22.11.1950
Sameinað þing: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (4050)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Varðandi það, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að þær tölur, sem ég fór með um starfsmannafjölda útvarpsins, væru ekki í samræmi við launaskrána, þá vil ég taka það fram, að ég hafði mínar upplýsingar úr launaskrá ríkisútvarpsins fyrir árið 1949.

Varðandi það, sem hæstv. menntmrh. sagði um gagnrýni mína, vil ég aðeins taka það fram, að ég gagnrýndi menntmrh. fyrir að hafa ekkert annað úrræði en lækka greiðsluna til dagskrárinnar. — Útvarpsráð óskaði að fá meira fé til umráða, en útvarpsstjóri hafði sagt, að ekki væri hægt að fá meira en í fyrra, 1.2 millj. kr. Þessa kostnaðaráætlun endurskoðaði menntmrn. og lækkaði hana um 200 þús. kr. og hækkaði auglýsingarnar, til þess að vega upp á móti hallanum.

Mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. dómsmrh. skyldi taka undir það, að rekstrarkostnaðurinn yrði að lækka, og vil ég þakka honum þau ummæli hans. — Rétt er það hjá hæstv. dómsmrh., að verkefni nefndarinnar yrði ekki það sama og verkefni það, sem sakadómara hefur verið falið að inna af hendi, og er þess vegna full ástæða til að samþ. þessa till. Hún ætti ekki að rannsaka, hvort eitthvað væri saknæmt í rekstrinum, alveg á sama hátt og sakadómari á ekki að rannsaka, hvort rekstrarkostnaðurinn er of mikill. Þetta tvennt er algerlega óskylt.