13.10.1950
Sameinað þing: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

1. mál, fjárlög 1951

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lagt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir hv. Alþingi og skýrt frá fjárhagsástæðum ríkissjóðs. Því ber að fagna, að fjárlagafrv. er að þessu sinni nr. 1 meðal þingskjala, og er vonandi, að Alþingi beri gæfu til að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Á þetta ber að sjálfsögðu að leggja ríka áherzlu. Því miður hefur Alþingi nokkur undanfarin ár neyðzt til þess að draga afgreiðslu fjárlaga fram á ár það, er fjárlög áttu að gilda fyrir. Sú ástæða hefur verið færð fyrir þessum drætti, að leysa þyrfti vandræði útgerðarinnar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Úrlausn útgerðarmálanna hefur tekið svo langan tíma á ári hverju, að fjárlagaafgreiðslan hefur tafizt hennar vegna.

Hæstv. ríkisstj. var mynduð á þessu ári til þess að koma á framfæri frambúðarúrlausn, sem hún svo nefndi, á vandamálum útvegsins. Gengislækkunarlöggjöf hæstv. ríkisstj. átti eftir hennar sögn að lækna meinsemdir útgerðarinnar. Vera má, að hæstv. ríkisstj. sé þeirrar trúar, að þar séu engin vandræði lengur á ferðum, og þá þarf að sjálfsögðu engrar frekari lækningar með, eða þá að hæstv. ríkisstj. sjái einhver hulin ráð til þess að koma útgerðinni á stað á vertíð án þess að leggja neitt fé fram úr ríkissjóði í þessu skyni. Hvort sem heldur væri, þarf hæstv. Alþingi ekki annað en að flýta sér að afgreiða fjárlögin, fara svo heim um áramótin og reka þannig af sér slyðruorðið um sleifarlag á afgreiðslu fjárlaga. Þjóðin býr nú við hið gullna jafnvægisástand gengislækkunarinnar, og það á, eftir sögn hæstv. ríkisstj., að fleyta henni yfir alla örðugleika. Ef svo er, væri mikið lán fyrir þjóðina að eignast slíka ríkisstj. og slíkan fjmrh., sem hyggst á svo auðveldan hátt leysa vandræði, sem áður hafa tekið Alþingi marga mánuði.

Hæstv. fjmrh. hefur að sjálfsögðu undirbúið fjárlagafrv. þetta af sínum alkunna dugnaði. En við lestur frv. saknar maður efnda ýmissa loforða, sem hæstv. ríkisstj. gaf í sambandi við gengislækkunina. Eða hvar eru tollalækkanir þær, sem heitið var? Tekjuáætlunin er að vísu lækkuð hvað tollum og sköttum viðkemur frá núgildandi fjárlögum um rúmar 12 millj. kr., en sú lækkun stafar af minnkandi vonum um innflutning og einnig af því, að hæstv. fjmrh. áætlar minnkandi þjóðartekjur þrátt fyrir loforð gengislækkunarmanna um, að þær færu vaxandi. Á öllum sviðum er gert ráð fyrir að halda þeim sköttum og tollum, sem giltu fyrir gengislækkunina, og enn fremur þeim hækkunum, sem á tollunum urðu vegna hennar.

Hv. alþm. og aðrir áheyrendur eru þess minnugir, að aðalmótbáran gegn því að fara áfram hina svonefndu uppbótaleið og niðurgreiðslu var sú, að tollarnir og skattarnir yrðu óbærilegir. Hins vegar var því óspart haldið fram af forsvarsmönnum gengislækkunarinnar, að tollarnir mundu lækka við gengislækkunina, og það til muna. Þessi gullnu loforð um lækkun tolla eru að vísu ekki nema rúmlega sjö mánaða gömul, en sízt bólar á uppfyllingu þeirra í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj.

