14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

1. mál, fjárlög 1951

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er um þetta mál það að segja, að þessi till. er tekin upp af hv. fjvn. eftir till. hæstv. dómsmrh. eða dómsmrn. Þær upplýsingar, sem sá hæstv. ráðh. hefur gefið um þetta, eru þær, að það sé svo lítið rúm hér í fangelsum og vinnuhælum, að þess sé enginn kostur að taka til dvalar nema örlitinn hluta þeirra manna, sem þangað eiga að fara, og sýnist það ástand ekki vera ákjósanlegt eða heppilegt. Flestir af þessum mönnum, sem í fangelsum og vinnuhælum þarf að hafa, en komast þar ekki að, munu vera hér í Reykjavík. Og hæstv. dómsmrh. upplýsti, að Reykjavíkurbær teldi þetta svo mikið atriði, að úr þessu yrði bætt, að þeir hefðu ákveðið að leggja til tilbúið hæli á þessum stað, sem nefndur er í till., ef ríkið greiddi kostnaðinn við að reka það. En eftir landslögum skilst mér að ríkinu sé í raun og veru skylt að koma upp nægilegum fangelsum og vinnuhælum og reka þau líka. Þetta hefur nú ekki verið gert, að koma þessum stofnunum á fót, þannig að bærinn mun hafa tekið sig fram um. þetta. Eitt af því, sem rekið hefur á eftir bænum um þetta, eftir því sem hæstv. ráðh. segir, er það, að það eru mjög mikil vanhöld á greiðslum barnsmeðlaga, en viðurlög gagnvart óskilsemi á þeim eru vist á slíkri stofnun. En það hefur ekki komið til mála, að upp á þessa vist hafi verið að bjóða. Það mun vera stórfé, sem þessir menn hafa svikizt um að greiða af þessum skyldugreiðslum, sem mundu greiðast, ef hægt væri að bjóða upp á slíka vist, ef ekki væri staðið í skilum með þessi gjöld. Hvenær þetta hæli tekur til starfa, er mér ekki kunnugt. En það er þessi fjárhæð, sem hv. 6. landsk. nefndi, sem rn. telur þurfa til þess að standa undir sjálfum rekstri þessarar stofnunar. En stofnkostnaðurinn verður ríkinu óviðkomandi.