17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég hef raunar ekki miklu við að bæta það, sem hæstv. dómsmrh. sagði í þessu máli. Hér fer nokkuð á sömu leið og ég sagði í umr. málsins í hv. d. í gær. Ég ásaka viðkomandi yfirlækni á engan hátt, þó að hann geri ráðstafanir til þess að fá breytt sínu starfi, svo sem hér hefur komið fram. Eins og hæstv. dómsmrh. tók fram, eru þrír yfirlæknar á landsspítalanum. Tveir af þeim eru skipaðir prófessorar við Háskóla Íslands, og einn hefur kennslu þar án þess að vera prófessor. Þessu fylgir nokkur launaviðbót. Þessum yfirlækni finnst hann vera lægra settur en hinir, þar eð hann hefur ekki fengið prófessorsnafnbót og þar með laun, sem henni fylgja. Af þessu hefur svo sprottið sú hvöt hjá honum að ná þessu marki, og í því hefur verið mjög fast róið. Eins og ég tók fram í gær, hef ég ekki talið rétt sem menntmrh. að leggja til, að prófessorsembætti verði stofnað í þessum fræðum að svo stöddu.

Af því að hv. þm. Vestm. lagði mjög mikið upp úr bréfi Krabbameinsfélagsins og taldi það eina meginstoð sínu máli til stuðnings, skal ég taka það fram, að þegar þessir menn komu til mín með sitt bréf, þá komu þeir ekki til þess að tala um aukna kennslu í þessum fræðum. Þeir sögðust vera komnir til þess að mæla með því, að yfirlæknir röntgendeildarinnar yrði gerður að prófessor. Þetta stefnir því allt að sama marki. Það er áróður fyrir því, að þetta embætti verði stofnað. Ég benti þeim á, að ef fyrir þeim vekti að auka fræðslu í þessum greinum, væri hægt að ná því marki eftir öðrum leiðum án þess að stofna slíkt embætti að svo stöddu. Og ég sagði þeim, að þetta væri hvað stj. snerti, a. m. k. á þessu ári, afgreitt mál, að hún mundi ekki leggja til við þingið, að þetta embætti yrði stofnað. Hins vegar skyldi ég gera allt, sem í mínu valdi stæði, sem yfirmaður háskólans, til þess að kennsla yrði aukin í þessum fræðum. Og það er nú til athugunar, eins og ég sagði í gær. Ég vildi gjarnan, að þetta kæmi fram, svo að ljóst verði, að bréf Krabbameinsfélagsins getur ekki verið nein höfuðástæða fyrir stofnun þessa embættis.