Hækkun tollanna og skattanna vegna gengislækkunarinnar er þó ekkert smáræði. Tekjuskattur og útsvar hækkar á hverjum manni vegna aukinnar dýrtíðar, verðtollur hefur hækkað um 48–53% og söluskattur um 64–72%. Loforðin um tollalækkanir í sambandi við gengislækkunina hafa valdið fullum vonbrigðum eins og önnur loforð um stöðuga atvinnu og þess háttar hlunnindi, sem gengislækkunin átti að færa mönnum. Mun ég koma að því síðar, en vil fyrst víkja nokkrum orðum að gjaldahlið frv.

Hæstv. fjmrh. hefur í fjárlagafrv. sýnt lofsverðan áhuga á því að leggja niður nokkur óþörf embætti, eins og t.d. sendiráðið í Moskva og embætti flugmálastjóra. Ber að þakka þetta og viðurkenna. Mætti eflaust fara nokkru lengra á þessari braut, svo sem að sameina skyldar ríkisstofnanir og skipuleggja betur störf þeirra, sem þar vinna. Þeir, sem eru í þjónustu ríkisins, ættu að taka slíku með þökkum og skilningi. Þó verður að gæta þess að skera ekki svo fjárveitingar við nögl, að starfsmenn ríkisins fái ekki nauðsynleg áhöld og aðbúð, svo að störf þeirra geti komið að fullu gagni. Við fljótan yfirlestur athugasemda við frv. gætu sumar þeirra bent á, að slíkt ætti sér stað, sums staðar væri hafður í frammi nokkur naglaskapur, en á öðrum stöðum ofrausn við gæðinga. Við fækkun embætta verður að gæta þess að leggja ekki niður nauðsynlega starfrækslu. Veiðimálastjórinn er farinn til útlanda. Embættið á að leggjast niður; en hver er ætlunin með fiskiræktina? Á jafnframt að leggja hana niður, þó að hún sé bæði nauðsynleg og arðsöm? Þá virðast námsmenn erlendis ekki eiga upp á pallborðið hjá hæstv. fjmrh., og skáld, vísindamenn og listamenn eiga engrar uppbótar að njóta á síhækkandi dýrtíð. Vitað er, að atvinnuleysi er orðið mjög mikið víða á landinu þrátt fyrir loforð gengislækkunarmanna um stöðuga atvinnu. Er því frekar en nokkru sinni fyrr aukin þörf til afskipta og fyrirgreiðslu um vinnumiðlun. Til þess var áætlað á þessa árs fjárlögum 100 þús. kr., en er nú fellt niður af hæstv. fjmrh. Ekki dró ríkissjóð mikið um þessa upphæð, en tillagan um niðurfellingu sýnir lítinn skilning á þörfum verkamanna.

Húsaleigueftirlit var áætlað á núgildandi fjárlögum 179 þús. kr., en er nú áætlað kr. 134832. Húsnæðismálin eru, svo sem Reykvíkingum einkum er kunnugt, eitt af aðaláhugamálum Framsfl. Þau voru m.a. ein helzta „hliðarráðstöfun“ flokksins, svo að það er í fullu samræmi við aðrar efndir, að fellt sé niður sem allra mest af þeim slitróttu ráðstöfunum, sem enn eru í gildi í því skyni að hafa hemil á húsaleiguokrinu.

Húsaleigueftirlit og vinnumiðlun eru hvort tveggja félagsmálaráðstafanir, sem jafnaðarmannaflokkarnir og frjálslyndir á Norðurlöndum telja sér skylt að rækja. Blaðið Tíminn er stundum að reyna að telja lesendum sínum trú um, að Framsfl. sé eins konar jafnaðarmannaflokkur. Nú hefur hæstv. fjmrh. afhjúpað þessa blekkingu óþyrmilega með tillögum sínum um að afnema bæði húsaleigueftirlit og vinnumiðlun. Sama má segja um tillögur hans um framlög til almannatrygginga. Hinn gætni forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, hafði lagt til, að framlög samkvæmt 116. gr. laganna yrðu ákveðin 20,7 millj., en hæstv. fjmrh. ætlar að láta 17,3 millj. nægja. Af þessu má sjá, að skilningur hæstv. ráðh. á gagnsemi og tilverurétti almannatrygginganna hefur sízt farið vaxandi í 7 mánaða samvinnu við Sjálfstfl. einan. Er þetta sízt sagt til þess að lasta hæstv. ráðh. persónulega; hins vegar gjalda menn svo þunga skatta til ríkissjóðs, að full ástæða er til, að menn geri sér ljóst, hvernig þeim er varið.

