05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég sé, að tíminn er nógur, og er þá engin ástæða að hraða máli sínu um of. Ég veitti því athygli og fannst það ekkert undarlegt, að hæstv. fjmrh. þakkaði nefndinni fyrir að hafa farið í einu og öllu eftir sínum vilja. En ég varð dálitið hissa, þegar form. n. bar á annan samstarfsmann sinn í n., að hann færi með slúður. Þessi hv. þm. hafði látið orð falla um það, að form. fjvn. hafi ekkert mátt gera nema hafa skriflegt leyfi fjmrh. Ég man eftir því, að form. n. sagði oft, að ef þetta ætti fram að ganga, yrði hann að tala við fjmrh. Og þessu hefði hv. form. n. ekki átt að neita.

Það var ekki margt, sem hæstv. fjmrh. þakkaði mér, enda ekki von. En ég gleðst yfir því, að við skulum vera sammála um 18. gr., hvort það væri ekki vilji þingsins, að greinin yrði endurskoðuð. Að þessu vék svo form. n. og gaf til kynna, að hann mundi hreyfa því í fjvn. og þá sennilega stuðla að því, að málið væri flutt.

Ég þarf að víkja máli mínu til hæstv. fjmrh., og með því að hann er vakandi og hér í þinginu, þætti mér vænt um, að hann hlustaði á mál mitt, ef forseti hlutaðist til um það. (Fjmrh.: Ég heyri.) Það er ómögulegt að ráðh. heyri. Hann er að sofna þarna í horninu. — Eitt af því, sem ráðh. upplýsti, var, að þjóðartekjurnar færu stórlega minnkandi. Ef svo er, þá er það fyrst og fremst því bágborna stjórnarfari að kenna, sem við búum við. (Fjmrh.: Þetta var fljót afgreiðsla.) Já, og á ekki meira skilið. En málið versnaði fyrir hæstv. ráðh., þegar hann sagði, að kaupgetan hefði ekki minnkað nægilega mikið. Það er sem sagt of mikil kaupgeta í landinu, og það veldur öllu böli. Og framhaldið af þessu er: 120 millj. kr. gjafafé og útflutningsverðmætin duga ekki til að afla þeirra vara, sem fólkið vill kaupa. Því er vöruskorturinn. En hvar er þessi kaupgeta? Er hin almenna kaupgeta of mikil? Hafa verkamenn og sjómenn of miklu úr að spila? Eða bændurnir, er kaupgeta þeirra svona mikil? Sannleikurinn er sá, að engin þessara stétta hefur of mikla kaupgetu í dag, engin nógu mikla. Hvar er þá kaupgetan, sem hæstv. ráðh. hefur áhyggjur af? Það má vel vera, að hún sé hjá þeirri kaupmannastétt, sem hefur grætt á verðbólgunni og vaxandi dýrtíð, að það sé kaupgeta hinna fáu og ríku í landinu, sem veldur vöruskorti þeim, sem hæstv. ráðh. minntist á. En ef þessi fámenna stétt, sem enn þá hefur ólamaða kaupgetu, kaupir upp allar vörur, er til landsins flytjast og fáanlegar eru, og veldur því, að hverja vörutegundina af annarri skortir, þá er það ekki sízt af því, að hæstv. ríkisstj. hefur með gengislækkuninni rýrt álit manna á gildi peninganna. Menn vilja sízt af öllu eiga peninga, þeir vilja heldur koma þeim í allt annað, jafnvel hið auvirðilegasta skran. Trúleysi fólks á peningana er einn af ávöxtum gengislækkunarinnar og ýtir undir kaupfýsi þeirra, sem hafa peninga milli handanna. Mér er spurn: Halda menn, að það sé góð pólitík fyrir bændur að halda svo á spilunum, að kaupgeta fólks við sjávarsíðuna komist sem lengst niður á við? Bændur óska ekki eftir því, að kaupgeta fólks við sjávarsíðuna sé sem lökust. Þeir eru farnir að skilja, að þeir eiga allt undir því, að það geti keypt afurðir þeirra. Ég held, að það sé fátítt að heyra bændur harma, að kaupgeta sé enn til í landinu. Ég heyri það á þessari nýstárlegu kenningu, að hæstv. ráðh. virðist koma það vel, að vélbátaflotinn á Vestfjörðum sé stöðvaður, helzt að hann stöðvist um allt land. Honum hefur áreiðanlega komið vel, að togararnir voru stöðvaðir í sumar; annars hefði kaupgeta vaxið, og það má ekki koma fyrir, en það hefði hún óneitanlega gert, ef togararnir hefðu verið í gangi, vélbátaflotinn á veiðum og hraðfrystihúsin í gangi. Nú fer ég að skilja, að hæstv. ríkisstj. vilji ekki bæta úr bágbornu ástandi í heilum landshlutum. Það er þessi kenning, sem hæstv. ráðh. ber fram með fullum alvörusvip.

Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að hann sæi, að það vantaði grundvöll fyrir uppbætur frá því í fyrra. Hann virðist þeirrar skoðunar, að kaupgjald hafi orðið of hátt hjá fastlaunafólki við hækkun þá, sem gerð var hér á Alþ. og form. fjvn. hefur alltaf verið á móti. Ég er hræddur um, að það hefði orðið þröngt í búi hjá mörgum fastlaunamönnum í landinu, ef Alþ. hefði ekki orðið við þeirri ósk. Form. fjvn. er að ásaka Alþfl. og Sósfl. fyrir þetta. Ég veit ekki betur en Sjálfstfl. léði þessu lið, annaðhvort af því, að hann taldi það rétt, eða af því, að hann þorði ekki að gera annað af atkvæðahræðslu og aumingjaskap. En atkv. þau, sem Sjálfstfl. lagði þessu máli á Alþ., voru fleiri en atkv. Alþfl., og á hann því ekki síður sök en hann. — Reyndar á hann þakkir skilið fyrir það.

Ein af mörgum kenningum hæstv. fjmrh. var, að almennar kauphækkanir kæmu ekki að neinu haldi eins og nú stæðu sakir. Nú er til bölvunar fyrir verkafólkið að fá hækkað kaup; það hefur ekkert við það að gera eins og nú er, miklu betra fyrir það að fá lækkað kaup! — Hvað segir hæstv. ráðh. um bændastéttina? Er æskilegt fyrir þá að fá hækkað afurðaverð? Væri ekki betra fyrir þá að fá lækkað verð? Vissulega, eftir sömu kenningu, ef nokkur heil brú er í henni. Stéttarsamband bænda taldi, að bændur þyrftu að fá 21% hækkun. (Fjmrh.: Þetta er ekki kenning mín, þetta er kenning trúnaðarmanna Alþýðusambandsins.) Er það þá líka kenning trúnaðarmanna stéttarsambandsins, að verð landbúnaðarafurða lækki um 21%? Svari nú ráðherra. Auðvitað er það betra fyrir þá, þeir hafa bara stigið þetta víxlspor! En þessu á ekki að beita gegn kaupsýslumönnunum. Þeir eiga að fá rýmkað álagningarfrelsi. Þetta á aðeins við verkalýðinn. Það væri miklu líklegra, að svona fjármálaspeki væri borin fram af sjúklingum á Kleppi en af ráðh. á Alþ. (Fjmrh.: Þingmaðurinn ætti að lesa álitsgerð sérfræðinga fyrir launasamtökin.)

