09.11.1951
Neðri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

96. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það var sérstaklega eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem gefur tilefni til athugasemda. Hann sagði á þá leið, að ef frv. næði fram að ganga, þá yrðu tveir gagnræðaskólar á Akureyri, þótt einn gæti annað allri kennslunni, og taldi hann það vera óhæft Hér er ég ósammála honum um grundvallaratriði. Það, sem hér er um að ræða, er, hvort menntaskólanum á Akureyri og menntaskólanum í Reykjavík skuli veitt heimild til að undirbúa nemendur undir landspróf á tveimur árum, þótt það taki almennt þrjú ár í gagnfræðaskólum. Nú er það kunnugt, að hæfni og vilji nemenda til námsins er mjög misjafn. Ég tel, að einn höfuðgalli núgildandi fræðslulaga sé, að ekki er tekið nægilegt tillit til þessarar staðreyndar, að gerð sé tilraun til þess að reyra námið allt í of fastar skorður og miða kröfur og tilhögun síðan við meðallagið í hæsta lagi. Hér er áreiðanlega gengið óvenjulega langt í „standardiseringu“, ef svo mætti segja. Öllum nemendum er ætlað að ganga í gegnum sömu vélina, eins og þeir hefðu sömu hæfileika, sama áhuga og sama námshraða. Það væri tvímælalaust til bóta, ef höfð væri meiri hliðsjón af því, að nemendur eru misjafnir að hæfileikum og að þeim hæfa ólíkar aðferðir og misjafn hraði við námið. Þegar þess er gætt, að verulegur hluti nemenda getur tekið landspróf eftir tveggja ára nám, eru það sterk rök fyrir þessu máli, fyrst menntaskólarnir bjóðast til að undirbúa nemendurna á tveimur árum í stað þriggja. Ég andmæli því ekki, að það sé nauðsynlegt að hafa þrjú ár í gagnfræðaskólum til undirbúnings undir landspróf, en það er verulegur hluti nemenda, sem getur lokið því á tveimur árum, og til hvers eiga þeir þá að sitja í gagnfræðaskóla í þrjá vetur, ef til eru skólar, sem útskrifa þá á tveimur? Af þessum sökum er ég í grundvallaratriðum ósammála hæstv. menntmrh. um, að það sé ekki rétt að hafa tvo gagnfræðaskóla á Akureyri. Og ég álít einnig, að svipað sjónarmið ætti að ríkja á fleiri sviðum í skólamálunum. En því takmarki mætti m.a. ná með því að minnka skólana frá því, sem nú er; þá væri hægt að haga kennslunni meira við hæfi nemendanna en þegar skólarnir eru risabákn eins og þeir eru að verða.

Til eru einnig þau rök með þessu máli, sem eru sameiginleg fyrir báða skólana, og drap hæstv. menntmrh. á þau áðan, en þau eru, að heppilegt sé fyrir nemendurna að koma ungir í þann skóla, sem þeim er ætlað að dvelja í til stúdentsprófs. Hygg ég tvímælalaust, að betra sé fyrir nemendurna að dvelja lengi í sama skóla við nám en þurfa að flytja sig skóla í milli. Hins vegar skal ég játa, að til eru einnig rök á móti málinu, og vildi ég fyrst og fremst telja það, að við þetta stækkuðu skólarnir allverulega, sérstaklega menntaskóli Akureyrar. En um það held ég að ekki sé ágreiningur meðal nútíma skólamanna, að mjög stórir skólar eru ekki æskilegir. Ég hygg, að barnaskólarnir í Reykjavík séu allt of stórir og flestir gagnfræðaskólarnir líka. Menntaskólinn í Reykjavík er allt of stór, og hefði átt að vera búið að skipta honum fyrir löngu, að vísu ekki í efri og neðri deild, ekki hversum, heldur langsum, ef svo mætti segja, og er ég viss um, að koma mætti á skynsamlegri verkaskiptingu þannig. Sérstaklega verður þetta nauðsynlegt, ef frv. þetta nær fram að ganga, og verður þá óhjákvæmilegt að skipta menntaskóla Reykjavíkur og þá um leið nauðsynlegt að stofna heimavist við hann.

Ég vil nota þetta tækifæri til að láta þá skoðun mína í ljós, að það megi ekki dragast lengur að koma upp heimavist við menntaskólann í Reykjavík. Það er hneisa, að á sama tíma sem reist er stórt skólahús á Akureyri, þá skuli ekkert á því sviði hafa verið gert við eina stærstu og elztu menntastofnun landsins, sem er menntaskólinn í Reykjavík. Menntaskólinn í Reykjavík getur ekki veitt nemendum utan af landi sérstök hlunnindi til þess að gera þeim auðveldara að stunda hér nám, hvorki húsnæði, fæði né þjónustu. Því eru aðstæður fyrir nemendur utan af landi verri hér en á Akureyri. Við svo búið má ekki lengur standa.

þetta voru rök, sem snerta báða skólana, á móti málinu. Hins vegar er svo að geta, að til eru sérstök rök, er mæla með miðskóladeild á Akureyri, þ.e. þau, að ekki er til fulls notað húsnæði menntaskólans á Akureyri, en það verður ekki notað, nema miðskóladeild sé sett upp. Enn fremur má geta þess, að verði eingöngu lærdómsdeild á Akureyri, þá eru starfskraftar skólans ekki nýttir að fullu, og mætti búast við, að kennarar skólans yrðu að leita sér einhverra starfa utan skólans.

Þótt segja megi, að rök séu til gegn þessu máli, svo sem stækkun skólanna og húsnæðisskortur í Reykjavík, þá finnst mér þau rök, er mæla með málinu, þyngri á metunum fyrir báða skólana, en þó sérstaklega fyrir skólann á Akureyri.