Einnig verða menn að virða til vorkunnar hið bága fjármálaástand, þegar fjárlögin eru athuguð. Hlýtur slíkt að hafa áhrif á afgreiðslu þeirra. Ekki ber þó frv. það, sem hér er til umræðu, þetta með sér. Ekki er þar, svo sem áður segir, gert ráð fyrir lækkunum tolla og skatta til þess að bæta úr ástandinu á þann hátt. Ekki er heldur gert ráð fyrir neinum sérstökum fjárveitingum til þess að rétta hag atvinnuveganna, þrátt fyrir hina gífurlegu skatta. Fjárlagafrv. virðist af hálfu hæstv. ríkisstj. byggt á því, að gengislækkunarlögin hafi nú þegar haft þau áhrif á afkomu landsmanna, sem spáð var í grg. fyrir frv. ríkisstj. Gleggsta sönnun fyrir þessu hygg ég vera 16. gr. frv.; þar er áætlað til landbúnaðarmála 25760075 kr., en til sjávarútvegsmála 3713244 kr.

Það er fjarri mér að telja eftir fjárframlög til landbúnaðar, og fyllilega viðurkenni ég þá nauðsyn, að þessi forni og heilbrigði atvinnuvegur blómgist og að Alþingi styðji að því. En svo getur þó ekki orðið til frambúðar, nema einnig sé starfað að öðrum atvinnuvegum landsmanna. En hversu lengi er unnt að veita fé til sveitanna, ef sjórinn gefur engan arð? Ráðstafanir utan fjárlaga geta verið alveg bráðnauðsynlegar, en þegar vitað er, áður en fjárlagafrv. er lagt fram, að ekki verður komizt hjá að gera neyðarráðstafanir, hvers vegna er ekki gert ráð fyrir þeim í fjárlagafrv? Og hvers vegna er ekki litið jafnt á hag hinna nauðstöddu, hvort sem þeir eiga heima í sveit eða við sjó? Hinn mikli mismunur á áætlun fjárlagafrv. á framlögum til landbúnaðar og sjávarútvegs gefur fyllilega tilefni til þessarar spurningar. Og svarið er hið venjulega: Ótti stjórnarflokkanna við kjósendur í sveitunum ræður því stéttamisrétti, sem kemur fram í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Þarfir nauðstaddra í sveitum hafa hjá hæstv. ríkisstj. forgangsrétt fyrir þörfum þeirra manna við sjóinn, sem líkt stendur á fyrir. Glöggt dæmi þessa er viðbragðsflýtir hæstv. ríkisstj. um aðstoð við bændur á óþurrkasvæðum austanlands annars vegar og hins vegar afskiptaleysi hennar af högum manna, sem koma heim til fjölskyldna sinna með tvær hendur tómar af síldarskipum eða úr síldarvinnu á Norðurlandi.

