20.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég fer að svara hér einstökum þingmönnum, vil ég leyfa mér að taka fram, að á þskj. 274 ber fjvn. fram brtt. við brtt. á þskj. 252, 13. brtt. við 13. gr., þess efnis, að í stað „Víðidalsá í Miðfirði“ komi: Víðidalsá nálægt Víðidalstungu, — og er raunar um leiðréttingu að ræða. Aðrar brtt. hefur fjvn. ekki borið fram við þessar till., en hún mun að sjálfsögðu ræða þær till., sem hér hafa komið fram, og þá í samráði við ráðherra. Hæstv. ráðh. minntist á fjárfestingarmál, og það er rétt, sem hann sagði, að fjárfestingin má ekki verða of mikil í landinu. En fjárfestingin getur verið með tvennu móti, og ég hef víst aðra skoðun á fjárfestingarmálunum en hæstv. ráðh. og ríkisstj., ekki aðeins í ár, heldur og undanfarin ár. Ég tel, að skaðlegasta fjárfestingin sé það, er launin eru hækkuð, eins og átti sér stað á síðasta þingi. Með því móti voru sett í gang yfir 20 millj. kr. til að torvelda, að hægt yrði að koma viðskiptunum í sæmilegt horf og koma í veg fyrir svartamarkaðsbrask. En meiri hluti hv. Alþingis hefur ekki viljað fallast á skoðun mína í fjárfestingarmálunum, en bjargað öllu með því að kalla það verklegar framkvæmdir. Ég vil leyfa mér að benda á í þessu sambandi, að það er ekki hægt fyrir hv. Alþ. eða hæstv. ríkisstj. að ákveða það alveg út í bláinn, að 130 millj. skuli fara í ákveðna fjárfestingu, eins og gert var við framlag til raforkumannvirkja, án þess að gera ráðstafanir til þess að dreifa fénu réttlátlega, svo að þau héruð, sem ekki njóta nú þessara gæða lífsins, verði ekki út undan. Það, sem veldur erfiðleikunum, er það, að það er tekið yfir 70 millj. til framkvæmdanna við Sogið. Nú er bæði Reykjavík, Rangárvalla- og Árnessýsla, Reykjanesskaginn og Hafnarfjörður, sem njóta þessa fjár, en þegar átti að taka eitthvað af þessu fjárframlagi þessara héraða til annarra staða, þá mátti ekki snerta við því. Það var talið sjálfsagt, að ríkissjóður bannaði að skera niður öll framlög til þessara staða, og öllum kröfum til Árnessýslu og Rangárvallasýslu haldið. Sama er að segja um Krýsuvíkurveg og Akranes, og öll þessi héruð vilja ekki gefa eftir af annarri fjárfestingu. Það er ekki furða, þótt Vestfirðir og Austurland hafi þurft að sækja hart á, og þeir skulu vita það, sem flytja mál þessara héraða hér á hv. Alþ., að það skal verða tekið hart á móti, ef þeir ætla að halda fram kröfum þessara héraða framvegis, því að það er engin sanngirni að láta sum héruð verða svo mjög út undan hvað þetta snertir. Nú má segja, að það hefði verið hægt að þola þetta, ef þessu fé hefði verið varið til aukningar útflutningnum úr landinu og til hjálpar þjóðinni í heild. En það er síður en að svo sé, heldur torveldar það miklu fremur að ná þessum atriðum. Hæstv. ráðh. spurði, hvort rétt væri að draga úr framkvæmdum hins opinbera, meðan bóndanum væri neitað um að byggja sér súrheysgryfju eða reísa peningshús. Ég hefði haldið, að það þyrfti að taka það sterkum tökum, hve mikið kaupgjaldið yrði við þessar framkvæmdir og hvort þær gætu þá ekki dregið úr öðrum framkvæmdum. Ég hygg, að ofan á allt ranglæti, þá skapist með því kapphlaup á milli atvinnuvega þjóðarinnar að ná fólki til sín. Það átti að vera skilyrði, að launin yrðu aldrei svo mikil, að það væri tekið frá útflutningsverðmætinu, og auk þess þurfti að gæta þess, að embættismannalaunin hækkuðu ekki eins og gert var, en um það er rætt svo mikið áður.

