14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

1. mál, fjárlög 1951

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa yfir því, að hæstv. forseti ræddi við mig um að veita þessi afbrigði, og lagði ég það fyrir þingflokk Alþfl., og vorum við sammála um að veita afbrigðin, og hélt ég, að það lægi ljóst fyrir, að svo væri um alla þingflokkana. Ástæðurnar til þess, að við töldum rétt að fresta eldhúsdagsumr., voru aðallega tvær. Í fyrsta lagi töldum við ekki viðeigandi, að þessar umr. færu fram rétt fyrir jólin, og í öðru lagi var það, að þótt stefna hæstv. ríkisstj. sé nú orðin nokkuð skýr, þá töldum við heppilegt fyrir stjórnarandstöðuna, að hún kæmi enn skýrar fram fyrir eldhúsdagsumr.

Út af hinum almennu umr. um málið vil ég aðeins segja það, að ákvæðin um eldhúsdagsumr. eru fyrst til orðin fyrir venju, en síðan sett inn í þingsköp, og eru þau ákvæði að mínum dómi mjög sveigjanleg. Upphaflega var þetta gert til að gefa stjórnarandstöðu og þm. almennt tækifæri til að gagnrýna gerðir og stefnu ríkisstj. á hverjum tíma, og var þetta víðast hvar á Norðurlöndum sett í samband við afgreiðslu fjárl., en það er að mínu áliti hálfgert aukaatriði, hvort þessar umr. fara fram í sambandi við fjárl. eða ekki, og nú er búið að víkja frá að hafa þessar umr. við 1. umr., og þá sé ég ekkert á móti því að hafa þetta síðar á þinginu, og ég tel yfirlýsingu hæstv. forseta fullgilda tryggingu fyrir því, að réttur verði ekki brotinn á stjórnarandstöðunni, og er ég reiðubúinn til að greiða atkv. með þessum afbrigðum eftir umtali við hæstv. forseta og samkvæmt samkomulagi við mína flokksbræður.