Þegar hæstv. ráðh. var að verja það, að seinustu liðirnir á fjárlagafrv. sýna lækkandi tölur, miðað við fjárl. ársins í ár, kom hann líka með merkilega fjármálakenningu. Hann benti á, að þegar deilt væri á stjórnina af því, að ekki væri gert ráð fyrir nægu fé til verklegra framkvæmda á fjárlagafrv., bæri að athuga, að fleiri framkvæmdir væri um að ræða en fjárlagafrv. tæki til. Þetta er alveg rétt. Hann sagði, að aldrei væri hægt að komast hjá að gera upp við sig, hvað ætti að fara til framkvæmda og hvað til neyzlu. Og nú yrði meiri hlutinn að fara til neyzlu. Svo benti hann á, að utan fjárlaga væri verið að ráðast í merkilegar framkvæmdir, þ.e. virkjanir Sogsins og Laxár og áburðarverksmiðjuna, upp á 130–140 millj. kr. samtals. Þetta ætti að bæta úr öllu saman. Þetta tekur svo nærri þjóðinni að því er fjárfestingu snertir, að yfir vofir, að það verði að banna bændum að reisa súrheysgryfjur og peningshús og mönnum almennt að fá þak yfir höfuðið. Það þarf víst engu að hagga í fjárl. með tilliti til þess að stöðva byggingar þær, sem ég nefndi. Fjárhagsráð sér um, að enginn fær um frjálst höfuð að strjúka í því sambandi, svo að það þarf ekki að draga úr fjárveitingu til verklegra framkvæmda, þó að tryggja eigi, að þær stöðvist. Þær gera það. Í sambandi við þessar merkilegu framkvæmdir og fjárfestingu vil ég spyrja: Eiga sjómenn í öðrum landshlutum að hætta framleiðslustörfum og reyna að bjarga sér með því að fá vinnu við þessi mannvirki, Sogsvirkjunina, Laxárvirkjunina og verksmiðjuna? Er það þetta, sem ráðh. vill og telur affarasælt fyrir þjóðina og ríkið? (Fjmrh.: — Þeir eiga að fara á sjóinn og fiska.) Þá verður að vera hægt að hreyfa skipin. Ég set alla mína von á ráðherra. Það veltur á miklu, að hann bregðist ekki. Ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. bregði í brún, ef menn ganga frá framleiðslustörfunum og heimta vinnu við þessar 2 eða 3 opinberu framkvæmdir, og það skyti upp þeim beyg, að það væri ekki hið affarasælasta fyrir þjóðina. Og ef 130–144 millj. kr. eiga að fara til verklegra framkvæmda í 2 eða 3 landshlutum, og það á að stöðva framkvæmdir í öllum öðrum héruðum, þá verður að leyfa fólki að koma úr þeim landshlutum, sem vinnustöðvunin er, og fá vinnu við þessi mannvirki. Ég er alveg sannfærður um, að þjóðarbúið stæðist það ekki, ef horfið væri þannig frá framleiðslustörfum og stefnt að slíku, fyrir utan það, að það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væru litlar líkur til, að það mundu meira en 200–300 manns fá atvinnu við þessi mannvirki. En fyrir þessum framkvæmdum verða allar aðrar framkvæmdir að víkja, sagði ráðh. Það verður að draga úr verklegum framkvæmdum, sem voru í fyrra, vegna þeirra. Mér finnst, að það hefði mátt vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hefði látið það boð út ganga, áður en setzt var við afgreiðslu fjárlaga, að dregið skyldi mjög úr fjárveitingu til verklegra framkvæmda hér á Suðvesturlandi, í nágrenni Akureyrar og í Borgarfjarðarsýslu, þar sem 130–140 millj. kr. fjárfesting fellur þessum héruðum í skaut, en í stað þess falla allar stærstu fjárveitingar þessara fjárlaga á þau héruð, önnur héruð eru afskiptarí á þessu fjárlagafrumvarpi en nokkru sinni fyrr.

Því verður víst ekki neitað, að nú er erfitt árferði fyrir vinnandi fólk, erfiðara en um mörg undanfarin ár. Hvað á að gera? Hvernig á að haga stjórnarfari í erfiðu árferði? Við látum hæstv. fjmrh. svara: Á slæmum tímum á ekki að ráðast í miklar framkvæmdir. — Svo liggur í augum uppi, að í góðæri á ekki heldur að ráðast í miklar framkvæmdir. Þetta er svo sótsvört og botnlaus íhaldspólitík, að ég hefði ekki getað trúað því um neinn að bera það fram, ekki einu sinni úr íhaldsflokknum nýja, — að það eigi aldrei að ráðast í verklegar framkvæmdir, sem neinu nemi. Þarna var engu við að snúa, þetta var allt eins vitlaust og það gat verið. Á erfiðum tímum má ekki gera neitt. Í góðæri þarf ekki að gera neitt. Þá þarf aldrei neitt að gera, allt má standa kyrrt.