Það gleður mig, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann byggist við, að 4 millj. spöruðust með ráðstöfunum, sem hann telur að ríkisstj. sé að gera í sambandi við sparnað í ríkisrekstrinum. Ég skal ekki deila um það hér, en það gleður mig, ef það er rétt, en ekki get ég annað en brosað, þegar hæstv. ráðh. talaði um póstferðirnar, að þær spöruðu svo og svo mikið fé, því að það er undirbúið af fyrrverandi ríkisstj. og er eitt af þeim ágætu verkum, sem hún gerði í sambandi við opinberan rekstur. Það var margsinnis búið að benda þeirri ríkisstj., sem áður sat og þessi hæstv. ráðh. átti sæti í, á það, að það væri óþolandi að nota orlofsféð til að standa undir þessum rekstri, en það var eins og að klappa á stein, og á þessu fékkst ekki leiðrétting fyrr en sjálfstæðismenn fóru einir með völd.

Ég skal ekki ræða í þetta skipti um tekjurnar, — ég minntist á það í dag, — en ég vænti þess að fá tækifæri til þess að ræða það við hæstv. ríkisstj. fyrir 3. umr., og skal ég ekki eyða tíma í það nú. En hæstv. ráðh. segir, að þetta sé framhald af þeirri stefnu, sem hafi komið þjóðinni fjárhagslega á glapstigu. Ég veit ekki, hvað hann á við. Ég skal segja hæstv. ráðh., hvað kom ríkissjóði á glapstigu, hvað kom ríkissjóði inn á þessa braut að láta 25 millj. í embættishítina, en það er það, sem gróf undan fjármálaástandinu í landinu á þessum árum. Hæstv. ráðh. er að sjá, að sú stefna var röng, hann var mér fylgjandi svo lengi sem hann gat í því máli, þótt hann því miður mæti meira að setjast í sæti fjmrh. heldur en að standa á sannfæringu sinni. Ég stóð og stend á henni, en það er komið í ljós, að mesta fjárhagslega glapræðið, sem þingið hefur gert, er sú samþykkt, sem gerð var á þinginu um það atriði.

Svo ætla ég ekki að ræða meira við hæstv. ráðh. út af því, sem hann sagði, það er ágæt samvinna milli okkar í sambandi við fjárl., þó að þessi átök séu hér í nótt.

Ég vildi þá aðeins segja nokkur orð við hv. samvn. samgöngumála. Mér þykir leitt, að hv. frsm. n., þm. N-Ísf., er ekki viðstaddur við þetta hátíðlega tækifæri til að standa fyrir máli sínu. Ég verð því að biðja hæstv. forseta að skila því til hv. frsm., að ég óski eftir því, að hann taki aftur þessa till. sína til 3. umr., og er það af þeim ástæðum, sem nú skal greina. Í fyrsta lagi var ekkert rætt um þetta við fjvn., og út af fyrir sig er það kannske ekki nauðsynlegt, því að samvn. hefur óskorað vald til að gera sínar till., hins vegar hefði ég ekki talið óeðlilegt, þegar búið er að marka þá stefnu að reyna að skila greiðsluhallalausum fjárl., að ekki væri kastað inn till. um 225 þús. kr. hækkun nema ræða við fjvn., úr því að ekki er séð fyrir tekjum á móti. Ég veit ekki, hvort þetta hefur verið rætt við ráðh., en hann hefur þá heldur ekki minnzt á það við fjvn. Svo er ýmislegt annað í sambandi við þetta, sem ég vildi ræða við n. Ég vil m.a. benda á, að á fyrsta lið er orðið um hallarekstur að ræða, 240 þús. kr.; þetta er að verða athugavert atriði, og annar bátur, Norðurlandsbátur, er með 220 þús. kr. rekstrarstyrk. Nú er það þannig, eftir því sem upplýst er hér í þessu skjali, að Djúpbáturinn fer svo og svo mikið á sömu staði og Herðubreið og Skjaldbreið, og er það til þess að torvelda afkomu þessara skipa, því að ekki getur hann verið að fara á sömu hafnir nema til að flytja vörur, sem annars væri hægt að flytja með öðrum skipum. Það sama er að segja um Norðurlandsbátinn, og svo er um fleiri staði. Sannleikurinn er sá, að það væri alveg rétt að láta þessa báta falla niður, þegar ekki eru einungis komnir aðrir strandferðabátar, heldur þegar hægt er að teygja vegina út um allt land. En í staðinn fyrir það er farið inn á það að koma heilum skipum upp á vegina, eins og er með Suðurlandsskip, og aukinn styrkurinn eftir því sem vegirnir teygjast. Suðurlandsskip er hækkað upp í 100 þús. kr. Það sama er að segja um bátinn, sem fer milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar. Það er alveg meiningarlaust að kasta fé í það, þegar farið er kosta ferðir með flugvélum hvern dag frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Ég hefði því óskað eftir því, að fyrir lægju meiri upplýsingar um þetta mál, um flutningsþörfina á fólki og vörum milli þessara staða, og hvort ekki væri hægt að gera það ódýrara en ætlazt er til nú. Það hefði verið hægt að setja í þetta n., líka hefði ríkisstj. getað látið Ríkisskip athuga þetta, og ég sé ekki, að þær till. hafi komið fram frá forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem gefi tilefni til að hækka þetta um 200 þús. kr. Vil ég biðja hæstv. forseta að bera þá kveðju til hv. frsm., að hann taki þessa till. aftur til 3. umr.

