14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

1. mál, fjárlög 1951

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér nú ekki að karpa við hv. form. fjvn. Og ég ætla, að hafi hann tekið eftir því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, þá hafi ekki verið ástæða til þess fyrir hann að viðhafa þau ummæli, sem hann hafði, þegar hann fór að svara mér. (GJ: Ummæli hv. þm. gáfu tilefni til þess.) Af hverju tilnefndi þá hv. þm. ekki þau ummælí, sem ég hafði? (GJ: Ég gerði það. Ég get svarað þeim á eftir.) Það er gott. Ég hef líka rétt til að tala aftur, ef hv. þm. ekki heldur sig við rétt mál. Ég sagði ekkert styggðaryrði í garð hv. fjvn. Ég færði það til, sem var mitt álit, að þarna hefði mislukkazt fyrir n. um fjárveitingu til Eyrarbakka og að það mundi hafa verið á misskilningi byggt. M.ö.o., það, sem mér fannst að þessari framkvæmd, og annað, sem ég taldi að, það færði ég til betri vegar, sem ég vildi trúa. En þó svo væri frá minni hendi, þá færði þó hv. form. n. það eins úr lagi og hægt var að gera, sem ég sagði um gerðir hv. fjvn. En telur hann, að hann þekki þessi mál betur en ég og fólkið þarna á þessum stað? Um það ætla ég ekki að metast við hann, það skiptir ekki máli. En mætti ég spyrja hv. form. fjvn.: Er það í krafti þeirrar þekkingar, sem hann hefur á þessu fólki þarna austur á Eyrarbakka eða Stokkseyri, að hann ber á þessa menn, sem fyrir framkvæmdunum standa þarna austur frá, að þeir gefi út falska reikninga? Hann segir, að þeir hafi tekið fyrir sumar framkvæmdir tvöfalt gjald. Vill hv. þm. endurtaka þetta í þeirra garð utan þinghelginnar?

Um önnur atriði viðkomandi störfum hv. fjvn. er það yfirleitt að segja, að ég þykist hafa fyrr og síðar haft fullan skilning á þeim vanda og erfiðleikum, sem þessi n. hefur á hverju þingi við að etja og eru því meiri sem erfiðara er að sinna óskum fólksins og þörfum. En að ég gerði ekkert slíkt að umtalsefni, var ekki af því, að ég ekki vissi, hvað gerðist, eða af hinum erfiðu viðfangsefnum margra sveita á landinu, heldur var það vegna þess, að ég vildi ekki setja á langa ræðu hér eða tala um annað en viðvíkjandi þeim tili., sem ég bar fram brtt. við. — En viðvíkjandi því atriði, sem hv. þm. minntist á, að það væri eins og hér væri um milljón að ræða að því er snerti framlag vegna þessa fólks, þá geri ég engan mun á því, hvort upphæðin er stór eða lítil, ef mér finnst um réttlætismál vera að ræða. En þó að um slíkt sé að ræða, þá er náttúrlega svo fjarri því, að mér detti í hug, að hægt sé að sinna öllu því, sem telja má til réttlætismála. Það er vitaskuld engin leið, og það sýnir sig á mörgum liðum, sem hv. fjvn. er gersamlega ómáttugt að sinna. Og mætti standa á sama, hverjir hana skipa, að því leyti, að öllum óskum um uppfylling þarfa er ekki hægt að fullnægja. Ég tók þessi atriði vegna þess, að ég vildi gjarnan fá leiðréttingu á því. Og það kostar litla fjármuni. En að veita þá fjármuni, það er aðeins vottur þess, að hæstv. Alþ. hafi skilning á þörfum þessa fólks, sem þarna er um að ræða, og vilji halda gefin loforð við annan aðilann, sem ég ræddi um, Eyrarbakka, um að þessi greiðsla komi, þannig að þetta sé tekið inn á fjárlagafrv., eins og áskilið var. Ef þetta hefði verið stór upphæð, þá gat munað meira um það á gjaldaliðum fjárl., þegar árferði er þannig, að við erfiðleika er að etja um að skipta fjárframlögum slíkum sem þessum á milli aðila. En þegar um svona litlar fjárhæðir er að ræða, sem búið er auk þess að lofa, þá getur maður ekki álitið, að það geri nokkuð til eða frá um afkomu ríkissjóðs, þó að greiddar væru þessar 20 þús. kr., úr því að málið var þannig tekið upp af hálfu ríkisstj., að búið var að lofa að framkvæma verkið. — En viðvíkjandi aftur hinum staðnum, sem ég nefndi, er það að segja, að hann er búinn að bíða. Og ég tók fram í fáum orðum, hve mikla örðugleika fólkið á þeim stað ætti við að búa, meðan þessu verki væri ekki komið í framkvæmd. Hvað þessi mannvirki kosta, getur enginn sagt um, a.m.k. mun það verða um hálft annað hundrað þús. kr. og e.t.v. meira. Og þó að varið sé þessum 20 þús. kr. í þessu skyni, þá er það ekki nema aðeins vottur þess, að menn hafi skilning á þeirri þörf, sem á því er að framkvæma verkið. En ég var ekki að veita hv. fjvn. ákúrur fyrir neitt í þessu sambandi. En hv. form. fjvn. gaf mér tilefni til að ætla, að hv. n. hefði verið sagt skakkt frá þannig í sambandi við þessa framkvæmd, að til þessarar framkvæmdar greiddist fé sem styrkur eftir jarðræktarlöggjöf. En þessi framkvæmd fær engan styrk til sín, nema með sérstakri samþykkt. Hv. form. fjvn. taldi sig hafa fengið vitneskju frá oddvitum um þetta. Og ég hef ekki komið með neitt orð um þetta annað en það, sem þeir hafa sagt mér. Og það er alveg nýtt fyrir mér, ef þeir menn hafa sagt hv. þm. annað en það, sem þeir hafa sagt mér.

Annars eru þessi orðaskipti okkar hv. form. fjvn. og mín alveg óþörf að því leyti, að ég gaf ekki tilefni til, að neinn gæti ætlað, að ég vildi veita hv. fjvn. ákúrur.