Óþurrkarnir herja bændur eitt sumar. Þeir standa uppi heylausir fyrir skepnurnar. Hæstv. ríkisstjórn sendir tafarlaust tvo þingframbjóðendur úr einni sýslu til þess að kynna sér ástandið. Síðan bregður hún skjótt við og útvegar 41/2 millj. kr. viku áður en Alþingi kemur saman. Hreppsnefndir eiga að útbýta fénu í styrki til bænda. Engra skýrslna er krafizt um fjárhag þeirra, svo að vitað sé. Svo drengilega er brugðið við sem raun ber vitni til þess að forða búfé bænda frá niðurskurði. Er ekki nema gott eitt að segja um þennan flýti hjá hæstv. ríkisstj. Færi betur, að hans gætti í fleiru. En þessi sama hæstv. ríkisstj. setur nefnd ofan á nefnd til þess að leita skýrslna hjá þeim, sem sjötta sumarið í röð koma heim af síldveiðum með tvær hendur tómar eða jafnvel skuldir á baki. Heilt ár þurftu síldveiðisjómenn að bíða eftir því að fá sjóveðskröfur sínar frá sumrinu 1949. Hafði þó Alþingi bannað þeim að innheimta þær með lögsókn, en ekki munu innstæður þeirra í flestum tilfellum hafa numið meira en svarar verðmæti hálfs kýrfóðurs. Slíkur er viðbragðsflýtir og rausn hæstv. Alþingis, þegar sjómenn eiga í hlut. Bændum er, sem betur fer, skjótari aðstoð látin í té. En um sjómenn er öðru máli að gegna. Enn koma sjómenn heim af síldveiðum með tvær hendur tómar. Þeir hafa ekkert fyrir sig að leggja eða fjölskyldur sínar. Atvinnuleysi og bjargarskortur herjar mörg hundruð eða þúsundir sjómanna- og verkamannafjölskyldna, einkum vestanlands, austanlands og norðan. Bæjarog sveitarstjórnir eru févana og geta ekkert úr bætt. Hæstv. ríkisstj. hefur enn þá ekkert gert til að bæta úr þessu, en hefur hins vegar lagt fram tillögur um að afnema opinbera skýrslusöfnun um atvinnu og tekjur verkamanna og sjómanna. Vonandi sér hæstv. ríkisstjórn sig um hönd í þessu máli, því að vissulega er ástandið orðið þannig, að það verður ekki falið.

Hér við Faxaflóa er ástandið nokkru betra vegna haustsíldveiðanna. Fjöldi iðnaðarfólks hefur þó litla eða enga atvinnu. Víða úti á landi er ástandið alveg geigvænlegt. Haustróðrar eru venjulega hafnir um þetta leyti árs á Vestfjörðum og hraðfrystihúsin tekin að frysta fisk, sem gæti verið verðmætur fyrir Ameríkumarkað. Á þessu hausti er enginn farinn að hreyfa sig. Ekkert hraðfrystihús er tekið til starfa, og engir bátar geta farið á sjó. Vegna gengislækkunarinnar hefur útgerðarkostnaðurinn, olían, veiðarfærin og beitan hækkað svo gífurlega, að ekki getur svarað kostnaði að stunda sjóróðra. Gengislækkunin hefur bókstaflega drepið smáútgerðina úti um land.

Mér þykir leitt að þurfa að raska gengislækkunarró hæstv. fjmrh., en í þessu sambandi verður ekki komizt hjá að spyrja: Hvað ætlar hæstv. ráðh. að gera til þess að bæta úr hinu uggvænlega ástandi? Varla mun hæstv. ráðh. svara því, að hann telji sér þetta óviðkomandi eða honum sé það ókunnugt. Eða hvort mun hann telja þörfum hins sveltandi verkafólks í sjávarþorpunum úti á landi fullnægt með loforðum gengislækkunarmanna? Þau voru að vísu ekkert smáræði. Gengislækkunarlögin hafa nú fengið fyllilega þann reynslutíma, sem höfundar þeirra töldu nægilegan. Um þetta segir í gengislækkunarfrv., bls. 5: „Gert er ráð fyrir, að áhrif gengislækkunarinnar muni koma fram á næstu þrem mánuðum“. Síðan er talað um nauðsyn þess að festa verðlag og kaupgjald á hinum nýja grundvelli og áætlað „sex mánaða tímabil til slíkrar jafnvægismyndunar og festingar“. Á bls. 46 í þessu sama plaggi er gert ráð fyrir, að verðhækkunin verði aðeins um 11–13%; en til fróðleiks má geta þess, að framfærsluvísitalan er nú þegar orðin 120–121 stig, eða nær helmingi hærri en gert var ráð fyrir.