Þá vildi ég mega snúa mér að hv. 6. landsk. þm., 1. minni hl. fjvn. Hann byrjaði sína ræðu með því að skýra frá því, að vegna þess, hversu seint hafi verið afgr. fjárl. undanfarin ár, þá hafi ríkisstj. fengið tækifæri til þess að eyða tugum milljóna umfram greiðslur á fjárl., sem síðan voru teknar upp á aukafjárl. Þetta er misskilningur, því þó að það verði ekki varið að vera að draga afgreiðslu fjárl. langt fram á fjárhagsárið, þá ber ekki að gleyma því, að í hvert skipti hefur Alþ. samþ. l. um það, að það skyldi greitt eftir fjárl. eða samkvæmt nauðsynlegum greiðslum samkvæmt fjárl. þess árs, sem á undan var. Þannig hefur alltaf verið gengið frá því þann tíma, sem ég hef verið á Alþ., svo að það er misskilningur, að þetta gefi ríkisstj. tækifæri til að eyða tugum milljóna. Hitt er annað mál, að það hafa komið upp alls konar verkefni, sem verður að greiða fram yfir fjárl., þó að æskilegt væri, að það væri ekki gert, en þannig hefur það verið og á ekkert skylt við þetta, sem hv. þm. talaði um.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að ríkisstj. ýtti frá sér vandanum í aðalmálunum og hefði ekki sinnt þeim. Ég læt ríkisstj. um að svara því, en ég held, að þetta sé sleggjudómur, því að fyrir Alþ. liggja mál, sem eiga að verulegu leyti að sinna málefnum útvegsins, þótt ekki sé búið að ganga frá þeim. Það er líka upplýst af hæstv. ráðh., að það er byggt á misskilningi, sem hv. þm. ræddi um kostnaðinn við sauðfjársjúkdómana, því að sá maður er ekki á launum á Keldum, hann hefur alltaf verið á launum hjá sauðfjársjúkdómanefnd. Hitt er satt, að það hefur verið svo mikið ósamkomulag milli manna í stofnuninni, sem hann átti að vinna hjá, að hann hefur aldrei fengizt til þess að vera þar, en ríkisstj. ber að sjá um, að slíkt ósamkomulag ríki ekki í þessari vísindastofnun, að menn geti ekki unnið hver við annars hlið. Það verður að neita að taka upp sérstaka fjárveitingu til þess að kosta þennan mann. sérstaklega, en ef hann flytur að Keldum, þá verður að auka fjárveitingu þangað, til þess að hann geti starfað þar og fengið þar sín laun. Það er óverjandi af yfirstjórn þessara mála, að þessir menn geti hagað sér eins og þeir hafa gert. Hins vegar er þetta ekki sá eini aðili, sem þannig hagar sér við atvinnudeildina, því að það hefur verið upplýst áður margsinnis, að þar vill hver vísindamaður vinna sjálfstætt og vera yfir sjálfum sér og hafa 2–3 menn til að snúast í kringum sig.

Mér kom á óvart, þegar hv. 6. landsk. lagði megináherzlu á að hækka tekjur af brennivíninu. Ég hygg, að þetta eigi að vera iðrun yfir því, hversu frámunalegt nál. hann sendi frá sér í fyrra, og það brjótist út á þennan veg nú, að hann blygðist sín svo mikið fyrir það nái., að hann hugsi sér að gera yfirbót. En batnandi manni er bezt að lifa, og kannske er þetta það eina, sem hann getur borgað ríkinu með, að agitera fyrir því, að meira sé drukkið í landinu.

