14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

1. mál, fjárlög 1951

Einar Olgeirsson:

Mér þykir ákaflega vænt um að heyra þær raddir, sem hér hafa komið fram frá tveim þingmönnum, hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. V-Húnv., um, að eldhúsdagsumræðurnar skuli í heiðri hafðar og það sé ætlazt til, að þær fari fram og þeim sé útvarpað, svo að fólkið hafi aðstöðu til að hlusta, og ríkisstj. noti þær til að svara. Mér þykir mjög vænt um, að það skuli vera svona mikill áhugi fyrir að heiðra rétt eldhúsdagsumræðnanna og að það sé gengið þannig frá, að öruggt sé, að ekki sé myndað fordæmi, eins og hv. 1. þm. Árn. óttast, fyrir því, að eldhúsdagsumræðunum sé sleppt eða gerðar að engu. Mér þykir því vænna um þetta sem ég man eftir eldhúsdagsumræðum hér á Alþingi, þar sem í fyrsta lagi stjórnarflokkarnir, sem báðir þessir þingmenn tilheyrðu, hafa neitað að láta fara fram útvarpsumræður. Ég man eftir eldhúsdagsumræðum, þar sem þáverandi forseti kvað upp úrskurð um, að stjórnarandstaðan, þ.e. sá flokkur, sem þá var í stjórnarandstöðu, væri sviptur möguleikanum til að geta notað ákvæði þingskapa til að krefjast útvarpsumræðna. Ég man eftir eldhúsdagsumræðum, þar sem ég fyrir hönd stjórnarandstöðunnar talaði einn, án þess að væri útvarpað, og ríkisstj. svaraði ekki. — Mér þykir því vænt um að heyra þá viðurkenningu, sem nú er í þessu efni, og um leið vil ég gjarnan taka undir það í fullri alvöru, að það sé tryggilega frá þessu gengið og ekki sé hægt að skoða það sem neitt fordæmi. Við höfum talað um það við hæstv. forseta, að við höfum ekkert á móti því, að eldhúsdagsumr. væru látnar fara fram eftir að fjárl. hefðu verið afgr. Hins vegar hafa formenn þingflokkanna ekki komið saman á neinn fund til að finna út form fyrir það. Ég býst ekki við, að umr. yrðu nú, heldur að lokinni 3. umr. Ég tel, að það ætti að vera hægt að hafa samkomulag um það með þingflokkum og þm. að breyta þingsköpunum og bæta þá inn nýrri gr., líklega á eftir 53. gr., að ef stjórnarandstaðan óskaði, þá mætti fresta eldhúsdagsumr., þar til eftir afgreiðslu fjárlaga. Þetta mundi þýða það, að stjórnarandstaðan hefði á hverjum tíma rétt til þess, en ríkisstj. gæti ekki á neinn hátt notað þetta til að koma sér undan útvarpsumræðum.

Það, sem gerir, að það er út af fyrir sig ekki óréttmætt að hafa þetta ákvæði í þingsköpum, er það, að pólitískt séð getur verið rétt að fresta þessum umr. Mál bátaútvegsins eru óráðin enn, og pólitískt séð er erfitt að hafa útvarpsumr. um þá raunhæfu hluti, án þess að lausn þeirra liggi endanlega fyrir. Ég held þess vegna, að ef við viljum fullnægja því, sem hv. 1. þm. Árn. benti réttilega á, þá væri gott að hafa samkomulag um að breyta þingsköpum á þann hátt, sem ég minntist á, og með samþykki allra mundi það taka aðeins 10–15 mínútur að koma því í gegn, og mundi þetta á engan hátt þýða afsölun á þeim umr., sem hér eiga að fara fram. En hvað forminu viðvíkur, þá held ég, að rétt væri að fresta þessum umr. þar til að lokinni 3. umr., og á meðan væri tækifæri til að semja um, hvaða lögformleg aðferð yrði höfð við þessar umr.