrir ráðun. að skera úr um það hjá slíkri stofnun sem útvarpinu, hvort slík aukavinna sem þessi sé nauðsynleg eða ekki, og verður þar að verulegu eða öllu leyti í flestum tilfellum að fara eftir umsögn og ráðleggingum þeirra„ sem fyrir stofnuninni standa. Hitt er annað mál, að það mætti hugsa sér, að úr þessu mætti skera með því að setja rannsókn á þessa stofnun, til þess að ákveða, hvort hægt væri að spara í rekstri hennar. En það er oft mjög erfitt að ákveða og segja til um það, hvort einum manni sé ofaukið eða ekki í einni stofnun.

Þá skal ég koma að því, sem segir í grg. þáltill., að undanfarið hafi hlutdeild dagskrárinnar af heildartekjum útvarpsins farið minnkandi. Þetta er ekki rétt frá skýrt, og skal ég gefa stutt yfirlit um það, hvernig þetta er.

Til dagskrárefnis 1949 hefur verið varið rúmri einni millj. kr. Til dagskrárefnis 1950 verður varið svipaðri fjárhæð. Ég skal taka fram, að í báðum þessum fjárhæðum eru höfundalaun ekki tekin með. Dagskrárefni 1951 á, samkv. fjárlagafrv., að fá eina millj. kr. En þess er að gæta, að á þessu ári hefur aukizt mjög mikið kostnaður í sambandi við laun og annað, sem að sjálfsögðu hækka einnig hjá dagskránni. Þess vegna taldi ég, eftir að búið var að athuga þetta mál, að þessa hækkun mætti eingöngu miða við það, að þetta fé væri hækkað til þess, að dagskráin þyrfti ekki að rýrna frá því, sem nú er, eða til þess, réttara sagt, að dagskráin hefði álíka mikið fé til umráða eins og hún hefur haft undanfarin tvö ár. — En hlutdeildin, sem dagskráin hefur haft í heildartekjum útvarpsins, sem hv. flm. till. segja, að hafi farið minnkandi, hefur komið þannig út: Heildartekjur 1947 voru 4.7 millj. kr., þá fékk dagskráin 683 þús. kr. 1948 voru heildartekjurnar 5.1 millj. kr., af því hafði dagskráin 947 þús. krónur. Heildartekjurnar 1949 voru 5.1 milljón kr., en dagskráin fékk 1370 þús. kr., — að vísu er „Stef“ þarna innifalið með 302 þús. kr. En þetta sýnir, að undanfarin þrjú ár hefur dagskrá útvarpsins fengið hækkandi fjárhæðir, og dagskrárféð hefur frá 1947 til 1949 hækkað um helming, þ. e. úr 683 þús. kr. upp í 1370 þús. kr. Á sama tíma hefur starfsmannahald útvarpsins hækkað úr 1319 þús. í 1589 þús. kr. Það hefur því ekki við nein rök að styðjast, að dagskráin hafi farið minnkandi um fjárframlag í hlutfalli við heildartekjur útvarpsins.

Þá skal ég koma að þessu bréfi, sem ráðun. skrifaði fjvn. Ráðun. tók það ráð, þegar frá fjárl. var gengið, að í staðinn fyrir að hækka afnotagjaldið, þá var hækkað auglýsingagjaldið, og með því móti var hægt að fá jöfnuð á reikningum útvarpsins fyrir næsta ár. En það atvikaðist nú þannig vegna þess, að það var talið heppilegt að hækka auglýsingagjaldið um 50% í stað 25%, sem hafði verið reiknað með, þegar fjárl. voru undirbúin. En tekjur af auglýsingum og öðru slíku hafa jafnan verið mjög miklu meiri en komið hefur fram á fjárlagafrv. Og við þessa hækkun á auglýsingunum, jafnvel þó gert sé ráð fyrir töluverðri rýrnun á þeim, þá munn aukast tekjur útvarpsins svo mikið, að hægt er að standa undir þessari 200 þús. kr. hækkun á dagskrárfénu.

Innborgaðar auglýsingar voru 1929 1355 þús. kr. Ef reiknað er með 50% hækkun á því, kemst það upp í um 2 millj. kr. Af því er áætluð rýrnun um 10%, og þá eru 1800 þús. kr. eftir. Aðrar tekjur eru reiknaðar 100 þús. kr., þannig að aðrar tekjur útvarpsins en afnotagjöldin má með fullri sanngirni áætla, að geti orðið um 1900 þús. kr. á fjárlagafrv. Og þessar tekjar eru nú áætlaðar 1800 þús. kr. Ég lagði þess vegna til, að tekjuáætlunin yrði sett 1000 kr. og að dagskrárliðurinn væri hækkaður um 200 þús. kr.

Ég kem þá að síðasta atriðinu, sem hv. flm. þessarar till. telja, að sé mjög eðlilegt, og það er að hækka afnotagjaldið. Það er nú 100 kr., og er líklega hæsta útvarpsnotagjald í heiminum. Þetta afnotagjald greiða 35 þús. notendur í landinu. Þetta afnotagjald vil ég ekki hækka og mun beita mér á móti því, að það verði hækkað. Þess vegna fór ég þá leið að láta hækka auglýsingarnar, til þess að standa undir nauðsynlegum kostnaði við útvarpið. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. verði mér algerlega sammála, þegar þeir fara að hugsa nánar um þetta, að 100 kr. afnotagjald hér er fullhátt og að það verði ekki hækkað, svo vel fari. Ég er sannfærður um það, að það mundi koma fram í því, ef það væri hækkað, að notendum mundi fækka mjög mikið. Mig furðar þess vegna mjög mikið á því, að hv. flm. þáltill. þessarar skuli ljá máls á því að hækka útvarpsnotagjaldið á öllum almenningi í landinu um 50%.

Ég held, að ég hafi þá gert grein fyrir þessu máli í sambandi við þá gagnrýni, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. þm. Og ég verð að segja það, að þó að ég viðurkenni fúslega, að æskilegt sé, að rekstrarkostnaður útvarpsins gæti lækkað, þá hefur að öðru leyti gagnrýni hv. þm. ekki átt mikinn rétt á sér. Og það er fullkomlega ómaklegt að gefa það í skyn, að menntmrn. hafi lagt sig fram til þess að draga úr fé til dagskrár útvarpsins með því að skera niður framlag til hennar og þannig stuðla að því að gera þennan menningarþátt þjóðarinnar miklu lélegri en hann hefur verið áður.