Í fjárlagafrv. er reiknað með 15% uppbót á laun, en þessi upphækkun hlýtur að kosta ríkissjóð störf, sem hvergi er gert ráð fyrir í frv. og torveldar enn rekstur atvinnuveganna.

Allir hafa spádómarnir og fullyrðingarnar farið eftir þessu. Gengislækkunin átti að stöðva atvinnuleysi, hún átti að stöðva hallarekstur bátaútvegsins, hún átti að verða til kjarabóta fyrir almenning, hún átti að útrýma svartamarkaðsbraski. Eftir sjö mánaða reynslutíma af gengisfellingunni mun mönnum þykja ótrúlegt að heyra loforðin, sem gengislækkunarpostularnir gáfu; hér eru nokkur sýnishorn um hinn ágæta tilgang. Á bls. 6 í grg. segir:

„Ber þá fyrst að benda á, að megintilgangur frv. er að stöðva það atvinnuleysi, sem nú er að hefjast og án alls efa mun fara ört vaxandi, verði ekki að gert. Frá þessu höfuðsjónarmiði er frv. launastéttum landsins mikill fengur, ef að lögum verður. En þar við bætist svo, að með ákvæðum þess eru launþegum beinlínis tryggðar fullar kaupuppbætur eftir framfærsluvísitölu, með þeirri einu undantekningu, að reynt er að stöðva það kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags landbúnaðarafurða, sem fram að þessu hefur leitt þjóðina æ lengra inn á óheillabrautina“.

Finnst mönnum ekki atvinnuleysið stöðvað? Finnst mönnum ekki kapphlaupið með hækkun landbúnaðarafurða stöðvað?

Á bls. 7 í grg. er væntanlegum afleiðingum frv. lýst á þennan hátt:

„Hér skal ekki fjölyrt um afleiðingar frv. Aðaltilgangur þess er að stöðva hallarekstur, fella niður ríkisstyrki og skapa jafnvægi í atvinnulífi landsmanna og þar með koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi. Jafnframt er að því miðað að skapa skilyrði til frjálsrar verzlunar, sem yrði almenningi til mikilla hagsbóta“.

Er ekki hallareksturinn stöðvaður, njótum við ekki frjálsrar verzlunar? Er ekki jafnvægi í atvinnulífinu? Það svarar hver fyrir sig. Alþýðusamtökin hafa mótmælt frv., bent á galla þess og krafizt leiðréttingar. En þau hafa ekki hækkað grunnkaup umfram það, sem lög heimiluðu. Þau hafa látið lögin sýna sig í framkvæmd og ekki sýnt hæstv. ríkisstj. enn þá hnefann, nema þegar hún ætlaði að brjóta sín eigin lög og stórfalsa kauplagsvísitöluna. Ríkisstj. hefur fengið fullt næði til að framkvæma gengislækkunarlögin. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur farið úr hendi hennar þáttur í framkvæmd laganna, þ.e. að halda verðlaginu í skefjum. Í því efni er ekki ofmælt, að hæstv. ríkisstj. hefur sýnt áhugaleysi, ábyrgðarleysi og skeytingarleysi. Svartamarkaðsbrask, okur og vöruvöntun hefur aldrei verið verri en í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. Öll þjóðin stynur undir fargi dýrtíðar. Gengislækkunin hefur skert kjör fjölda manna, svo að þeir eiga nú ekki lengur björg til næsta máls. En þetta er nú eitthvað annað en lofað var í gengislækkunargrg., þar segir á bls. 50 og 51:

„Gengislækkunina teljum við óhjákvæmilegt skref til þess að koma meira jafnvægi á þjóðarbúskapinn. Má segja, að hún sé skref í þá átt að bæta afkomu manna, en ekki gera hana lakari. Framleiðsluöflin verða nýtt betur, þegar framleiðslukostnaðurinn og tekjur manna innanlands eru í samræmi við verð það, sem fæst fyrir afurðirnar erlendis. Fleira fólk fær þá atvinnu í útflutningsframleiðslunni, sem gefur af sér þjóðhagslega meira heldur en margvísleg önnur efnahagsstarfsemi, sem þrífst í óhollum gróðajarðvegi innflutningshaftanna. Það má því búast við, að þjóðartekjurnar vaxi en minnki ekki við gengislækkunina. Meira verður þá til skiptanna heldur en áður, einkum þegar frá liður. Það er því augljóst mál, að gengislækkunin skerðir ekki kjör þjóðarinnar, heldur má búast við hinu gagnstæða“.

Finnst mönnum eftir hinn áætlaða reynslutíma meira verða til skiptanna heldur en áður? Finnst mönnum afkoman hafa batnað, eins og fyrirheit voru gefin um? Eða hvað er um efndir hinna gullnu loforða hæstv. ríkisstj.? Mundi ekki margur kjósandinn vera orðinn þreyttur á að bíða eftir uppfyllingu þeirra? Loforðin hafa verið takmarkalaus, en efndir engar.

Þessi þáttur snýr einkum að launastéttum landsins, en þegar að útgerðinni kemur, tekur ekki betra við. Gengislækkunin átti að leysa öll vandræði útgerðarinnar. Hún átti að létta af henni öllum vanda. Um þetta segir á bls. 27:

„Útflutningsframleiðslan verður arðbærari en áður, og um leið verður hægara fyrir útflutningsframleiðsluna að keppa um vinnuafl og tæki við innlenda iðnaðinn. Það má því búast við aukinni framleiðslu fyrir erlenda markaði. Eftir gengislækkunina selst innflutta varan á verði, sem er sambærilegra en áður við verð á vöru framleiddri innanlands. Aðflutta varan verður ekki lengur eins mikil kjarakaup og hún hefur verið áður og dregur því úr ásókn í innflutning. Eftir því sem jafnvægið í verzluninni eykst, dregur úr vöruskortinum og svartamarkaðsbraskinu. Gróðinn af innflutningsverzluninni minnkar. Enn fremur er eins og stendur óeðlilega hátt verð á margs konar innfluttum vörum, sem ekki eru í vísitölunni. Vel er hugsanlegt, að slíkar vörur muni jafnvel lækka í verði fremur en hækka. Við það að rýmkar um verzlunina munu einnig margar vörur, sem nú eru ófáanlegar, verða fluttar inn, enda er einn höfuðtilgangurinn með þeim tillögum, sem hér eru gerðar, að hægt verði að létta af innflutningshöftunum“.

Útflutningsframleiðslan arðbærari en áður, dregið úr vöruskorti og vörur, sem ekki eru í vísitölunni, jafnvel lækka í verði! Og þá átti gengislækkunin ekki að vera ónýt fyrir bátaútveginn, hún átti að uppfylla allar hans þarfir og það heldur ríflega. Um þetta segir á bls. 42:

„Gengislækkunin er miðuð við þarfir bátaútvegsins, og gert er ráð fyrir því, að allir styrkir og fríðindi til útgerðarinnar, hvort heldur er beint til bátaútvegsins eða hraðfrystihúsanna, falli niður með öllu. Ábyrgðarverðið hefur verið 65 aurar, en sökum annarra styrkja munu bátaútvegsmenn hafa fram til ársloka 1949 fengið sem nemur 75 aurum. Verð það, sem þeir mundu fá með þessari gengislækkun, mun vera kringum 93 aurar, miðað við 10 d pundið af freðfiskinum“.

