23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem er komið aftur til þessarar hv. d., var rætt svo ýtarlega við fyrri umr., að ég skal ekki vera margorður að þessu sinni. Ég vil aðeins benda á, að enn þá er ekkert samkomulag um málið, hvorki í menntmn. þessarar d., þar sem n. klofnaði, né heldur milli menntmn. beggja deilda, og litið samkomulag við hæstv. ráðh. og því minna við þingheim allan, sem sést bezt af þeim brtt., sem koma fram undir umr. Allt þetta sýnir, að hversu vel sem hefur tekizt að skipa í þessa n. á sínum tíma, þá hefur henni ekki tekizt að útbúa málið þannig, að Alþ. væri sammála um afgreiðslu þess, enda var n. ekki heldur sammála það sýnir sá fjöldi af brtt., sem komið hefur fram frá einum mþn.- manni, hv. 1. þm. N-M., auk þess sem það er kunnugt, að aðrir nm. gengu mjög frá sinni skoðun til að fá samkomulag. Þetta er heldur ekkert undarlegt, því að sá aðili, sem á að njóta starfskraftanna, hefur aldrei verið spurður, fólkið hefur aldrei verið að spurt. Það er prestastéttin sjálf, sem hefur verið að spurð, og sérstaklega yfirstéttin, biskup landsins, biskupsritari og þeir, sem eru yfir þessum málum. Á kirkjuþinginu voru margir prestar mótfallnir frv., og fólkið var ekki spurt. Það hafa líka komið upp raddir í blöðum um það, að þetta mál ætti ekki fram að ganga á þann veg, sem það er undirbúið hér í þinginu. — Þessi fáu orð vil ég láta falla um málið sjálft. En ég vil leyfa mér að bera fram skriflega brtt., svo hljóðandi:

„1. Í stað 1.–12. gr. kemur ein grein, er verður 1. gr., svo hljóðandi:

Frestað skal til 1. janúar 1954 framkvæmd laga nr. 37 1951, um breyting á lögum nr. 45 1907, um skipun prestakalla.

2. Við 13. gr. (verður 2. gr.). Greinina skal orða svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.

3. Fyrirsögn frv. verður:

Frv. til l. um frestun á framkvæmd laga nr. 37 1951, um breyting á lögum nr. 45 1907, um skipun prestakalla.“

Till. mín við fyrri umr. var um frestun í eitt ár, en nú er till. mín um að fresta framkvæmdum í tvö ár, og geri ég ráð fyrir, að hæstv. forseti sjái sér fært að bera till. upp. Það gefur kirkjuyfirvöldunum, hæstv. ráðh. og fólkinu í landinu nægilegan tíma til þess að semja um málin og ræða þau; þess utan stangast það að sjálfsögðu ekkert á við næstu kosningar, því að þá er sú sprengihætta liðin hjá og ekki ástæða til að óttast það neitt. Þá eru líka nýir menn komnir hér að einhverju leyti inn í þingið til að fjalla um þetta mál. Þá hefur þetta mál fengið þann undirbúning, sem hægt er að láta það hafa. Það er ekki heldur annað sæmandi fyrir Alþ., úr því sem komið er, en að fara þannig með málið.

Þá hef ég borið fram tvær till. á þskj. 755, sem eru varatill. við þessa skriflegu till. Í fyrsta lagi, að á eftir 3. gr. komi ný grein, er orðist svo:

„Ráðherra skipar sóknarprest á Þingvöllum að fengnum till. frá biskupi og guðfræðideild Háskóla Íslands.“

Hæstv. ráðh. minntist á, að þetta væri raunverulega óþarft, því að hann mundi ekki skipa prest á Þingvöllum nema spyrja biskup. En ef þessi till. er samþ., þá er, eins og hv. 11. landsk. sagði, tekinn kosningarrétturinn af þessum sóknum, og það er það, sem ætlazt er til með till., að hér verði ekki kjörprestur, heldur verði valinn prestur til þess að gegna ákveðnum störfum auk hinnar venjulegu prestsþjónustu. Hv. 11. landsk. minntist á, að það væri raunverulega óviðfelldið að taka þennan rétt af sóknunum. En ég vil í sambandi við þetta benda á, að þessar sóknir hafa ekki fengið að hafa þennan rétt í meira en áratug; þeim hefur verið neitað um að velja sér prest vegna afskipta Framsfl., sem flæmdi heiðursprest frá Þingvöllum, séra Guðmund Einarsson, og síðan hefur hvorki biskup né þeir kirkjumrh., sem setið hafa að völdum á þessu tímabili, nokkru sinni auglýst þetta prestakall til umsóknar, því að þetta embætti hefur verið skipað ekki einum presti, heldur tveimur prestum. Annar hluti sóknarinnar hefur orðið að hafa prest frá Mosfelli í Grímsnesi, en hinn frá Mosfelli í Mosfellssveit, svoleiðis að það er enginn réttur tekinn af þessum mönnum annar en sá, sem hefur verið tekinn af þeim undanfarið. En að ég vil knýja þetta fram, stafar af því, að ég álít fyrst og fremst, að slíkt prestakall eigi ekki að gera að kennsluprestakalli, vegna þess að þarna hefur verið reistur heimavistarskóli. Það mætti að vísu setja það að skyldu, að presturinn skyldi kenna við þann skóla, en það vakir fyrir mér, að þessi prestur hafi önnur störf í sambandi við Þingvelli og þjóðgarðinn. Ef þessi prestur er kosinn nú, þá getur það m. a. verið ungur prestur, prestur, sem enga hæfileika hefur til að sinna því hlutverki, sem ég ætlast til að verði hans meðhlutverk, og þá situr þessi prestur þar um aldur og ævi, ef honum þóknast, og verður þá ekki hægt að koma fram þeim umbótum síðar meir. Ef það skyldi ske, að báðar þessar till. mínar verði felldar, bæði aðaltill. og þessi, þá vildi ég vænta þess, að hæstv. kirkjumrh., sem á sæti í Þingvallanefnd, hefði um það fullt samkomulag við Þingvallanefnd að setja þar prest fyrst um sinn og láta ekki fara fram prestskjör, fyrr en það er athugað nánar, því að það eru möguleikar á næsta þingi að fá ný l. um Þingvelli yfirleitt, og ég get vel hugsað mér, að það yrði gert og um það yrði kannske samkomulag, og þá er nægilegt að setja prest á Þingvöllum, þar til séð er, hvort samkomulag næst um það mál.