Í sambandi við kostnað við utanríkisþjónustuna, þá vildi ég aðeins upplýsa, að þetta mál var rætt töluvert í fjvn. Ég er sjálfur persónulega andvígur, að fækkað sé sendiherrum á Norðurlöndum, og eftir að hafa reynt að kynna mér það mál, hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að við þetta sé enginn sparnaður. Það yrði að hafa þar aðalkonsúlat á hvorum staðnum, og hvort það er kallað það eða sendiráð, breytir ekki miklu í sambandi við kostnaðinn, en okkur sýndist hagkvæmara og betri árangur í því að hafa sendiherra heldur en aðalkonsúl. Hitt er annað atriði, að ég tel ekki, að sendiráðin á Norðurlöndum þurfi að hafa mjög mikið af fólki hvert fyrir sig, ég held það sé nægilegt að hafa einn sendiherra, sem hefur góða stúlku og þess utan einn fulltrúa, til þess að geta skipt um í sumarfríum. Auk þess má skipta öðrum löndum yfir á þessi lönd, m.a. Póllandi, Tékkóslóvakíu og Rússlandi og hafa þar ekki sendiherra. Ég tel, að þetta verði miklu ódýrara og meira gagn að því en þótt við hefðum einn sendiherra þar. Það er heldur ekki nauðsynlegt að greiða öðrum sendiherrum önnur eða meiri laun en eru gildandi fyrir hæstlaunuðu embættismenn í hverju landi fyrir sig. Í sambandi við þessar greiðslur til sendiráðanna í París, London og Washington hefur ekki komið fram það, sem ég vildi að menn athugi, að töluvert mikið af þessum kostnaði hefur stafað af því, að þessi sendiráð hafa fengið mikil störf í sambandi við Marshallhjálpina. Ég er viss um, að sá kostnaður, sem farið hefur til þess, hefur margendurgreiðzt Íslandi, eins og við vitum, meðan við fáum þá aðstoð, sem við höfum fengið undanfarin ár, og þess vegna þurfum við ekki að sjá eftir því. Hins vegar hefði verið heppilegra, að þessi kostnaður hefði verið settur sérstaklega í sambandi við utanrmn.

Hv. frsm. segir, að það sé dregið 250 þús. kr. frá vegaframkvæmdum. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Það er dregin þessi upphæð frá vega- og brúaframkvæmdum. Hve mikið er frá vegum, veit ég ekki.

Þá talaði hv. þm. mjög um þá hækkun, sem orðið hefði á rekstrargjöldunum. En ég vil spyrja hv. frsm.: Hefur hann alveg gleymt sínum þætti og þætti síns flokks í því að hafa hækkað embættismannalaunin, svo að nemur nú 25 millj. fyrir ríkissjóðinn? Það fyrirbrigði skeði hér á Alþingi, að samþ. var till., sem kostaði ríkissjóð 20 millj., gegn vilja meiri hl. fjvn. og gegn vilja meiri hl. þeirra þm., sem studdu ríkisstj. á sínum tíma. Þannig er þetta mál til komið. En af hverju var þetta gert? Af ábyrgðarleysi þeirra manna, sem fylgdu þeim hluta Sjálfstfl. að málum og Framsfl., sem samþ. þessa till. Svo eru það þessir menn, sem koma og eru að tala um, að ríkisreksturinn hafi kostað svo og svo mikið meira en áður. Hér er um það að ræða, að ríkisreksturinn hefur fyrst og fremst hækkað fyrir þetta og svo fyrir ný verkefni, sem nú eru látin í hendur ríkisstj. og ekki er hægt annað en að kosti eitthvert fé. Ég skal viðurkenna að sumt af þessu fé fer í ríkissjóðinn í sköttum, en það gerði sannarlega ekki bilið minna milli þess ríka og fátæka, að þessi till. var samþ. Ég held, að það sé óhætt fyrir þá menn, sem stóðu að þessu, að segja sig úr bæði Alþfl. og Sósfl., sem haga sér þannig að vinna beinlínis að því að gera bilið sem mest milli þeirra fátæku og ríku í þessu landi; það er sannarlega ekki nein hjálp við þá fátæku, sem hér var gert.

