11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

141. mál, fiskveiðisjóður Íslands

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Að undanförnu hafa skapazt vandræði fyrir eigendur nokkurra vélbáta, og ern það einkum þeir bátar, er voru keyptir frá Svíþjóð, vegna þess að vélarbilanir hafa orðið tíðari í þessum bátum en eðlilegt er. Er nú svo komið, að setja verður nýjar vélar í marga þessara báta. Margir eigendur bátanna hafa leitað til ríkisstj. með ósk um aðstoð vegna þessara vandræða þeirra. Hefur ríkisstj. reynt að afla lána hjá lánsstofnunum, en það tókst ekki að fá viðunandi lausn á málinu eftir þeim leiðum, og datt okkur þá í hug að leita á náðir fiskveiðasjóðs. Við nánari athugun kom í ljós, að auðið var með breytingu á l. um fiskveiðasjóð að ráða nokkra bót á þessu, Samkv. l. eiga 331/3% af tekjum sjóðsins af útflutningsgjöldum að renna í sérstakan sjóð, sem á að verja til þess að veita 2. og 3. veðréttar lán til skipa, sem eru nýbyggð. Nú þykir óhætt að rýra þessar tekjur fiskveiðasjóðs úr 331/3% niður í 15% í þeim tilgangi, að þessi 181/3% renni til þessara báta, er ég hef getið um. Ef menn spyrja, hve miklu þetta nemi árlega, er ekki með vissu hægt að segja um það, en í ár eru tekjur sjóðsins — að ég hygg — hátt á 6. millj., og nemur þá þessi tilfærsla 900 þús. til 1 millj. kr. Ég hef ráðfært mig um þetta við forstjóra sjóðsins, Elías Halldórsson, og hann telur þetta mögulegt. Vænti ég þess, að málið fái skjóta afgreiðslu hjá hv. d.

Eins og segir í grg. þessa frv., þá er í sambandi við þetta frv. flutt annað frv., sem er um breytingu á stofnlánadeild sjávarútvegsins, og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að bæta hér við örfáum orðum um það frv. til þess að þurfa ekki að hafa framsögu um það sérstaklega. En þetta frumvarp á þskj. 386 fer fram á heimild til handa stjórn stofnlánadeildarinnar til að veita veðleyfi fyrir 1. veðrétti í skipum til vélakaupa, ef ný vél er sett í skipið. Sanngjarnt þykir, að lán stofnlánadeildarinnar víki fyrir þessu láni, vegna þess að veðhæfni skipanna verður meiri á eftir. Það hefur verið rætt um þetta mál við þá, sem stjórna stofnlánadeildinni, og eru því bæði þessi frv. borin fram með samþykki allrar ríkisstj. og þessara aðila, stjórnar fiskveiðasjóðs og stofnlánadeildarinnar. — Ég vænti þess vegna, að allir hv. þm. geti léð þessu máli fylgi sitt, og óska eftir því, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.