Viðvíkjandi sparseminni, sem hefur verið gerð hér að umtalsefni, hef ég ekki getað annað en gert svolítið gys að því, að sparsemin er miklu meiri í orði en á borði. En hæstv. ráðh. vildi þó áætla, að sá sparnaður, sem þegar væri búið að framkvæma, ásamt því, sem búið er að áætla, ef það næði fram að ganga, mundi nema 4 millj. kr. Form. fjvn. dró þetta í efa, og ég dreg það líka í efa. Ráðh. vildi þó ekki gangast inn á það, að þessar 4 millj. kr. væru notaðar til að fyrirbyggja samdrátt hjá almannatryggingunum eða til annarra gagnlegra hluta. Hæstv. ráðh. minntist einnig á, að áætlun sín í sambandi við sameiningu áfengisverzlunar ríkisins og tóbakseinkasölunnar mundi spara nokkurt fé; einnig sparaðist fé við að leggja niður skömmtunarskrifstofuna. Nú er hægt, ef um verulegan sparnað er þarna að ræða, að drýgja tekjurnar af áfengis- og tóbakseinkasölunum og áætla þessa liði nokkru hærri en hæstv. ráðh. hefur gert.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég brygðist þingmannsskyldu minni með því að koma ekki fram með ákveðnar tillögur til sparnaðar. Ég hef bent á mýmarga hluti, sem ég kann illa við að sjá á sparnaðarfrv. Ég álít annars, að það sé ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að koma með tillögur fyrir hæstv. ríkisstjórn. Nei, það mundi í flestum lýðfrjálsum löndum vera talið hlutverk ráðh. og ríkisstj. að koma með till. til sparnaðar á ríkiskerfinu, en ekki stjórnarandstöðunnar. En hæstv. ráðh. biðst undan slíku, hann þykist víst vera búinn að gera nóg með því að bera fram till., sem spara nokkrar milljónir.

Ráðh. vék að utanríkismálunum. Hann spurði, hvers vegna ég bæri ekki fram till. um fækkun sendiherra á Norðurlöndum. Framsfl. hefur borið fram till. um að fækka sendiherrum á Norðurlöndum og láta þar aðeins vera einn. Því ber hæstv. ríkisstj. ekki fram till. um þetta? Er Framsfl. vikinn frá þessu nú, í stjórnarsamvinnunni við Sjálfstfl.? Nú á hæstv. ráðh. og flokkur hans þess kost að taka afstöðu til þessara till., sem bornar hafa verið fram af fulltrúum Sósfl. Þá getur komið í ljós, hvort hæstv. ráðh. þiggur þann sparnað, sem af þessu gæti leitt.

Ég gerði utanríkismálin að umtalsefni í dag. Ég bar ekki fram neinar beinar till. um sparnað á þessum lið í því formi að fækka sendiherrum á Norðurlöndum, en ég benti á óhóflegar launagreiðslur í utanríkisþjónustunni. Það á að miða launagreiðslur í utanríkisþjónustunni við launagreiðslur í þeim löndum, sem þetta fólk starfar í. Mér virtist form. fjvn. einmitt vera sömu skoðunar, enda er ástæðulaust að greiða hærri laun en gert er í viðkomandi löndum. Ég hygg, að leit sé á, að undirtyllum í utanríkisþjónustunni séu greiddar 30 þús. kr. í húsaleigupeninga fyrir utan 117 þús. kr. laun, en það er kannske ekki þörf að spara neitt frekar, búið að ná þar endanlegu og settu marki í sparnaði.

Viðvíkjandi hinni sérstöku sérfræðirannsókn, sem ráðh. boðaði í aths. við fjárlagafrv., upplýsti hann, að það hefði verið fenginn sérfræðingur frá Ameríku til þess að gera till. um sparnað. Þessi sérfræðingur var hér líklega 10 daga og fór svo til Ameríku, og frá Ameríku ætlar hann að laga þetta. Hann er nú búinn að senda heim, að það verði ekki komið fram sparnaði á ríkisbákninu með vélum; skrifstofurnar væru of smáar til að koma vinnusparandi vélum við. Ráðh. sagði, að úti væri um þá von, en athugunum yrði haldið áfram.

Viðvíkjandi þeirri skoðun minni, að lengra mætti ganga en komið væri með fækkun embætta, brá hann því fyrir sig, að Alþýðublaðið hefði verið á móti því í sumar. Alþýðublaðið er víst orðið biblía hæstv. ráðh. Ég minnist þess ekki, að Alþýðubl. hafi beitt sér gegn því. Ég held þvert á móti, að Alþýðubl. hafi lofað ráðh. fyrir að ætla að fækka embættum, t.d. loðdýraræktarráðunautar, flugvallarstjóra og skattdómara. Ég held, að ráðh. hafi haft Alþýðubl. alveg fyrir rangri sök, hafi það fyrir skálkaskjól í þessu efni.

Hæstv. ráðh. taldi og, og það væri alveg rangt, að niðurskurðarhnífnum hefði verið beitt gegn sjávarútveginum. Hvað vilja menn þá kalla það, þegar aðstoð við sjávarútveginn minnkar úr 8 millj. kr. niður í 3,7 millj.? Hvað er niðurskurður, ef ekki það? Það hefur áreiðanlega blasað við hæstv. fjmrh., þegar hann gekk frá till. sínum, að ríkari þörf væri fyrir sjávarútveginn en nokkru sinni á síðustu árum.