Ég held, að aths. hv. frsm. um, að brúaframlagið lækki um 500 þús. kr., sé byggð á misskilningi og hann reikni ekki með það, sem lagt er til að efla brúasjóð, 41/2 milljón í fyrra og 41/2 milljón nú.

Hv. frsm. sagði, að ríkið stæði í milljóna vanskilaskuldum vegna hafnarmálanna. Ég vil biðja hv. þm. að kynna sér hafnarlögin, þar sem stendur greinilega, að ríkissjóður leggi til hafnanna eftir því, sem fé er veitt til á fjárl. Það eru engar vanskilaskuldir í sambandi við hafnarmálin, og ríkissjóður hefur enga skyldu til þess að leggja til hafnarmálanna á hverju ári annað eða meira fé en það, sem veitt er á fjárl. í hvert skipti, og þess vegna er það, að ef einhver aðili á Ísafirði, Bolungavík eða annars staðar vinnur fyrir meira fé, þá gerir hann það fullkomlega á sína ábyrgð, enda veit ég ekki til þess, að ríkissjóður hafi nokkru sinni greitt vaxtabyrði af því fé, sem ógreitt er til hafna, nema síður sé, svoleiðis að það er rangt, að hér sé um að ræða nokkur vanskil vegna hafnarmálanna.

Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 266. Ég held, að það væri eðlilegt, að hv. frsm. tæki aftur til 3. umr. till. 1–10 á þessu þskj. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, tekur fjvn. það til athugunar fyrir 3. umr., hvort tiltækilegt sé að hækka tekjurnar. Hæstv. ráðh. hefur lýst sinni skoðun í dag, og fjvn. mun að sjálfsögðu óska eftir að fá að sjá, hvernig niðurstöðurnar verða 1. des., og það ættum við að geta séð eftir nokkra daga, og munum við þá ræða það við ríkisstj., og ef nokkur meining er á bak við þetta hjá hv. þm., þá fyndist mér eðlilegast, að hann tæki þetta aftur. — Ég skal ekki ræða 11. brtt., það hefði ég heldur viljað ræða við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, áður en ég get sagt frekar um hana, en mér þætti eðlilegt, að hún væri einnig tekin aftur. Hvað við kemur 12. brtt., þá er ég undrandi yfir, að þm. skyldi bera hana fram. Ég hélt, að hann þekkti þetta hneyksli of vel til að hafa brjóstheilindi til að bera slíkt fram. Vænti ég þess, að þessi till. verði koldrepin. Hún verður aldrei til bjargar þessu máli, það þarf önnur og fastari tök. — Einnig er ég undrandi yfir 13. till., því að það er vitað, að ef hún er samþ., þá er felld öll skiptingin. Þm. hefur ekki tryggingu fyrir því, að fjvn. fari að skipta fénu á milli umræðna. Hann ætlast til, að ráðh. skipti fénu. — Ekki sé ég ástæðu til að ræða 16. till.; þm. hefur ekki borið þessa till. fram í fjvn., og hefur hún hvorki verið felld þar né annað. — 17. till. vildi fjvn. ekki fallast á, en till. um almannatryggingarnar er til athugunar. Ég er ósammála ráðh. í því máli. Mér skildist á honum, að hægt væri að ganga á tryggingarnar í eitt ár. Þetta finnst mér vera lítil búhyggindi hjá honum, minni búhyggindi en búa yfirleitt í huga ráðherrans. Honum ber skylda til að tryggja fjárhag trygginganna. Ég verð að segja, að mig furðar á afstöðu hans í þessu máli. Það er ekki rétt stefna að ætla að veikja tryggingarnar, af því að það er ekki að vita, að þær þoli það. Nú mun ráðh. viðurkenna, að nauðsyn er að hafa fjárfestinguna sem minnsta og taka gjöld af fólkinu núna á meðan þetta peningaflóð er. En það er rangt að ætla að draga frá tryggingunum. Ég vænti samkomulags um þetta mál. — Um 19. brtt., um vinnumiðlun, sé ég ekki, að það sé nokkur skaði að draga úr kostnaði, sem skapast við að útvega nokkrum mönnum atvinnu. — Bezt er, að hæstv. ráðh. athugi sjálfur um vanreiknaða vísitöluuppbót.

