14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

1. mál, fjárlög 1951

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. og ætla þó ekki að ræða þær till., sem ég er meðflm. að, svo sem till. um styrk til leikstarfsemi úti á landi, sem hv. þm. Vestm. hefur gert grein fyrir. En ég flyt á þskj. 412 ásamt þrem öðrum hv. þm. till. um, að hafnarfé til Siglufjarðar verði hækkað úr 100 upp í 150 þús. kr. Ég ræddi nokkuð um þetta mál við 2. umr. og benti þá á það ósamræmi og þá ósanngirni, sem Siglufirði er sýnd, þegar hann er ekki látinn njóta sömu aðstöðu og önnur bæjarfélög, og flutti ég þá, við 2. umr., till. um, að Siglufjörður fengi 220 þús. kr. til sinnar hafnar, eins og ýmsir aðrir kaupstaðir. Nú er till. okkar aðeins um 150 þús. kr., og vil ég benda á í þessu sambandi, að þegar í haust hefur verið unnið að hafnarframkvæmdum á Siglufirði fyrir 50 þús. kr. og reynt þannig að bæta örlítið úr hinu alvarlega atvinnuástandi, svo að það verða ekki nema 100 þús. kr., sem varið verður í framkvæmdir ársins 1951, þótt till. okkar verði samþ. Hér er og mjög stillt í hóf, og þótt sjónarmið mín hafi ekki verið viðurkennd við 2. umr., þá vænti ég, að hv. þm. geti fallizt á þessa till.

Þá flyt ég á þskj. 402,XXIII till. um nýjan lið á heimildagrein fjárl., að heimila ríkisstj. að greiða bætur til þeirra, sem orðið hafa fyrir tjóni á íbúðum sínum og húsgögnum vegna flóðanna á Siglufirði, 100 þús. kr. eftir ákvörðun félmrh. En eins og kunnugt er, flæddi sjór um nokkurn hluta bæjarins og inn í allinörg íbúðarhús nú fyrir nokkrum dögum, og urðu þá tilfinnanlegar skemmdir á húsum og húsgögnum manna, og er sanngjarnt, að hlaupið sé undir bagga með því fólki, sem varð þarna fyrir tjóni, eins og gert hefur verið oft áður, þegar náttúruöflin hafa valdið tjóni á eignum manna. Í þessu óveðri urðu víða um land miklar skemmdir, en óvíða munu þær hafa orðið eins miklar og tilfinnanlegar og hjá almenningi á Siglufirði, en hér er aðeins átt við að bæta það tjón, sem varð hjá alþýðu manna, en ekki á mannvirkjum, eins og t.d. hafnarmannvirkjum og slíku, heldur aðeins þegar slíkar skemmdir hafa náð til heimila manna og gert íbúðarhús þeirra lítt nothæf.

Þá er á sama þskj., XXIX. lið, till., sem er flutt í samráði við bæjarstjórann á Siglufirði, og fjallar hún um að veita Siglufjarðarkaupstað allt að 900 þús. kr. lán til kaupa á atvinnutækjum til Siglufjarðar. Lánið greiðist með jöfnum afborgunum á næstu 5 árum með 4% vöxtum, enda verði afborganir og vextir teknir inn á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Siglufjarðar þar til lánið er að fullu greitt. Atvinnuástand er nú mjög ískyggilegt á Siglufirði, eftir að síldveiðin hefur brugðizt þar í 6 sumur, og er sjáanlegt, að breyta verður þar um atvinnuhætti og hætta að treysta eingöngu á síldina, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Bæjarstjórnin gerir sér líka fyllilega ljóst, að ófært er að treysta svo algerlega á einn atvinnuveg, og fer því fram á, að bænum verði veitt það lán, sem hér er farið fram á, og hefur hún þá einkum togarakaup eða annað slíkt í huga. Bæjarstjórnin ætlar, eins og tekið er fram í till., að taka afborganir og vaxtagreiðslur inn á fjárhagsáætlun bæjarins og bæta þessu ofan á útsvör og gjöld íbúanna og þar með að tryggja, að lánið verði greitt á tilskildum tíma. Atvinnuástand er nú slíkt í bænum, að menn flykkjast þaðan í burt, ef þeir mögulega geta, og þá einkum hingað til Reykjavíkur, en af þessum fólksflutningum stafar mikil hætta, bæði að menn streymi um of hingað til bæjarins og eins hitt, að þessi mikla atvinnustöð fari í eyði, og væri þá illa farið. Stór hluti íbúanna hefur ekki tök á að leita út fyrir bæinn í atvinnuleit, og er mikil hætta á, að margir þurfi að leita aðstoðar hins opinbera til að fleyta fram lífinu, en bæjarstjórnin vill koma í veg fyrir, að til slíks þurfi að koma, og vill heldur fá aðstöðu til að gera íbúana óháða síldveiðunum, svo að almenningur þurfi ekki að leita til hins opinbera um lífsframfæri. Bæjarstjórnin vonast því til, að þessi till. mæti fullum skilningi hv. þm., Alþ. og ríkisstj., svo þýðingarmikil sem hún er fyrir Siglfirðinga.

Ég er hér meðflm. að fleiri till., en ég mun ekki orðlengja um þær, því að það hafa aðrir. hv. þm. gert eða munu gera, svo að ég sé ekki ástæðu til að gera það frekar.