Það kom mér á óvart, að hæstv. ráðh. vildi ekki fallast á till. mína um hækkaða tekjuáætlun fjárl. Hann vill hafa þar sem óbundnastar hendur. Hann vill, að tekjuáætlunin sé sem rýmst. Rökum kom hann þar ekki við. Hann segir, að ef ég hefði komið til sín, hefði ég getað fengið að vita, að ekki var ráðlegt að hækka þessa liði. Ég vissi það vel, en ég fór til manns í fjmrn., sem kunnugastur er þessu öllu, Einars Bjarnasonar, sem hæstv. ráðh. fer í smiðju til, þegar hann vill fá að vita um þessi mál. Ég þarf engrar leiðbeiningar um það, hvernig á að fá að vita um tekjuáætlunina fyrir næsta ár. Það ber að kanna eins nálægt því tímabili, sem um er að ræða, og mögulegt er, athuga, hvernig tekjustofnarnir hafa skilað sér til síðustu stundar, og í samræmi við slíkan grundvöll á að haga till. Á það við, hvort sem um er að ræða tekjuáætlun fyrir ríkið eða sveitarfélög. Hæstv. ráðh. hefur þó ekki leyft sér að vefengja brtt. mínar, nema hækkun á tekju- og eignarskatti og hækkun á söluskatti og verðtolli. Hann reyndi líka að impra á, að ekki væri varlegt að áætla tekjur af áfengis- og tóbakseinkasölunni á þann hátt, sem gert er. En þar er stuðzt við reynsluna. Þar er ágóði ársins hærri en hæstv. ráðh. ætlast til að verði allt næsta ár. Hann ætlast til, að tekjurnar verði áætlaðar 22 millj., en 1. nóv. þ.á. eru þær orðnar 24 millj. Ég held því, að ekki verði á móti mælt, að allar líkur benda til, að tekjuáætlunin sé ekki óvarleg eins og ég hef gert till. um hana.

Viðvíkjandi tryggingunum og þeirra fjárþörf skal ég ekki eyða orðum. Hv. form. fjvn. var undir áhrifum hæstv. ráðh. viðvíkjandi því, og það er auðvitað ákaflega barnalegt að halda, að það sé vit í því að láta tryggingarnar ganga á sína sjóði á einu ári og eyða þeim upp eða neyða þessa stofnun að öðrum kosti til að rýra aðstoð sína við fólkið í landinu. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. forsrh. harmaði mjög í gær, að ríkisstj. sæi sig tilneydda að fara þessa braut. Hann viðurkenndi líka, að ekki væri hægt að gera það nema einu sinni, því að þá væri gengið af tryggingunum dauðum. Var hæstv. ráðh. þá bent á, að engar líkur væru til, að auðveldara væri að kippa þessu í lag á næsta ári, og væri því réttara að byrja aldrei á því.

Ég held, að það sé rétt, að ég segi örfá orð um ræðu hv. form. fjvn. Hann lét í ljós undrun sína yfir nál. samvn. samgöngumála, þar sem er 225 þús. kr. hækkun frá frv. Það stingur í stúf um afgreiðslu hjá þessari n. og þau vinnubrögð, sem meiri hl. fjvn. er skuldbundinn ríkisstj. að beita. Þar mátti ekki hagga um tug þúsunda í fjárveitingum til vega, brúa og hafna; það varð heldur að sjá um, að það væri fyrir neðan það, sem hæstv. ráðh. hafði samþ. Hér eru í einum pósti 225 þús. kr. Hæstv. ráðh. hefur ekki haft nein orð um, að það sé á móti hans vilja. — Hv. form. fjvn. lét í ljós þá skoðun sína, að með ferðum Djúpbátsins á Önundarfjörð og aðrar hafnir, sem ríkisskipin Breiðurnar kæmu á, væri verið að draga úr tekjum fyrir Skipaútgerð ríkisins. Ég held, að þetta sé misskilningur. Djúpbáturinn fer nokkrar ferðir til Önundarfjarðar, aðallega á haustin, þegar mjólkurskortur er á Ísafirði. Þessar ferðir hafa þá verið ekki sjaldnar en tvisvar sinnum í viku. En hvað koma Breiðurnar oft? Þær koma í mesta lagi einu sinni í hálfum mánuði, stundum einu sinni í mánuði, og sjá allir, hve mikið gagn væri að slíkum ferðum til mjólkurflutninga. Þetta er ástæðan til ferða Djúpbátsins vestur á Önundarfjörð, einkanlega haustmánuðina.