Þm. sagði, — ég veit, að hann hefur ekki meint það, — en hann sagði; að veitingaskattur væri tekinn af atvinnuvegi, sem hangi ekki á horriminni. Ég vil því benda á, að fyrir fjvn. lá beiðni um eftirgjöf á veitingaskatti. Mér hefur fundizt, að mörg veitingahús úti á landi þyrftu þess með, að veitingaskattinum væri af létt. Veitingahúsum, sem ekki er hægt að loka, yrði að loka, ef fjvn. yrði ekki við beiðninni. — Þm. sagði, að það þyrfti 18 millj. til að bæta úr vandræðum fiskiflotans.

Hvar ætlar hann að fá þær milljónir? Allt bendir til, að brtt. þm. séu allar í lausu lofti.

Í sambandi við þá aths. 2. minni hl. fjvn., þar sem hann segir, að rekstrarútgjöld ríkisins séu 80% af útflutningnum, vil ég spyrja: Hvaða þátt eiga sósíalistar í, að svo er komið? Í fyrsta lagi voru þeir með í, að laun embættismanna væru hækkuð um 20 millj., og voru með í að halda uppi verkfalli í sumar. Sósfl. hjálpaði til þess, að allur útflutningur fer í ríkisrekstur í landinu. Það er gott, að sá aðili, sem reynir að skapa þetta öngþveiti, skuli svo vera að fárast yfir því. — Það er annað, sem ég vil mótmæla sem hreinu þvaðri. Það er, að fjvn. hafi ekki heimild til að breyta 5 þús. kr. nema með leyfi ráðh. Fjvn. hefur breytt miklu hærri upphæð en 5 þús. kr. — Þm. segir, að sér hafi komið á óvart, að ekki var fækkað sendiherrum á Norðurlöndum. Hann bar meira að segja sjálfur till. upp í fjvn., og var hún felld. Brtt. á þskj. 268 frá 2. minni hl. fjvn., 1.–3. tölul., voru bornar upp í fjvn. og felldar. Sama er að segja um 4.–6. till. — Um aðstoð við vélbátaflotann vísa ég til þess, sem ég hef áður sagt. Þetta hefur verið rætt í n. og fellt, og sé ég ekki ástæðu til að taka það aftur til umr. í n.

Hv. þm. N-Ísf. ber fram á þskj. 280 brtt. um brúargerð, og er ekki ástæða til að ræða það frekar. Það bar á góma að taka þetta upp. Var reynt að ná samkomulagi við hv. 6. landsk. þm., en fékkst ekki vegna stirfni hans. Þetta er eina málið, sem hann hefur komið fram í eins og naut í flagi. Hann skildi ekki skyldu sína, og er það hans sök, að Norður-Ísfirðingar fengu ekki nægilegt fé til að ljúka við brúna á næsta ári. En hann sýndi þá stirfni, að ekki var hægt að mæla við hann.

Í sambandi við hafnarmannvirki, þá var ekki óskað að taka upp framlag til Sæbóls. Sé ég ekki ástæðu til að taka þetta mál upp.

Varðandi 22. gr. VII., um að verja 100 þús. kr. til þess að bæta tjón, sem varð á brimbrjótnum í Bolungavík haustið 1946, þá lá ekki fyrir fjvn., hve mikið tjónið var eða hvað mikið þurfti að bæta, og engin umsögn frá vitamálastjóra. Tillögunni var kastað fram, án þess að höfð væru nokkur rök. — Sama er um b-lið. Það eru einkennileg rök hv. þm. N-Ísf., að af því að gengið væri inn á þá braut að greiða Bolvíkingum fyrir árin 1944–50, væri sjálfsagt að greiða þeim fyrir árin 1939–44. Hvers vegna var þm. ekki svo hreinlyndur að setja þetta strax inn í till.? Hvaða aðilar eiga að fá þetta fé? Krafan er þannig, að útilokað er að taka hana inn.

Hv. þm. A-Húnv. hefur á þskj. 274 komið fram með till. um að hækka framlag til Skagastrandarhafnar. Hann sagði, að sér skildist á mönnum úr fjvn., að veitt hefði verið minna til Skagastrandarhafnar en fyrr. Ég veit ekki, við hvaða menn hann hefur rætt, en veitt hefur verið minna til Skagastrandar af því, að ríkið varð að greiða skuldir. Var rætt um að úthluta engu til þeirra hafna, sem svo stóð á um, eða setja þau skilyrði, að fénu yrði varið til endurgreiðslu þessara skulda. Þetta hefur enn ekki verið gert, en mun verða gert. Gera þarf sérstaka grein fyrir, hvernig fénu hefur verið eytt, hvernig á að greiða gjöldin, hverjar tekjurnar eru og hvernig reglugerðir. Framlag til Skagastrandar byggist á því, hversu mikið hún á ógreitt úr ríkissjóði og hve mikið er ógreitt frá Skagaströnd. Nú eru áætlaðar 220 þús. kr. mest fyrir byggingarkostnaði hafna á þessu ári. Var þar fylgt till. vitamálastjóra, þegar fénu var skipt, nema til þeirra hafna, sem áttu langmest inni.

