08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (4465)

134. mál, endurheimt handrita frá Danmörku

Pétur Ottesen:

Ég flutti hér á síðasta Alþ. fyrirspurn til ríkisstj. um, hvað hún hygðist gera í sambandi við endurheimt handrita og forngripa, sem varðveitt eru í söfnum í Danmörku og eru í eigu Íslendinga. Utanrrh. gaf þær upplýsingar, að skipuð hefði verið nefnd í Danmörku, sem skyldi athuga þetta mál, þ. e. kröfu Íslendinga um, að þeim yrðu afhent þessi handrit og forngripir, og gerði ráðherra ráð fyrir, að innan skamms mætti vænta álits frá þessari nefnd.

Nú er liðið nærri eitt ár síðan þessi fyrirspurn var borin fram og ráðh. gaf þessar upplýsingar, og að því er það snertir, að eitthvað lægi fyrir frá þessari nefnd, þá hefur það brugðizt, og hefur nefndin engu áliti skilað. Mér þótti því rétt að taka upp þráðinn aftur, eins og gert hefur verið á Alþ., því að nokkuð er um liðið frá því að gerðar voru till. um það, að Alþ. gerði Dönum kröfur þess efnis, að þeir skiluðu aftur handritum og forngripum, sem Íslendingar eiga í dönskum söfnum. — Eins og drepið er á í stuttri greinargerð lét Alþingi mjög til sín taka í þessum efnum eftir aldamótin síðustu og gerði till. um þetta. Það hefur lítinn árangur borið, þegar frá er tekið, að Danir hafa skilað aftur þeim handritum, sem sanna mátti, að Árni Magnússon fékk að láni héðan.

Mér virðist því, að sjálfsagt sé, að skorað verði á íslenzk stjórnarvöld að taka þetta mál upp aftur, því að sýnt er, að af hálfu Dana hefur ekkert verið aðhafzt enn, af hvaða orsökum sem það er, auk þess sem Íslendingar telja það skyldu sína að fá þessa fjársjóði heim og geymda í sínu eigin landi, þar sem skilyrði fyrir slíkri varðveizlu eru hér miklu meiri nú en áður, þó að það sé hins vegar staðreynd, að mikið af handritunum hefur glatazt einmitt af því, að þau voru flutt úr landi.

Fyrst og fremst fór forgörðum fjöldi handrita með skipi, sem týndist í hafi, auk þess mikla afhroðs, sem þau guldu við brunann mikla í Kaupmannahöfn, þegar Árnasafn brann. Nú hafa Íslendingar slitið stjórnmálatengslum við Dani, og einn þáttur í þeim aðskilnaði hlýtur að verða, að þessum menningarfjársjóðum verði skilað í hendur Íslendingum og þeir verði teknir til varðveizlu hér í þeirra eigin landi.

Í öðru lagi er það svo, að með því að geyma þessa gripi í Kaupmannahöfn eru þeir í miklu meiri hættu að týnast og eyðileggjast en hér. Vil ég í því sambandi benda á nokkur ummæli Tryggva Þórhallssonar frá 1924 um þetta mál. Hann gat þess, að um það hefðu orðið nokkrar umr. í Danmörku, hvað hægt væri að gera til varðveizlu söfnunum í stríði, og drap þá m. a. á ummæli, sem yfirhershöfðingi Dana hafði viðhaft um þetta mál, og ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þau hér upp: „Það er alls eigi hægt að gera neitt til bjargar söfnunum. Bókhlaðan er á hinum hættulegasta stað, mitt á milli aðalstöðva hersins: herráðsins og vopnabirgðanna í hergagnabúrinu. Óvinirnir munu auðvitað beina skotum sínum þangað fyrst og fremst. Herskip, sem hefði langdrægar fallbyssur, getur legið úti á Kögeflóa og skotið þessi hús í rústir. Við getum ekki komið í veg fyrir það. Væntanlegir óvinir vita auðvitað, hvar helztu stöðvar hersins eru. Þeir munu eigi taka nokkurt tillit til vísindalegra stofnana. Það er eigi hægt að gera nokkuð fyrir bókhlöðuna. Það væri alveg tilgangslaust að flytja eitthvað af því dýrmætasta niður undir gömlu hvelfingarnar frá dögum Kristjáns IV. og bera þar að sandsekki. Skipabyssur nútímans skjóta í gegnum þetta allt. — Það er ekkert hægt að gera. Þeir staðir eru ekki til í borginni, sem talizt geta öruggir fyrir nútíma stórskotahríð, nema á sumum herstöðvunum. Bókhlaðan getur alls ekki notið góðs af þeim.“

Þetta var sagt 1923, og þá má geta nærri, hversu ástatt muni vera í þeim efnum nú, þegar aukin tækni hefur í för með sér aukna eyðileggingu, og er nú ekki að miða við skothríð frá skipum, heldur sérstaklega frá flugvélum. — Tryggvi Þórhallsson lét enn fremur svo um mælt:

„Það er því með öllu ljóst orðið, að það er ekki einungis, að þessum dýrmætu skjölum er með órétti haldið fyrir okkur suður í Kaupmannahöfn, heldur eru þau einnig í mikilli hættu stödd. Þau eru svo að segja sett á guð og gaddinn.“

Það er auðvitað mikilsvert atriði við þetta mál, ef þessi miklu verðmæti eru miklu verr geymd þar, sem þau nú eru, heldur en ef þau væru flutt til landsins, því að þótt hér gætu þau ekki síður orðið fyrir loftárásum en þar, þá er hér mikil víðátta, sem hægt væri að flýja til, eins og gert var í síðasta stríði.

Nú hefur sem sagt ekkert verið gert í þessu máli, að Danir framselji handritin, af hálfu Alþingis, og síðast þegar þessu máli var hreyft af hálfu Íslendinga, fékkst það svar, að Danir væru að athuga þetta mál.

Ég vil skjóta því til Alþingis að gjalda varhuga við að slá á frest ákveðnum aðgerðum í þessu máli, um leið og ég vil með þakklæti minnast þeirra fræðimanna íslenzkra, sem vel og skorinort hafa skrifað um þessi mál og haldið fram rétti Íslendinga um þau. Og það má ekki minna vera, um leið og þessara manna er minnzt með þakklæti, en Alþingi taki undir þetta mál og feli íslenzku ríkisstj. að gera gangskör að því, að þessum gripum og handrifum verði skilað sem fyrst. Og ég vænti þess, að afstaðan til þessa máls sé óbreytt frá því, sem áður var, þar sem ríkari ástæða er nú en áður fyrir hendi, sakir aukinnar hættu í Danmörku.

Ég vona, að Alþingi samþykki þessa till. og fylgi því eftir, að ríkisstj. geri gangskör að því að endurheimta handritin.

Ég tel sjálfsagt, að þessu máli verði vísað til nefndar, og geri það að till. minni, að það fari til allshn., og veit, að hún muni gera þessari till. skil með skjótri athugun málsins.