Og enn segir um sama efni á bls. 43:

„Við gengislækkunina hækkar fiskverðið til bátverja um 43%, miðað við 65 aura verð, en til útgerðarinnar um 24%, vegna þess, að hinn óskipti styrkur, sem útgerðin nú nýtur, fellur niður. Þegar hinn óskipti styrkur fellur niður, er hann tekinn af útgerðinni einni. Í stað hans kemur hærra fiskverð, sem sjómennirnir fá hlutdeild í. Gerum við ráð fyrir, að útkoman hjá bátaútveginum á þorskveiðum muni haldast nokkru betri en hún er nú, þegar áhrif gengislækkunarinnar eru að fullu komin í ljós. Þetta er samt ekki öruggt, þar sem nokkur óvissa er um verðlag erlendis á afurðunum strax á þessu ári“.

Þó er þessi óvissa ekki meiri en svo, að rétt á eftir segir: „Gengislækkunin er áætluð í ríflegra lagi“. Flutningsmenn hennar gerðu ráð fyrir verðlækkun, en þeim ófögnuði voru þeir viðbúnir. Um þetta segja þeir sjálfir á bls. 43:

„Talsverð óvissa er um verðlag á afurðum sjávarútvegsins á næstunni. Viljum við vera vissir um, að gengislækkunin reynist nægileg, þótt nokkur lækkun þess eigi sér stað“.

Já, þeir voru vissir um, að gengislækkunin væri nægileg, jafnvel þó nokkur verðlækkun ætti sér stað. Og svo átti að aflétta verzlunarhöftunum af innflutningsverzluninni.

„Gengislækkunin er miðuð við það, að hún sé nægileg til þess að koma á jafnvægi í verzluninni við útlönd og því nægileg til þess að létta höftunum af verzluninni, þeim höftum, sem nú eru í gildi vegna jafnvægisleysis í þjóðarbúskap Íslendinga sjálfra“.

Þetta síðasta á að gerast á næstu tveimur árum frá því að við öðluðumst gengislækkunarjafnvægið. Svo undarlega vill til, að höfundar gengislækkunarlaganna kváðu sjálfir upp forsendur fyrir þeim dómi, er störf þeirra hafa hlotið, en þær hljóða svo: „Markmið heilbrigðrar stjórnarstefnu hlýtur ávallt að vera það, að skapa almenningi í landinu sem bezt lífskjör, þannig að prófsteinninn á réttmæti ákveðinna ráðstafana í atvinnu- og fjárhagsmálum hlýtur einmitt að vera sá, hvort þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að bæta lífskjör almennings í bráð og lengd, og á það auðvitað einnig við um tillögur þær, sem hér eru lagðar fram“.

Ekki skal dregið í efa, að markmiðið hafi verið eins og þar segir, að skapa almenningi sem bezt lífskjör, en prófsteinninn hefur ekki orðið sá að bæta „lífskjör almennings í bráð og lengd“, heldur hið gagnstæða. Svo hörmulega hefur farið um framkvæmd þess máls í höndum núv. hæstv. ríkisstj., að allar hrakspár andstæðinga frv. hafa rætzt.

Aðvaranir Alþfl. gegn gengislækkuninni voru að engu hafðar. Því fór sem fór.

Enginn neitar því, að ýmislegt hefur komið fram, hæstv. ríkisstj. óviðráðanlegt, sem torveldað hefur framkvæmd laganna, svo sem verðfall afurða okkar á erlendum markaði. Nokkur hluti þessa verðfalls var óviðráðanlegur, en nokkurn hluta þess má rekja beinlínis til gengislækkunarinnar. Og höfundar gengislækkunarinnar sögðust hafa haft gengislækkunina ríflega til þess að taka á móti verðfalli. Þá hefur síldveiðin enn einu sinni brugðizt fyrir Norðurlandi, og það hefur að sjálfsögðu valdið miklum erfiðleikum. En við þá sömu örðugleika hafa aðrar ríkisstjórnir þurft að stríða undanfarin 6 ár. Enn hefur togaraverkfallið dregið mjög úr þjóðartekjunum; en í sambandi við það virðist hafa ríkt fullkomið getuleysi eða áhugaleysi hjá hæstv. ríkisstj. til þess að koma á sáttum. Mun slíkur sofandaháttur einsdæmi hjá nokkurri ríkisstj., þó að víða væri leitað, og verður að gera ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. leggi sig hið fyrsta alla fram um að koma á samningum, ella verði gerðar ráðstafanir til þjóðnýtingar togaraflotans.

