15.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

1. mál, fjárlög 1951

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mig langar til að minnast hér á örlitla brtt., sem ég flyt. Það er búið að útbýta brtt. við 15. gr. um að veita Leikfélagi Reykjavíkur 30 þús. kr. styrk. Það hefur notið svipaðs styrks undanfarið, enda hefur það greinilega sýnt í verki þá þýðingu, sem það hefur haft fyrir menningu þjóðarinnar í 53 ár, og finnst mér illa farið, ef þingið styður ekki þessa stofnun áfram. Það eina, sem veldur því, að það er ekki tekið á fjárl., er það, að nú hefur þjóðleikhúsið tekið til starfa, og virðist þetta e.t.v. ekki óeðlilegt við fyrstu sýn. En ég er á öðru máli um þetta og álít, að það bezta, sem við getum gert fyrir þjóðleikhúsið, til að auka aðsókn að því og velmegun þess, sé að lofa þessum litla frjóanga að lifa við hlið þess. Það er rétt, að í auðugum löndum, þar sem ríkið rekur leikhús, njóta einkaleikhús einnig stuðnings frá ríkinu. Ég veit, að þetta er svona, og ég veit líka, að það er litið svo á, að slík starfsemi sé beinlínis æskileg í sambandi við þjóðleikhúsið í Bergen t.d., þannig að þeir fengu sérstakt húsnæði skammt frá hinu ríkisstyrkta leikhúsi, þar sem hinir ungu leikarar fengu tækifæri til að njóta sín. Þetta gafst mjög vel. Einnig er það álit margra þeirra manna, sem til þekkja og vit hafa á þessum málum og eru kunnugir leiklist, að leiksýningar í Iðnó mundu ýta undir menn með að fara í þjóðleikhúsið. Menn mundu tala um báðar þær sýningar, sem þarna færu fram, og menn mundu fá áhuga á að sjá þær og bera þær saman, og þetta mundi allt verða til þess, að menn veittu þessum efnum meiri athygli. Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta. Ég man ekki betur en það sé tekið fram í þeirri beiðni, sem Leikfélag Reykjavíkur sendi fjvn., að þessi styrkur geri ekki betur en jafngilda því, að þetta leikfélag væri undanþegið skemmtanaskatti, og ég fæ ekki séð, að það sé réttlæti að íþyngja hinum ungu leikurum með skemmtanaskatti til þess að standa undir kostnaðinum af framfærslu hinna eldri. Að mínu viti er það mjög æskilegt, að þessir ungu kraftar fái skilyrði til að njóta sín og þeim sé gert fært að ná þeirri hæfni, sem mögulegt er. Síðan munu þeir berast til þjóðleikhússins og prýða það starf, sem þar er unnið. Að lokum vil ég segja það, að ég mun greiða mitt atkv. með því, að þessi starfsemi þurfi ekki að leggjast niður. Það er enginn vafi á því, að fái Leikfélagið engan styrk, þá verður það að haga starfsemi sinni með allt öðrum hætti. Það yrði þá að hafa einfaldari og ekki eins göfgandi leikrit til meðferðar. Tilgangurinn að þjóna listinni mundi þá hverfa fyrir því að flytja eitthvert léttmeti, sem líklegast væri til að þéna peninga á. Þetta vona ég að þm. geti skilið og samþykki þessa litlu og hógværu till. mína, sem ég flyt af minni litlu þekkingu, en miklu ást á leiklist yfirleitt.

Ég vil að öðru leyti segja það, að ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt af hendi ríkisstj. um afgreiðslu fjárl., og ég þakka fjvn. fyrir hennar meðferð á fjárl., þar sem hún hefur haft það fyrir megingrundvöll, að fjárl. séu afgr. með ýtrustu varfærni. Það má auðvitað deila um það, hvað tekjur muni verða miklar, en ég veit, að það verður varla of langt gengið í áætlun þeirra, og það er margsönnuð staðreynd, að ef okkur mistekst í meðferð þeirra, þá er allt annað starf okkar unnið fyrir gíg. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta.