06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

96. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. N–Þ., sem mér finnst ástæða til að taka til athugunar. Ræða hans var fyrst og fremst rökfærsla fyrir því, að menntaskólinn á Akureyri yrði 6 vetra skóli, og fyrst þetta er skoðun hv. þm., get ég ekki skilið, hvers vegna hann getur verið á móti því að veita menntaskólanum í Reykjavík sömu réttindi. Hv. þm. sagði, að sér hefði þótt einkennilegt, er till. kom hér fram í fyrra um að veita menntaskólanum í Reykjavík sömu aðstöðu og menntaskólanum á Akureyri, og sagði, að engar óskir hefðu komið fram um það við n. Ég veit hins vegar, að það var mjög eindregin ósk rektors og kennarafundar menntaskólans hér, að skólinn yrði 6 vetra skóli. Það var því ekkert undarlegt, að till. kæmi fram hér á Alþ. um þetta efni. — Hv. þm. sagði, að ekkert rúm væri fyrir aukna kennslu í menntaskólanum í Reykjavík, þar væru allar kennslustofur setnar. Þetta er ekki rétt. Skólastjórnin hefur hikað í lengstu lög við að taka upp síðdegisskóla, þ.e.a.s., hún hefur ekki viljað kljúfa skólann í tvennt. En fyrir ári var sú skipun upp tekin, að 3. bekkur hefur ekki mætt fyrr en eftir hádegi. Eftir hádegi er því nóg húsrými í skólanum og enginn vandi að koma þar fyrir mörgum deildum. Hv. þm. hlýtur að vita, að í gagnfræðaskólanum hér fer kennsla einnig fram síðdegis, meira að segja allt að helmingur hennar, og menntaskólinn getur auðveldlega tekið þann hátt upp, hvenær sem með þarf. Það er því fráleitt að halda því fram, að menntaskólinn í Reykjavík hafi ekki eins miklu húsnæði til að dreifa og menntaskólinn á Akureyri og gagnfræðaskólarnir hér í Reykjavík.

Ef svo færi, að till. meiri hl. menntmn. yrði samþ., mundi enn verða aukið á þann glundroða, sem er í menntaskólamálum okkar. Hann var nógur fyrir. Núgildandi lög gera í raun og veru ráð fyrir, að tvenns konar menntaskólar séu til, þ.e.a.s. menntaskólarnir á Akureyri og í Reykjavík og svo Verzlunarskólinn. Hér má segja að sé um tvær tegundir menntaskóla að ræða. Ef till. n. nær fram að ganga, er orðin til enn ein tegund menntaskóla. Svo er í uppsiglingu till. um að koma upp menntaskóla á Laugarvatni, og yrði það þá fjórða tegundin. Menntaskólinn í Reykjavík, sem er þeirra elztur, yrði minnstur og stytztur, 4 ára skóli, menntaskólinn á Akureyri, sem er næstelztur, yrði 6 ára skóli, Verzlunarskólinn 6 ára skóli, og á Laugarvatni yrði 7 ára skóli. Hér er því gert ráð fyrir fjórum skólum, sem allir eiga að útskrifa stúdenta, en enginn með sama hætti. Þetta er mjög vanhugsað, og mér finnst hér vera svo lítil forsjálni á ferð, að mig undrar það mjög.

Menntaskólinn á Akureyri og menntaskólinn í Reykjavík hafa allt frá stofnun skólans á Akureyri verið sams konar skólar, og þeir eiga að halda áfram að vera það, og þess vegna var það, sem við fluttum till. um, að sams konar reglur yrðu látnar gilda um báða skólana. Það er eina leiðin til að bjarga þessu máli við.