06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (4060)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði hér áðan, enda hefur engu af því verið hnekkt. Ég setti ekki sakamálarannsókn á útvarpið í samband við þá rannsókn, sem till. fjallar um. Hins vegar sýndi ég fram á það, að þótt nú hæfi að hafa tvö járn í eldinum, þá hefur það komið fram í umr., að ekki sé síður ástæða til að rannsaka rekstur annarra ríkisstofnana.

Viðkomandi því, sem hv. þm. Barð. sagði um afstöðu mína í fjárhagsráði í sambandi við skólabyggingar, sé ég ástæðu til að láta þá leiðréttingu koma fram, að þegar verið var að ræða um framlög til skólabygginga, voru aðeins 3 af þeim nýjar, þannig að tiltölulega lítið af framlaginu fór til þeirra, en meginhluti þess fór til að fullgera skóla, sem byrjað hafði verið á í mesta peningaflóðinu, og var því aðeins um að ræða, hvort ætti að láta þá standa ónotaða eða fullgera þá.