Þá eru það fullyrðingar hans, að ég vilji hækka tekjur af brennivíni og tóbaki, vegna þess að ég vilji, að tekjur af þessum nautnalyfjum séu áætlaðar eins og reynsla og gögn benda til, að þessar tekjur séu og verði. M.ö.o. virðist það vera kenning hv. form., að það verði meira drukkið, ef tekjuáætlunin af vínsölu sé há, og meira reykt, ef tekjur af tóbakseinkasölunni eru áætlaðar hátt, en lítið drukkið, ef tekjur áfengisverzlunarinnar eru áætlaðar lágt, og lítil tóbaksneyzla, ef þessi póstur er lágt áætlaður í fjárl. Það er vit í þessari speki! Nei, ég held, að það sé ekki hægt að halda slíku fram. En fyrst ríkið tekur tekjur af víndrykkju og tóbaksnotkun, þá er bezt, að svínaríið komi í ljós eins og það er með réttum tölum. Það er engin þjónusta við málstað bindindismanna að ætla að fela víndrykkjuna í lágri áætlun í fjárl.

Ég verð að mótmæla því hjá hv. form. fjvn., að laun við sendiráðin í London og París séu svo há vegna Marshallhjálparinnar. Ég held, að þetta sé út í hött. Ég hef ekki orðið var við, að það hafi orðið að hækka kaup af þessum sökum. Þetta virðist vera án tillits til Marshallhjálparinnar.

Þá vék hv. form. að þessu ógurlega slysi að hækka laun til opinberra starfsmanna um 12–19%. Boðskapurinn var sá sami og hjá hæstv. ráðh., að eina ráðið væri að lækka kaupið. Ætli það verði ekki bezt að byrja á að lækka ráðherralaunin, lækka tekjur hæst launuðu embættismanna í landinu? Hæstv. ráðh. ætti a.m.k. að vera kenningu sinni svo samkvæmur, að hann neitaði að taka við sínum hluta af þessari launauppbót. Ætli þeir hafi gert það? Mér er nær að halda, að þeir hafi hirt hana með glöðu geði. Það er vafalaust bölvun að því, að hv. form. fjvn. skuli hafa fengið nokkur hundruð þúsunda fyrir eftirlit með togarabyggingunum. Þetta er á móti hans prinsípi. Það er a.m.k. svona 25 ára árslaun fyrir venjulegan verkamann. Nei, það ber ekki á því, að hæstv. ráðh. eða aðrir hátekjumenn í landinu hafi afsalað sér sínum hluta af þessum uppbótum, en fyrr en þeir gera það hafa þeir engan rétt til að fordæma launauppbæturnar.

Út af því, sem ég sagði í dag, að ríkið væri í óreiðuskuldum við hafnarmannvirki í landinu, vil ég segja það, að ég held ákveðið fram enn, að það sé rétt. Patreksfjarðarhöfn á t.d. inni á 7. hundr. þús. kr. hjá ríkinu, Akureyrarhöfn um 600 þús. kr., Akraneshöfn mörg hundruð þús. kr. Fleiri hafnir eru þannig, að þær fá ekki lögákveðið mótframlag ríkisins til hafnarframkvæmda, en hv. formaður sagði, að engar skuldbindingar hvíldu á ríkinu gagnvart þessum stöðum, sem eiga þetta fé inni. Af hverju er það þá, að þessir staðir, sem eiga fé inni hjá ríkinu, fá hæstu fjárveitingarnar ár eftir ár? Er það ekki af því, að ríkið þykist standa í óbættri sök við þessa staði? Ef ríkið hefði engar skyldur við þessa staði, þyrfti ekkert tillit að taka til skulda, heldur líta eingöngu á þörfina, hvar mest ástæða er til að flýta hafnarframkvæmdum. En Alþingi hefur viðurkennt, að þeir staðir, sem eiga hundruð þúsunda inni hjá ríkinu, eigi að fá hæstu fjárveitingar, sem veittar eru til hafnarframkvæmda. Það er viðurkenning á því, að ríkið telji sig eiga óbætta sök við þessa staði og verði að bæta það með hækkuðum fjárveitingum þan að. Ég tók eftir því, að þegar hv. form. ræddi afstöðu sína til hinna ýmsu till. við fjárl., að það var inngangurinn að þeim öllum: Ég er undrandi yfir þessari till. — Hann var líka undrandi yfir afstöðu hæstv. ráðh. Hann var undrandi yfir öllum till., sem hér eru til umr. Hann var á móti þeim vegna þess, að þær voru ræddar í fjvn., eða þá af því, að þær voru ekki ræddar í fjvn. Ein af þeim till., sem ég flyt, er um fjárveitingu til drykkjumannahælis á Úlfarsá. Ég verð að segja það, að úr því að drykkjumannahælið í Kaldaðarnesi var lagt niður og drykkjuskapur hefur ekki minnkað síðan, er full þörf að starfrækja drykkjumannahæli á öðrum stað. Það er búið að binda fé ríkisins í að undirbúa þetta hæli að till. sérfræðinga, og hæstv. fjmrh. hefur lagt til, að varið væri 70 þús. kr. til að standa undir þessari starfrækslu á árinu 1954. Ég tel því alveg ógerlegt að neita um 100 þús. kr. til að þessi tilraun verði gerð, ef það mætti verða eitthvað til viðreisnar þeim, sem ríkið hefur sökkt niður í eymd og volæði með sölu áfengis.

