22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4042)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Ingólfur Jónsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að talað sé um útvarpið. Svo mikil áhrif hefur sú stofnun á alla landsmenn. Nokkurt ósamræmi er milli óska manna um dagskrána. Sumir vilja meiri músík, aðrir fræðandi erindi. Og þetta er allt misjafnlega dýrt. Nú er komið í ljós, að það fé, sem útvarpinu er heimilað til dagskrárinnar, er of lítið. Og tekjur útvarpsins eru ekki nægilega miklar til þess að hægt sé að halda uppi viðunandi dagskrá með því rekstrarfyrirkomulagi, sem er. Útvarpsstjóri kom til viðtals við fjvn.till., sem hann hafði fram að bera til viðréttingar útvarpinu, var að hækka afnotagjöldin. Hans till. var 25% hækkun og byggðist sérstaklega á því, að útvarpsnotendum fari fækkandi. Ekkert var í till. um það að gefa fólki, sem ekki hefur haft tækifæri til að fá sér útvarpstæki, tækifæri til að fá það, né heldur því, sem á gömul tæki og ónýt, möguleika til að endurnýja. Forráðamennirnir hafa horft á það þegjandi, að stofnunin hefur gengið saman, ef svo mætti að orði komast. Og af því að hæstv. menntmrh. er hér inni, vildi ég spyrja hann, hvort ráðuneytið hafi gert ráðstafanir til að bæta úr þessu. — Hefur ráðuneytið gert sér ljóst, að nú á þessari stundu vantar 2–3 þúsund heimili í landinu útvarpstæki, sem mundu strax kaupa þau, ef fáanleg væru? Og ef við segjum 3 þús. tæki með 100 kr. afnotagjaldi fyrir hvert, eru þar 300 þús. kr. Eðlilegast er að taka tekjur útvarpsins á þann hátt, miklu eðlilegra en að hækka afnotagjaldið. Er ég þar sammála hæstv. menntmrh., að mér finnst ekki koma til mála að hækka það. því að þó að hundrað krónur séu í dag ekki mikill peningur í augum margra, mun margur vera þannig staddur, að honum veitist erfitt að greiða þessar hundrað krónur. Áður var afnotagjaldið aðeins 60 kr. Þegar það var hækkað úr 60 kr. í hundrað krónur, var ætlazt til, að þessar 40 kr. færu í byggingarsjóð útvarpsins. En þær hafa ekki lent þar, heldur teknar í eyðslu, þvert ofan í það, sem ætlazt var til, þegar afnotagjaldið var hækkað fyrir tveimur árum.

það er vitanlega með öllu óviðunandi, að útvarpsnotendum fari fækkandi í landinu vegna þess, að útvarpstæki eru ófáanleg. Á því ári, sem nú er að líða, hefur ekkert verið flutt inn af efni til þess að byggja útvarpstæki í landinu, en eins og kunnugt er, hefur viðtækjasmiðja útvarpsins gert nokkuð að því að byggja tæki, sem eru mjög sæmileg fyrir Reykjavíkurstöðina. Og gjaldeyriskostnaður er vitanlega mun minni, þegar tækin eru byggð hér, jafnvel mörgum sinnum minni en ef flutt eru inn tilbúin. Það fólk, sem myndar heimili, hugsar einna fyrst um það að fá sér útvarpstæki, miklu fremur en mörg önnur þægindi, sem heimilið þarfnast. Og í strjálbýli er útvarpið eina tækið til þess að hafa stöðugt samband við umheiminn. Það þykir þess vegna tómlegt á heimili, þar sem ekki er útvarpstæki. Og þeim, sem átt hafa útvarpstæki, þykir að vonum hart að geta ekki haft möguleika til að endurnýja það, þegar það er orðið ónýtt.

Ég vil sem sagt við þetta tækifæri gera fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um það, hvort ráðuneytið hafi ekki þegar gert ráðstafanir til þess, að flutt verði inn í landið nægilegt efni til þess að byggja útvarpstæki hér í landinu, sem eru viðunandi að gæðum og nái fyllilega Reykjavíkurstöðinni, hvar sem er á landinu. Eða þá, ef hæstv. ráðuneyti hefur ekki gert ráðstafanir til þessa, hvort það hafi ekki í hyggju að gera þær, — bæði til þess að fullnægja þörf landsmanna og til þess að afla útvarpinu tekna á eðlilegan hátt.