13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

96. mál, menntaskólar

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. þm. Hafnf. sagði áðan, að ég hefði sagt, að af þessari breytingu, sem hér er ráðgerð, hlyti það að leiða, að gagnfræðaskólarnir færu að heimta til sín barnafræðsluna. Þarna mun hann hafa tekið skakkt eftir. Það var ekki þetta, sem ég sagði. Ég sagði, að út frá þeim rökum, sem menntaskólinn í Reykjavík færir fram til þess að fá heimild til að hafa miðskóla, þá mætti hugsa sér, að einhver gagnfræðaskóli taki að sér barnafræðsluna einhvers staðar. En það er ekki með þessu sagt, að allir gagnfræðaskólar geri þessar kröfur. — Hv. þm. sagði, að menntaskólinn í Reykjavík hafi ekki viljað fella sig inn í hið nýja skólakerfi. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að lesa upp úr þessu umrædda bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt skoðun kennaranna væri þessi, beygðu þeir sig að sjálfsögðu fyrir ákvæðum hinna nýju fræðslulaga. En undanfarin ár hefur þó verið hvikað frá hinum fulla aðskilnaði miðskólastigsins, er var meginregla fræðslulaganna frá 1946, því að lærdómsdeildarkennslu hefur verið haldið uppi við tvo miðskóla a.m.k.“

Ég efast ekkert um, að mjög skiptar skoðanir eru um þetta, en einn af beztu kennurum landsins, Kristinn Ármannsson, var einn af þeim, sem undirbjuggu nýju skólalöggjöfina, og lagði nefndin mikla vinnu í að undirbúa þessa nýju löggjöf. Þegar löggjöfin var til umr. hér á Alþ. 1946, þá lá fyrir sameiginleg grg. frá nefndinni og ekki neinn ágreiningur innan nefndarinnar um þetta. Hins vegar efast ég um, að allir kennarar menntaskólans í Reykjavík séu á einu máli um þetta, eins og eðlilegt er.