Út af till. minni að hækka heildarupphæðina til vega, brúa og hafna, þá lét hv. form. í ljós undrun sína yfir því. Mér virðist einmitt vera þörf að veita hér meira til þeirra héraða, sem hafa hvorki Sogsvirkjun, Laxárvirkjun né áburðarverksmiðju, beina þessu fé til Austfjarða og Vestfjarða og annarra héraða, sem fá ekki 130–140 millj. kr. fjárfestingu.

Ég gleymdi að minnast á það áðan í sambandi við það, sem ég sagði um till. mínar við tekjuhliðina, að ég tók eftir því, að hv. form. skaut því til hæstv. ráðh., að hann teldi sjálfsagt, að milli umr. væri athuguð tekjuhlið frv. Er það kannske með það fyrir augum að gera áætlunina varlegri? Nei, vafalaust til þess að gera brtt. í sömu átt og ég hef gert nú til hækkana, af því að hv. form. er á því eins og ég, að það megi að skaðlausu, því að áætlunin sé fyrir neðan allar líkur. Mér kemur á óvart, ef sú leið verður ekki farin að hækka fleiri eða færri af þeim liðum, sem ég hef lagt til, að væru hækkaðir. Háttv. form. fór fram á, að ég tæki þessar till. aftur til 3. umr. Var það af því, að það þætti óskemmtilegt að fella till. mínar nú og koma síðan með hækkunartill. við 3. umr.? Ástæðan til þess, að ég get ekki tekið mínar brtt. aftur, er sú, að þær eru hluti af þeim till., sem ég ber fram um nýjar fjárveitingar á gjaldabálkinum, og get ég því ekki fallizt á, að þær séu teknar aftur.

Þá á ég á þskj. 280 brtt. með hv. þm. N-Ísf. Það er í fyrsta lagi till. um 300 þús. kr. til að brúa Selá á Langadalsströnd. Hv. þm. N-Ísf. mælti nokkur orð fyrir þessari till. Þetta er vatnsmesta fljót á Vestfjörðum og eina áin, sem þarf stórbrú á, sem kostar hundruð þúsunda. Það er áætlað, að hún kostí 460 þús. kr. Árið 1947 var veitt fyrsta fjárveitingin til brúar á þessa á, 63800 kr. Hún er geymd síðan. Þá hefði mátt ætla, að smáfjárveitingar yrðu veittar á hverju ári til þessarar brúar, þar til nægilegt fé væri komið. En það skeði, að fjárveitingin var felld niður ár eftir ár. Þessi á sker sundur sveit þar við Djúp, Nauteyrarhrepp, og aðskilur Snæfjallahrepp og hluta af Nauteyrarhreppi hvorn frá öðrum. Ég hreyfði þessu máli í fjvn. Þessi fjárveiting var efst á óskalista okkar um fjárveitingar til brúa. Ég heyrði ekki betur en form. og flestir nm. í fjvn. tækju í upphafi vel í, að það væri réttlætismál og sanngirnismál og nauðsynjamál að veita 300 þús. kr. til Selárbrúar. Í raun og veru var komið svo langt, að við töldum víst, að gengið yrði inn á þessa fjárveitingu. Nokkrum dögum síðar kom upp, að ekki ætti að veita nema 200 þús. kr. til Selárbrúar. Ég vildi ekki fallast á að hvika frá því að veita 300 þús. kr. til þessa mannvirkis. Ég hef talið líklegt, að heimaaðilar gætu þá útvegað það, sem á vantaði, en mér þykir ólíklegt, að þeir geti útvegað 200 þús. kr. Þess vegna er þessi till. borin fram. En í þess stað eru bornar fram till. um að veita 130 þús. kr. í Norður-Ísafjarðarsýslu til tveggja brúa, sem hvor tveggja hefur verið efst á baugi á okkar óskalista, en önnur ekki á þjóðvegi eða á brúalögum. Þannig er afgreiðsla fjvn. á þessu máli. Og nú viðurkennir hv. þm. N-Ísf., að það sé mjög brýnt nauðsynjamál að fá brú á Selá, og gerist flm. að því. Nú er svo komið, að annar bóndinn, sem á að stríða við þetta stórfljót, er að gefast upp við það og er að hugsa um að flytja frá býli sínu, sem er stórjörð, og fara suður. Hefur hann verið að spyrjast fyrir um jörð, þar sem hann gæti setzt að, af því að hann er að gefast upp í baráttunni við fljótið. Nú skiptir kannske engu máli, þó að þessi hluti Nauteyrarhrepps, sem liggur utan árinnar, leggist í eyði fyrir það, að þessu kjördæmi hefur verið ár eftir ár neitað um fé til þessarar framkvæmdar. Ég verð því að vænta þess mjög eindregið, að þingið sjái sér fært að samþ. þessa till.

