05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

1. mál, fjárlög 1951

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef eiginlega engu við að bæta þær ágætu ræður, sem hv. 6. landsk. hefur flutt um till. og afstöðu Alþfl. til þessa fjárlagafrv.

Nú eru fáskipaðir þingbekkir, en vel skipaðir, og er ánægjulegt að geta átt hér stuttar viðræður undir morgunsárið við þá ágætu fulltrúa hv. stjórnarflokka, sem hér eru. Ég legg megináherzlu á, að till. hv. 6. landsk. nái fram að ganga. Ég tel þar hvergi óvarlega farið, en till. þannig vaxnar, að þær miða tvímælalaust til heilla fyrir þjóðina, og læt ég þetta nægja sem meðmæli með till. hv. 6. landsk. En af því að hér er síður að tala fyrir kjördæmatill., en ég á nú enga slíka, þá vil ég aðeins leyfa mér að minnast á brtt. nr. 16 á þskj. 266, þar sem lagt er til að verja til atvinnuaukningar vegna aflabrests og atvinnuleysis á Vestfjörðum og Norðurlandi 1 millj. og 500 þús. kr. Hv. frsm. meiri hl. minntist á þá geysiáhættu, sem fælist í því, er dregið væri úr verklegum framkvæmdum og atvinnu úti um land á sama tíma og hér er ráðizt í 130 millj. kr. fjárfestingu. Þessi aðvörun hv. form. fjvn. til sinnar ríkisstj. er sannarlega orð í tíma töluð og í fullu samræmi við till. Alþfl. um að leiða sérstaka athygli að þeim fólksflutningum, sem nú eiga sér stað frá Vestfjörðum og jafnvel Norðurlandi vegna atvinnuleysis þar vestra og nyrðra. Þetta eru fólksflutningar, sem eru vægast sagt mjög erfiðir fyrir fólkið og þess eðlis, að þeir hljóta að kosta þjóðfélagið stórfé og skapa þá hættu, að hér við Faxaflóa safnist saman fleira fólk en geti fengið atvinnu í venjulegu ári, og ef eitthvað bilar hér, en úr rætist fyrir vestan og norðan, þá verður það alvarlegt áfall fyrir þjóðfélagið. Það var brugðizt svo við út af þessu máli, að þegar það kom til Ed., þá var talið, að það ætti að ræðast í sambandi við till., sem liggur fyrir Sþ., en þegar hún var rædd, þá var sagt, að þetta mál þyrfti ekki verulegrar athugunar við, því að ríkisstj. hefði þá athugun þegar í hendi sér. Það bólar þó ekki á þeirri athugun hæstv. ríkisstj., og enn síður bólar á því, að hæstv. ríkisstj. vilji afgreiða eða leysa þetta mál. Ég vil því síðast allra orða beina því til þeirra ágætu áhrifamanna innan hv. stjórnarflokka, sem hér eru staddir, að þeir, hver í sínum flokki, veiti þessu máli liðsinni. Ég beini þeim tilmælum ekki sízt til hæstv. forseta eða hv. 1. þm. Árn., sem við afgreiðslu fjárl. í fyrra vildi ekki greiða atkv. með framlagi vegna aflabrests á Vestfjörðum af því, að hann taldi, að upplýsingar vantaði. Ég beini því til þessara hv. þm., að þeir beiti sér fyrir betri athugun á þessu máli. Ég beini orðum mínum einnig til hv. 2. þm. S-M., sem að vísu er nýr maður hér í þinginu, en er velviljaður og skilningsgóður á kjör alþýðu, og síðast en ekki sízt beini ég orðum mínum til hv. form. fjvn., sem reynzt hefur traustur og kappsamur í baráttumálum síns landsfjórðungs. Ég vænti, að þessir hv. þm. vilji heyra þessa morgunbæn, sem ég flyt vegna nauðstadds fólks á Vestfjörðum, og að þetta hafi þau áhrif, að þessum málum verði meiri gaumur gefinn en hingað til. Ég flyt þetta ekki vegna mín, heldur vegna fólks, sem þjáist af atvinnuleysi og skorti og sér þann kost vænstan að flýja átthaga sína, þar sem það hefur háð alla sína lífsbaráttu. Ég vildi aðeins mæla þessi alvöruorð til ykkar, ágætu þingbræður, og skal ekki lengja þessar umræður að óþörfu.