Þriðja till. mín er einnig varatill., ef fyrsta till. verður felld, þ. e., að 7. gr. falli niður, en 7. gr. er um farandprest eða flökkuprest. Ég verð að segja, að mér er óskiljanlegt, þegar hæstv. kirkjumrh. hefur viðurkennt, að ekkert hérað í landinu vilji kannast við að eiga slíkan prest, — hann sé eins og vegurinn á Holtavörðuheiði, — hvers vegna hæstv. ráðh. er þá að berjast fyrir því, að verið sé að setja upp þetta embætti. Enginn vill eiga hann, allir vilja úthýsa honum, og enginn vill kannast við hann. Hv. 2. þm. Árn. skildi ekki afstöðu mína til þessa máls, af því að ég hef barizt fyrir því, að ekki væri fækkað prestum í landinu. Hann hefur þá ekki skilið mitt mál í umr., því að ég lagði áherzlu á, að ekki væri fækkað prestum í sveitum landsins, þar sem presturinn er í beinum tengslum við fólkið sjálft, en útilegupresturinn er ekki í tengslum við neina menn. Það er einhver fylgihnöttur, sem á að fara um allt landið — ég hygg bara til að þiggja laun af ríkissjóði, en honum er ekki ætlað neitt starf í þjónustu kirkjunnar, sem er ekki hægt að láta aðra menn uppfylla, án þess að embætti sé stofnað. Biskup setur unga menn, sem koma frá skóla, til þess að starfa í embættum um stundarsakir, þar sem verður prestslaust. Það væri að íþyngja þessum mönnum, sem eru að byrja sína braut, að ætla að ráða einn eða fleiri presta til að gegna þessum störfum í staðinn fyrir að láta ungan kandidat aðstoða til að kynna sig þar. Það er í fullu samræmi við það, sem ég hef áður haldið fram í málinu, að ég vil ekki leggja því lið, að slíkt embætti sé stofnað. Þess utan vil ég benda á, að gert er ráð fyrir, að þessi prestur komi til með að eiga heima í Reykjavík, og ég vil benda á það, að hvar sem hann á heima, þá verður að sjálfsögðu að sjá þessum presti fyrir bústað, og það þyngir þann vanda, að hægt sé að byggja yfir presta í sveitum, og það ætti að vera næg ástæða til þess, að enginn fulltrúi úr sveit legði þessu máli lið. Í sambandi við þetta vil ég spyrja hæstv. ráðh., ef 7. gr. verður samþ., um þennan umferðarprest, hvernig hann hugsar sér í framtíðinni að ráðstafa því litla fé, sem fæst til að byggja prestsbústaði. Ætlar hann sér að láta það ganga fyrst til fjölbýlisins, til þess að byggja yfir nýja presta, sem settir eru upp í kaupstöðum og bæjum landsins, t. d. þennan farandprest, eða ætlar hann sér að uppfylla þá skyldu, sem hann ætti að vera búinn að uppfylla, að byggja á prestssetrum úti á landi, þar sem fjöldi prestsseturshúsa er í eyði og niðurníðslu fyrir það, að ekki hefur verið uppfyllt þessi skylda ríkissjóðs, og það er ástæðan fyrir því, að prestar hafa ekki fengizt í þessi héruð, sem síðan er notað gegn héruðunum sem ástæða fyrir því að fækka þar prestum, af því að enginn prestur getur verið þar fyrir húsnæðisleysi?

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um málið og skal ekki tefja það að neinu leyti með málþófi. Ég tel, að ég hafi gert fulla grein fyrir mínum till., og vænti þess, að mín aðaltill. verði samþ., og tel það heppilegustu afgreiðslu málsins.