Þá er smátill. um bryggjugerð á Sæbóli í Aðalvík í Sléttuhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þessi hreppur hefur að miklu leyti lagzt í eyði. Þar voru 600 manna fyrir nokkrum árum, en nú eru þar 40 sálir. Hesteyri og Látrar eru komin í eyði, en Sæból er eftir, og eru þar um 40 menn. Hefur íbúum þar ekki fækkað þrjú undanfarin ár. Fólkið, sem lifir þar, vill heyja þar sína lífsbaráttu og býr þó við frumstæðustu skilyrði. Aðalatvinnuvegurinn þarna er sjávarútvegur, en þarna er engin bryggja, og er það vissulega hart, ef þessi litla upphæð, 20 þús. kr., fæst ekki samþ. Og nú vill svo til, að vegna ágreinings meðal þm. hv. stjórnarflokka um það, hvernig skipta beri framlagi til hafna, þá er óráðstafað 20 þús. kr., og með þessari litlu upphæð yrði engu byggðarlagi komið betur til hjálpar en þessari litlu byggð í Aðalvík.

Þá er till. okkar hv. þm. N-Ísf. um að verja 100 þús. kr. til þess að gera við brimbrjótinn í Bolungavík, sem skemmdist mjög í aftakaveðri 1946. Þessa upphæð viljum við fá setta inn á heimildagr. frv., 22. gr. Það er alkunna, að Bolvíkingar hafa lagt fram stórfé til þess að skapa sér hafnaraðstöðu, en þeim hefur orðið ofurefli að standa undir þeim háu upphæðum, sem á þeim skullu, er brimbrjóturinn laskaðist í ofsaveðri og brimi árið 1946. Það er óréttmætt, að skellur sem þessi lendi annars staðar en á ríkinu, og því ér farið fram á þessa upphæð.

Þá flytjum við till. um að veita 30 þús. kr. sem framlag til hlutatryggingasjóðs sjómanna og útvegsmanna í Bolungavík. Undanfarið hefur mjög saxazt á sjóðinn, en meðan góð aflaár voru, tókst að safna verulegri fjárhæð, en undanfarin þrjú aflaleysisár hefur sjóðurinn tæmzt. Ríkissjóður hefur lagt til þessa sjóðs sum árin, en önnur ekki, og nú er farið fram á, að þessi tryggingastarfsemi sé viðurkennd með því að leggja fram þessa upphæð. Hins vegar hefði ekki verið fram á þetta farið, ef sjóðurinn hefði ekki verið orðinn magnþrota vegna aflaleysis ár eftir ár. Hv. frsm. meiri hl. sagðist vera á móti þessari till., af því að hún hefði ekki verið rædd í fjvn., en mér er nær að halda, að hann hefði verið á móti henni hvort sem var, svo að það skiptir ekki máli.

Ég hef nú, eftir því sem mér hefur þótt ástæða til, gert að umtalsefni ræður þeirra hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. og læt þar með máli mínu lokið.