28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki svo kunnugur þessum málum, að ég geti sagt nokkuð ákveðið þar um. En ef það er rétt, sem hv. flm. segir, að þarna sé um að ræða söfnuð, sem safnist um kirkju, sem hann ekki á, þá ætti það að vera, að jörðinni og kirkjunni fylgdi einhver sjóður. Ekki veit ég, hvort svo er. Og þar sem svo er háttað, að kirkjan er ekki safnaðareign, heldur eign ákveðinnar jarðar, þá hvílir sú kvöð á jarðeiganda, að hann haldi kirkjunni við. Og ég er ekki viss um hvort ríkisstj. getur tekið þá kvöð undan, nema þá söfnuðurinn fáist til að taka við kirkjunni og sjá um hana og gera hana að safnaðarkirkju. Ég hygg, að það þurfi að leysa þetta mál, hvort söfnuðurinn verði látinn taka við kirkjunni eða hvort sú kvöð hvílir á bóndanum, ef hann kaupir jörðina, en mér er ekki svo kunnugt um þessi mál, að ég þori að fullyrða neitt um það. En ef hv. flm. brtt. vill taka hana aftur til 3. umr., þá get ég lofað því, að nefndin skal taka málið til athugunar á milli umr. Það verður vitanlega gert af ráðuneytinu að rannsaka þetta mál, af biskup og kirkjumrn., en þeirrar umsagnar skal ég afla mér, og þá hvort hægt er að skilja þetta tvennt að, sölu jarðarinnar og kirkjunnar, sem ég raunar efast um, og hvort söfnuðurinn vill taka að sér kirkjuna. Ef flm. vill taka till. aftur, þá skal ég sjá um, að þetta verði athugað.