13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (4068)

85. mál, dagskrárfé útvarpsins

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ekki datt mér í hug, að út af þessari litlu tillögu spynnust svo miklar umræður. Eins og fram hefur komið í umr., var þessi till. komin fram áður en deilan um útvarpið spratt upp. Till. ber með sér, hver sé meining flm., eins og allir geta séð. Aðeins athugun á gjöldum útvarpsins og hvort ekki sé hægt að verja meira fé til dagskrár. Nokkur viðbætir var gerður við till. af hálfu nefndarinnar, um að um leið og athugunin fer fram verði athugað, hvort ekki sé hægt að koma á heildarsparnaði við þessa stofnun. Ef mönnum er þetta þyrnir í augum og ef um einhverja sök er að ræða, þá er hún hjá mér. Ég fyrir mitt leyti hefði ekki talið óeðlilegt að vísa málinu til ríkisstj. Till. þessi gerir ráð fyrir, að allt þetta verði í höndum ríkisstj. Mér þótti þetta liggja beinast við. Hún hefur málið í sinni hendi til framkvæmda, hvernig svo sem það verður leyst. Ég gat ekki gert svo mikið úr þessu atriði, að ég gerði það að ágreiningsefni. Nefndin varð ósammála um till. Einn þm., hv. 2. landsk., kom með sérstaka till. Það, sem hann kemur með, er annað mál. Það er allsherjar athugun á ríkisstofnunum, hvort ekki sé hægt að reka þær með meiri sparnaði. Ég ætla síður en svo að mæla á móti henni, en að setja hana í samband við þetta mál er ekki rétt. Höfuðtilgangurinn er aðeins, að þetta verði flutningur milli gjaldaliða. Svo kemur viðbótin, ef hægt er að koma við sparnaði. Ég held þess vegna, að ræða hv. þm. hafi verið á misskilningi byggð og rangt að setja hana í samband við það, sem siðar gerðist og snertir þessa stofnun. Hv. þm. N-Ísf. vildi verja meiru fé til dagskrár. Ég tek undir það að nokkru leyti, að þýðing þessarar stofnunar sé mikil fyrir þjóðina, en því aðeins, að þetta starf sé leyst vel af hendi. Aukið fé til dagskrár er ekki nóg. Þar ráða þeir kraftar, sem hægt er að fá til þess að sinna slíkum störfum. Það er enginn efi, að þetta sé þjóðinni svo gagnlegt, að það saki nokkuð, þótt nokkuð sé dregið úr kostnaðinum. Í því efni sem öðru verða þeir að vinsa úr, sem völdin hafa, og vonandi er, að þeir verði heppnir í sínu vali. Ég hef gert tilraun til að leiðrétta þann misskilning, sem komið hefur fram í umr. um þetta mál, og skal ekki fjölyrða frekar um það.