Till. þm. um fyrirhleðslu var í fjvn., en fékk ekki fylgi meiri hl. n. En ég lofa því, að þetta erindi mun verða sent til búnaðarmálastjóra. Kostnaðaráætlun er miklu meiri en gefið var upp af vegamálastjóra.

Um till. þm. Snæf. á þskj. 274 um Skógarstrandarveg þarf ekki að ræða, en ég verð að segja, að verði þessi till. samþ., er gengið inn á hættulega braut. Það gefur öðrum en hv. þm. Dal. ástæðu til að bera fram slíkar till. Þessi skipting er ekki komin frá fjvn., heldur frá vegamálastjóra, og hann á að hafa einhverja þekkingu á þessu máli.

Viðvíkjandi Rifi á Snæfellsnesi, þá fór fjvn. og athugaði staðinn. Hygg ég, að það hafi verið fyrir hennar áhrif, að teknar voru þessar 700 þús. kr. inn á fjárlfrv. Þetta er eina höfnin á landinu, þar sem tekin er upp stór upphæð án þess að nokkurt framlag komi á móti. Ástæðan er m.a. sú, að ónotaðar eru enn þá 100 þús. kr. Nú er það upplýst hjá ríkisstj. og vitamálastjóra, að tekið skyldi lán, allt að 60%, og mundi þá verða hægt að vinna fyrir 11/2 millj. kr. á næsta ári. Ef þessi stóri biti hefur ekkert að segja í þetta, þá veit ég ekki, hvernig á að fara að fylla það rúm. Ég held, að minnst ástæða sé að samþ. þessa brtt. af öllum fram komnum brtt. Ef hægt er að gera góða höfn á Rifi, yrði hún ein bezta höfn á landinu hvað snertir fiskveiðar. Hún yrði mikill léttir fyrir aðrar hafnir við Faxaflóa, lífhöfn flotans á Vesturlandi og við Faxaflóa. Auk þess yrði hún til mikils hagræðis fyrir Sand og Ólafsvík og þá, sem þar búa. Ég hef dregið fram meginástæður fyrir því, að fjvn. stóð óskipt um málið, og hygg, að hún haldi áfram á sömu braut, en reyni ekki að tefja framgang þessa aðkallandi máls. Mér finnst þm. Snæf. mega vel við una, ef mál þetta nær fram að ganga.

Um bókasöfnin skal ég vera fáorður. Ég spyr, hvort sýslur hafi notað rétt sinn til að fá greitt af skemmtanaskatti. Og held ég, að nú sé orðið tímabært að endurskoða þessa löggjöf og taka upp nýtt skipulag.

Um vatnsveiturnar vil ég segja þetta: Ég held, að engin sönnun sé fyrir því, að vatnsveitan í Stykkishólmi fái eyri meira, þó að till. verði samþ., og því síður ef á að skipta framlaginu í fleiri staði. Við höfum rætt við ríkisstj. um þennan lið, en hún hefur ekki séð sér fært að hann yrði hækkaður.

Hv. 7. þm. Reykv. ber fram till. um, að Guðmundi Jónssyni verði veittar 6000 kr. til söngnáms. Þetta hefur ekki legið fyrir n., og skal ég athuga þetta, ef hv. þm. vill taka þetta aftur til 3. umr. Ég tel sjálfsagt að greiða honum styrk eins og öðrum, þar sem hann hefur aldrei verið styrktur áður. — Um hina till., í sambandi við sinfóníuhljómsveitina, er ég ekki sammála, að það séu fjórir aðilar, sem borga kostnaðinn. Ég tel, að það séu aðeins tveir aðilar, nefnilega ríkissjóður og bæjarsjóður. Ríkissjóður greiðir um 300–400 þús. til þessarar menningarstarfsemi, og svo á að fara að bæta hér við 200 þús. kr. Ég álít nauðsynlegt að ræða þetta betur í n. En þá vil ég spyrja, hverjar tekjur þessara manna hafi verið á árinu, og tel æskilegt, að það lægi fyrir fjvn. Svo vil ég fá upplýsingar um, hvaða tekjur þjóðleikhúsið hefur til að leggja á móti þessu framlagi. Mér er kunnugt um, að það hefur verið húsfyllir, þegar hljómsveitin hefur leikið. Er þá ekki hægt að skipuleggja starf hljómsveitarinnar þannig, að hún þurfi ekki að vera sá baggi á ríkissjóði sem hún nú er?

