04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

97. mál, skógræktardagur skólafólks

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. n. fyrir afgreiðslu málsins, og ég skal taka fram, að ég get sætt mig vel við allar brtt., sem n. hefur gert við frv., og hygg, að þær séu flestar eða allar til bóta.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði hér áðan um framkvæmd skógræktardagsins, að því er tekur til þeirra barna, sem fara úr kaupstöðum í sveit að sumrinu, þá er það von mín og raunar vissa, að það væri þá mjög stirðlega á málum haldið, ef ekki fengist annað tveggja undanþága frá þátttöku í skógræktardeginum eða að viðkomandi húsbændun heimiluðu börnunum að ganga til þessarar þjónustu þar, sem það væri unnt, á þeim tíma, er þau væru í sumardvöl sinni.

Ég vil svo vona, að málið komist í gegnum þingið og verði gert að lögum og að gagn megi af því hljótast í framkvæmd.