17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef löngum vitað, að hv. þm. Vestm. er allra manna lagnastur við að gera mikið úr því litla, eins og góðum búmanni er sæmandi, en sjaldan hefur honum tekizt það betur en í grg. fyrir þessari till. sinni. Ég vil taka það fram, að ég hef ekkert sérstakt á móti því, að brtt. hans verði samþ. En nú kemur til álita, hvar nauðsyn á aukningu sé mest og hvaða óskir eigi að meta mest og hvað eigi fyrst að ná fram að ganga af öllu því, sem gæti orðið til bóta. Ég benti réttilega á, að það er enginn vafi á, að lagadeild háskólans hefur orðið meir útundan við aukningu og fjölgun starfsmanna en nokkur önnur deild við háskólann. Má fara ákaflega mörgum fögrum orðum um það starf, sem fræðimenn við lagadeildina hafa þegar unnið og gætu unnið, ef þeim gæfist færi til þess að sinna sínu starfi og beita sér fyrir þeim miklu umbótum, sem þeir gætu komið á með endurbótum á löggjöf og réttarfari landsins og jafnvel heilbrigðismálum þjóðarinnar. Gæti ég haldið um þetta langa ræðu, ef ég beitti sömu aðferð og hv. þm. Vestm.

Það er vitað mál, að tilgangurinn með þessari till. er aðeins að koma á launabótum fyrir einn kennara við háskólann, mann, sem þegar gegnir vissu starfi, þar sem hann hefur fast starf við röntgendeild landsspítalans, og á honum hvílir nokkur kennsluskylda við háskólann. Hann vill aðeins fá bætt kjör og aukin laun, sem er ósköp mannlegt, og ráðið til þess er, að hann verði prófessor og fái þess vegna nokkur þús. kr. úr ríkissjóði fyrir þetta starf, sem er bæði fallegt og nytsamlegt. Er ekki nema gott eitt um það að segja, en ég get ekki fallizt á, að með þessu sé verið að veita krabbameinssjúkdómnum einhverja göfuga atlögu. Það er nokkuð langt gengið í röksemdafærslu og fjarstæða að telja prófessor í lagadeild lítilsvirði móts við þennan höfuðgrip. Ég met mikils þann mann, sem hlut á að máli, en menn verða að gera sér grein fyrir, að þessi ráðstöfun leiðir til annarra ráðstafana, því að það er ekki hægt að hlaða endalaust undir vissar deildir háskólans, en láta lagadeildina alltaf sitja á hakanum. Ef þetta verður samþ., hlýtur það að ýta undir, að lagadeildin vilji fá sinn hlut bættan, miðað við aðrar deildir háskólans. Það er ekki vegna metnaðar lagadeildarinnar sem slíkrar, en eins og ég sagði áðan, þá verður að vera visst samræmi í þeirri skyldu, sem er lögð á opinbera starfsmenn. En það er ekki forsvaranlegt, að ein deild háskólans verði áfram sett hjá, svo sem verið hefur. Það hafa legið fyrir áskoranir frá forstöðumanni lagadeildarinnar um að bæta úr þessu. Er það einungis fyrir hógværð okkar, sem við deildina höfum starfað, að við höfum ekki tekið þetta mál deildarinnar upp. — Mér þykir leitt, ef ég hef misskilið afstöðu læknadeildarinnar til þessa máls, en ég veit ekki skil á þeim gögnum, sem hér liggja fyrir, en samþykkt háskólaráðs frá 15. okt. 1951 skil ég ekki á annan veg en að það telji mest áríðandi það embætti, sem frsm. leggur til að stofnað verði, og þar næst komi kennari í lyfjafræði, og ef það hefði talið þetta prófessorsembætti í röntgenfræðum jafnáríðandi, hefði það vissulega verið tekið upp í umsögn ráðsins.