Hv. þm. Siglf. flytur brtt. í sambandi við sjúkrahúsið á Siglufirði. Ég vil upplýsa hann um það, að fjvn. skiptir ekki fjárveitingum til annarra sjúkrahúsa en fjórðungssjúkrahúsa. Og það er n. ekki sársaukalaust að skera niður framlög til slíkra mála. — En um hitt atriðið, í sambandi við hafnarmálin, er alger misskilningur hjá hv. þm., að Siglufjörður sé beittur ranglæti í þessum efnum. Siglufjörður á enn þá vangreiddar 120 þús. kr. til þessara mála. Vill nú hv. þm. telja sér stætt á því að borga 220 þús. kr. til þess staðar, sem enn þá á eftir vangreitt framlag sitt, og greiða heldur ekki nema 220 þús. kr. til þess staðar, sem ríkissjóður skuldar enn þá 800 þús. kr. Hér á að vinna, eftir áætlun, fyrir 500 þús. kr., og er fylgt till. vitamálastjóra. Hvað hefur Siglufjörður svo gert til að koma fjárhag sínum í lag? Ég hef rætt þetta við núverandi bæjarstjóra Siglufjarðar, og hefur hann skilið, að um ekkert ranglæti var að ræða.

Í sambandi við fram borna till. frá hv. þm. Dal. mælist ég til, að hann taki hana aftur og hún verði rædd nánar í nefnd.

Ég ætla að segja nokkur orð við 2. þm. Reykv. Hann sagði, að mesta eyðsla, sem hugsazt gæti, væri að láta þegnana ganga atvinnulausa. Þessu hefði hann átt að gefa gaum í togaraverkfallinu. Annars er sorglegt að eyða tíma í menn, sem tala af slíkri hræsni. — Annað þótti mér vænt um að heyra frá hv. þm., að við værum komnir of langt í að rýra kaupmátt krónunnar. Þetta hef ég alltaf sagt, og því lengra sem við höldum á sömu braut, því smærri verður krónan. — Þm. sagði, að áætlun frá fjárhagsráði yrði að fylgja. Ég hélt, að hv. þm. teldi áætlun frá fjárhagsráði ómerkilegt plagg og ekkert mark á því takandi, þó að fjárhagsáætlun hefði fylgt. Ég hef lýst því oft yfir á þingi, að ríkisstj. ráði ekkert við fjárhagsráð og þýddi ekki að biðja um neitt, því að það réði öllu. Það eina, sem ræður við það, er almenningsálitið. Ég er því alveg samþykkur að afnema það strax og hef alltaf verið því fylgjandi. Í raun og veru hefði aldrei átt að stofna það. — Hv. þm. sagði, að ríkið þyrfti að efla framkvæmdir til að forða landsmönnum frá atvinnuleysi. Ég tel, að það beri að snúa sér sem mest að því að afla sem mestra verðmæta til útflutnings. Og það hefði verið hægt, ef flokkur hv. þm. hefði ekki spillt því. — Hv. þm. sagði, að greiðsluhalli á fjárlögum þýddi ekkert annað en að ríkið tæki lán hjá sjálfu sér, sem sagt ekkert annað en prentaðir seðlar eftir þörfum. Ég vil biðja hv. þm. að athuga afstöðu sína áður en hann talar næst. — Till. hv. þm. á þskj. 274 um framlög til atvinnuaukningar og útrýmingar heilsuspillandi húsnæði voru ekki bornar fram í fjvn. af fulltrúa Sósfl. Veit hv. þm. þetta ekki? Og till. nr. 10 á sama þskj., um að taka lán til að lána bæjar- og sveitarfélögum, var heldur ekki borin fram í n. af fulltrúa Sósfl. — Annars getur fjvn. verið ánægð með, að brtt. þm., sem bornar hafa verið fram, eru mest sýndartill.