Loks hefur ófriðarbál það, sem kommúnistar hafa kveikt í Kóreu, aðrir eldar styrjaldar, einræðis, landvinninga og ofbeldis ásamt einangrunarstefnu þeirra og fimmtuherdeildar- og föðurlandssvikastarfsemi hleypt af stað nýrri hervæðingu, sem valdið hefur mikilli verðhækkun á ýmsum erlendum varningi. Allt þetta hefur sett strik í reikning gengislækkunarmanna; en illa hefði hann staðið hvort eð var.

Því mun svarað til: Hvernig hefði ástandið verið, ef gengislækkunin hefði ekki verið framkvæmd? En mér er spurn: Gat það orðið öllu verra en það er nú?

Fiskuppbætur áranna 1947–1949 kostuðu samtals að meðtöldum uppbótum til útvegsmanna um 73 millj. kr., eða rúmar 24 milljónir á ári. Niðurgreiðslur á neyzluvörum kostuðu ríkissjóð á sama tíma alls um 117 millj., eða um 39 millj. á ári. Á þessu fjárlagafrv. einu eru áætlaðar til dýrtíðarráðstafana 25 millj. kr., — og hvað hefur gengislækkunin kostað þjóðina? — Vilja menn gera samanburð?

Á verðuppbótatímabilinu seldust allar afurðir landsmanna sæmilegu verði, jafnvel mikið magn af hraðfrystum fiski. öll skip voru þá að veiðum. Nú eftir gengisfallið, sem almenningur er farinn að kalla syndafallið, virðist verulegur hluti hins litla magns af hraðfrystum fiski óseljanlegur nema fyrir óætt hveiti, sem hæstv. ríkisstj. mun hafa afráðið að kaupa fyrir þriðjungi hærra verð en gott hveiti frá Ameríku. Hveitið á að koma austan fyrir járntjald og ágóðinn að renna í flokkssjóð kommúnista, sem bera veg og vanda af verzluninni. Þessi verzlun er framhald af gengislækkuninni og rýrir áframhaldandi kjör launþega. Kommúnistaflokkinn klígjar ekkert við því; og áframhaldandi gengislækkun er Sjálfstfl. og Framsfl. eðlileg ráðstöfun, miðað við það, sem á undan er gengið.

Um nokkur undanfarin ár hefur Alþingi á hverju ári þurft að leysa vandkvæði sjávarútvegsins. Þau áttu öll að leysast með gengislækkuninni. En þrátt fyrir hana, og jafnvel vegna hennar, blasa þau öll við Alþingi í dag og eru enn erfiðari viðfangs en áður vegna gengislækkunarinnar.

Gengisfallið hefur mistekizt. Það hefur ekkert leyst, en margt torveldað. Dýrtíðarflóðið hefur vaxið geysilega. Atvinnuleysi, vandræði og vöruskortur eru tilfinnanlegri en nokkru sinni fyrr. Úr þessu verður að bæta, en viðfangsefnin eru miklu örðugri úrlausnar eftir gengisfallið en áður.

Mistök eru mannleg, en því ekki að viðurkenna þau? Hvers vegna að loka augunum fyrir staðreyndum? Að þessu athuguðu gegnir furðu, að hinn ágætlega glöggi hæstv. fjmrh. leggur frv. sitt þannig fyrir hv. Alþingi, að hvergi í því er gert ráð fyrir þeim vandræðum atvinnumálanna, sem við blasa og Alþingi getur ekki skotið sér undan að leysa.