12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Þetta hefur að vísu verið hrakið hér við umr. áður, en það er rétt, að enn einu sinni komi fram leiðrétting á þessum misskilningi, sem virtist gæta hjá honum. Það er þá fyrst, að línan sé dregin við Vaðlaheiði, — hún er hvorki dregin við Vaðlaheiði né nokkur önnur landfræðileg takmörk, hún er dregin við 20% tap á heyfeng og hvergi annars staðar. Þar að auki er, eins og ég hef þegar tekið fram, tapið miklu meira, af því að heyin eru víða svo léleg, að þau hafa sama og ekkert fóðurgildi. Og viðvíkjandi skiptingunni í smærri atriðum er rétt að taka það fram, að það eru ekki nærri allir hreppar innan þeirra sýslna, þar sem vandræðin eru mest, sem fá hjálp. Það er því ljóst, að takmarkalínan er ekki dregin við Vaðlaheiði, heldur einungis við það tjón, sem menn hafa orðið fyrir. — Annað atriðið í ræðu hv. þm. var, að bjargráðasjóður hefði átt að úthluta þessum styrk. Því er til að svara, að hann á ekkert fé til, og var hér fylgt sömu reglu og hvað eftir annað hefur verið gert, þegar um það hefur verið að ræða að veita þar styrk, en þá hefur verið gengið fram hjá honum, til þess að beinn styrkur til sjávarsíðunnar tefðist ekki af þeim sökum. Hefði honum hins vegar verið uppálagt að taka lán, hefði það orðið til þess, að hann hefði ekki verið starfhæfur í 9–10 ár. Þetta var því eina leiðin, sem fær var, eins og sakir stóðu. Því var fylgt þeirri sömu reglu og gert hefur verið ótalinörgum sinnum, þegar um það hefur verið að ræða að veita hjálp til sjávarsíðunnar. — Þá er það að gefa út brbl. rétt fyrir samkomudag Alþingis. Ef stj. hefði gefið loforð, þá verður að hafa það í huga, að loforðin ein dugðu ekki. Bændur urðu að fá ákveðin svör um örugg lán og öruggan styrk, til þess að þeir gætu ákveðið þá þegar, hvað þeir settu á. Hefði þetta ekki verið gert strax, þá hefði stj. verið að gefa loforð um lög um aðstoð til að forða þeim búpeningi, sem búið var að skera. Það mátti ekki muna nema nokkrum dögum, og því voru gerð orð oddvitum að tilkynna bændum þetta, svo að þeír gætu þá strax ákveðið, hvað þeir gætu sett á. Það var brugðizt við strax, og hefði það ekki verið gert þá hefði þessi hjálp að engu haldi komið, því að rétt á eftir skall á með hríðar, svo að þetta mátti ekki seinna vera, ef hjálp átti að veita á annað borð. Svo er verið að tala um það, að fljótt hafi verið brugðizt við. Það mátti ekki seinna vera, ef að haldi átti að koma, hitt hefði verið það sama og láta bændur ekkert vita og láta þá slátra bústofninum. Þetta veit hver einasti maður, sem til þekkir, og ég sé, að bændurnir hér á þinginu sitja með ólundarsvip, þegar verið er að tala um það, að fljótt hafi verið brugðizt við. Það veit það hver maður, sem nokkuð þekkir til, að þetta mátti ekki seinna vera. Og ég fullyrði, að aldrei hefur verið meiri ástæða til þess að gefa út brbl. en einmitt nú, og það voru allar þær ástæður fyrir hendi, sem heimiluðu, að slíkt væri gert. Og ef ríkisstj. hefði ekki gert þetta, hefði hún sýnt af sér vítavert skeytingarleysi. — Ég hef nú sýnt fram á það, að engu mátti muna, að þessi hjálp kæmi að gagni. Þetta skilur hver maður, og það hefur verið margsýnt fram á það hér áður, en ég gat ekki setið þegjandi undir ásökunum um það, að fljótt hafi verið brugðizt við, þegar engu mátti muna, að hjálpin kæmi að haldi.