27.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

1. mál, fjárlög 1951

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég á hér ekki nema eina till., sem ég vil vekja athygli á. Hún er nr. XVI á þskj. 402. — Við þær breytingar, sem gerðar voru á jarðræktarlögunum á síðasta þingi, er hætt að kalla jarðræktarstyrki það, sem eftir þeim er veitt, heldur jarðræktarframlög, og af því, að hætt er að kalla það jarðræktarstyrki, eins og búið er að gera í 27 ár, og komið hitt heitið, þótti mér rétt að breyta þessu, og því er þessi fyrri till. fram komin.

Sú seinni er borin fram af því, að af einhverri vangá er vitnað þar í 37. gr. Það var 37. gr. í gömlu lögunum, en nú er það 11. gr. III. Þetta er því líka leiðrétting. Ég geri ráð fyrir, að fjárlögin frá í fyrra hafi verið fyrir framan þann, sem skrifaði þetta, og því hafi hann skrifað 37. gr. Þetta eru því hvort tveggja leiðréttingar, sem mætti samþykkja án atkvæðagreiðslu, ef svo bæri undir.

En mig langar til að benda á annað. Það hafa komið fram hér á þinginu ýmsar till. um fjárframlög til þessa og hins, fjárframlag til fyrirhleðslu til verndar engjum í Saurbæ í Vatnsdal, fjárframlag til að gera ræsi gegnum Stokkseyri o.fl. Ég vil benda þeim mönnum, sem eru með svona till., á, að það er nauðsynlegt fyrir mig og aðra, sem greiða eiga atkvæði um þetta, að búið sé að gera áætlun um verkið; annaðhvort séu þessir tveir starfsmenn, sem Búnaðarfélag Íslands hefur, búnir að líta á það, svo að þeir geti gert áætlun, eða einhver af verkfræðingum vegamálastjóra. Á þetta vil ég benda fyrir framtíðina þeim til athugunar, sem svona till. kunna að leggja fyrir þingið. Það er mér ekki nóg, þó að vegaverkstjóri telji, að verkið kosti þetta eða þetta, án þess að nokkuð liggi raunverulega fyrir um, hvað gera á. Mér er ómögulegt að vera með svona till. án þess, að fyrir liggi kostnaðaráætlun og greinargerð um, hvernig ástandið yfirleitt er á staðnum. Það eru margar till., sem ég get ekki fylgt, eins og þær eru lagðar fyrir þingið, þar sem allt er meira og minna á huldu um kostnaðinn.