07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að því verði ekki mótmælt, að meginskilyrði fyrir sjálfstæði þjóðar, velmegun hennar og þróun er, að efnahagur hennar sé góður og standi traustum fótum, ekki einungis fjárhagur ríkis og sveitarfélaga, heldur einnig og engu síður fjárhagur einstaklinganna. Því sterkari sem þegnarnir eru fjárhagslega séð og borgararnir, því betri verður afkoma ríkissjóðs og bæjarsjóða og því minni byrðar leggjast á herðar þegnanna.

Um aldaraðir hefur íslenzka þjóðin verið fátæk þjóð, og það er ekki fyrr en á fyrri helmingi þessarar aldar, að fer að breyta til batnaðar. Fram að seinustu aldamótum bjó þjóðin við harðan kost, og ástandið var orðið svo slæmt, að hópar manna sáu engin úrræði til bjargar sér og sínum önnur en þau að flýja til annars lands úr fátæktinni og umkomuleysinu í von um betra líf. Aðrir menn, sem urðu hér eftir og þóttust sjá leiðir út úr ógöngunum og trúðu á möguleika og gæði lands síns, tóku upp harða baráttu, og með þeirri kynslóð hefst þróun með þeim árangri, að engin þjóð býr við jafnari og betri kjör en Íslendingar, a. m. k. á meðal Evrópuþjóða. Barátta þjóðarinnar nú verður því sú að leitast við að halda þeim lífskjörum, sem þjóðin hefur náð, og gera þau enn betri, ef unnt reynist.

Íslendingar hafa á undanförnum árum byggt upp varanleg verðmæti í sambandi við atvinnuhætti sína, bæði til lands og sjávar. Íbúðarhús þeirrar kynslóðar, sem nú lifir, eru slík sem ekki þekktist fyrir aldarfjórðungi. Með hverjum sigri, sem náðst hefur, hafa ný óleyst verkefni kallað að, nýjar framkvæmdir orðið aðkallandi. Eins og nú háttar, er allt of lítið fjármagn fyrir hendi til þess að mæta nýjum verkefnum og endurnýja framleiðslutækin eftir þörf, er þau ganga úr sér. Brýna þörf ber því til þess, að hér sé úr bætt, og með tilliti til þess hef ég borið hér fram þetta frv., um Fyrningarsjóð Íslands, sem prentað er á þskj. 164. Megintilgangur þessa frv. er að fyrirbyggja það, að kyrrstaða komist í atvinnulíf landsmanna, og tryggja uppbyggingu mannvirkja með því að lögbjóða, að fyrningargjöld af fasteignum og skipum verði greidd í sérstakan sjóð, en ekki notuð sem eyðslufé. Þjóðinni er nú mikil nauðsyn að tryggja endurnýjun í framtíðinni á húsum, orkuverum, verksmiðjum og skipastóli sínum. Á árunum 1918–20 var tekið stórt spor í uppbyggingu togaraflotans, en eftir 1920 kemst stöðvun í þá starfsemi. Tvö skip bætast í hópinn árið 1925 og 2 skip 1930, en síðan eru engir nýir togarar keyptir til landsins fyrr en árið 1945, að ríkisstj. lætur smíða 30 nýja togara í Bretlandi. Þetta leiddi til þess, að á árunum 1930–45 urðu Íslendingar að keppa við aðrar þjóðir hvað fiskveiðar snertir á lakari og smærri skipum en keppinautar þeirra höfðu. Ástandið var orðið svo alvarlegt árið 1939, að stór raun var orðin að, og íslenzkir fiskimenn voru, margir hverjir, orðnir lítt fáanlegir til þess að starfa við slíkan aðbúnað og leituðu færis til þess að ráða sig á betri skip erlendis og hverfa af landi burt. Á þessum árum hvarflaði fyrst að mér að ellitryggja fiskiskip, svo að auðvelda mætti að endurnýja skipin jafnóðum og þau gengju úr sér. Það mál var athugað þá, og niðurstaðan varð sú, að miðað við 3% greiðslu af andvirði skips mundi hafa safnazt nægilegt fé til endurnýjunar þess, er skipið væri útslitið. Það varð þó ekkert úr þessu á þeim árum. Af öðrum leiðum, sem farnar hafa verið í því augnamiði að endurnýja flotann, má nefna, að einn hluti tekna flotans hefur verið skattfrjáls og síðan lagður í sérstakan sjóð. Í þeim sjóði voru um 30 millj. á árunum 1940–45, og var nokkur hluti þess fjár tekinn til endurnýjunar flotans á árunum 1945–47, þegar hinir 32 nýsköpunartogarar voru keyptir, en svo hefur hann verið notaður til þess að greiða töp og skuldir útgerðarfyrirtækja. Það var mikill skaði, að ekki skyldi vera búið svo um hnútana, að féð væri ekki notað til slíks, og sú kvöð sett á eigendur skipa, sem ætlazt er til með þessu frv., ef að lögum verður. Með því móti verður það fé ekki tekið úr athafnalífinu, en haldið þar til þess að þjóna því einu, þar sem peningarnir koma frá, og verður lánað til fasteigna og skipa, ef eigendur nota ekki féð til þessara framkvæmda. En það gerir einnig annað, og það er, að með þessu væru sett lög, þar sem skyldusparnaður væri lögboðinn á þessu fé, ef frv. væri samþ. Það hafa komið fram sterkar raddir um það í þinginu, m. a. í d., að nauðsyn væri að koma á skyldusparnaði. Þetta væri þá ein leiðin að ná því takmarki. Ég hef heyrt því borið við gegn þessari nýjung, að skipaeigendur mundu ekki vilja fallast á þetta fyrirkomulag. En það er ósennilegt, að sú mótstaða verði mikil. Ég vil aðeins benda á, að það hefur verið farið inn á þessa leið áður með setningu l. nr. 78 5. júni 1947, um fyrningarsjóð ríkisins, þar sem farið er fram á, að afskriftir af fasteignum ríkissjóðs séu settar í sérstakan sjóð, er skyldi notaður til að tryggja endurbyggingu eignanna.

Í 1. gr. frv. er ætlazt til, að stofnaður sé Fyrningarsjóður Íslands. Hlutverk hans er að lána fé til þess að auka fasteignir og skipastól landsmanna samkvæmt fyrirmælum þessa frv., ef að lögum verður. Það er ljóst eftir umr. á Alþ. í sambandi við lánsfjárþörfina til húsbygginga bæði í sveitum og kaupstöðum, að ákaflega mikil þörf er á, að einhver stofnun sé til, er sinni þessu hlutverki. Í sveitum er ætlazt til að Búnaðarbankinn geri þetta, en hann vantar nú tugi milljóna til að geta veitt nauðsynleg lán. Enn fremur er ætlazt til, að veðdeild Landsbankans veiti slík lán, en veðdeildin hefur aldrei getað svarað þessu hlutverki og eftirspurn eftir bréfum deildarinnar jafnan verið slík, að bréf hennar hafa verið seld fyrir niðursett verð. Ef þessi fyrningarsjóður er stofnaður, er hann styrktur til að inna þetta verkefni af hendi.

2. gr. ákveður tekjur sjóðsins, en þær eru í fyrsta lagi fyrningargjöld samkv. 4.–8. gr. frv., í öðru lagi vextir af útlánum og innstæðum í bönkum og í þriðja lagi aðrar tekjur, er sjóðnum kunna að hlotnast.

Í 3. gr. segir, að sjóðurinn skuli starfa í 9 deildum. Fyrsta deild, eða A-deild. er landbúnaðardeild. Til hennar skal greiða öll fyrningargjöld úr sveitum af jörðum, húsum og mannvirkjum, sem á þeim standa, hverju nafni sem nefnast, eftir þeim reglum, sem ákveðnar eru í frv. Úr þessari deild má svo lána til ræktunar, bygginga og annarra mannvirkja í sveitum. Fyrningarsjóður deildarinnar má aldrei lána til neinnar annarrar starfsemi en aukningar og endurbyggingar hliðstæðrar starfsemi og hann er runninn frá. Þetta tryggir, að áframhaldandi þróun verði í byggingar- og ræktunarmálefnum sveitanna og fé verði ekki flutt úr atvinnuveginum. — Þá er ákvæði um, að Búnaðarbankinn stjórni deildinni og annist daglegan rekstur hennar og beri ábyrgð á fé hennar gagnvart eigendum.

Þá er B-deild, þ. e. sjávarútvegsdeild. Tekjur hennar eru fyrningargjöld af skipum. Úr þessari deild skal lána fé til smíði nýrra skipa. Svo mundi og heimilt að lána úr henni til kaupa á nýjum skipum, en ekki má lána úr henni til kaupa á gömlum skipum, þar sem hlutverk hennar er aðeins að lána til endurbyggingar flotans. Ætlazt er til, að fé það, sem greitt er í sjóðinn frá fiskiflotanum, skuli lánað fiskiflotanum og fé það, er kemur frá flutningaflotanum, sé lánað til hans aftur. Er nauðsynlegt að hafa þessa aðgreiningu til að halda jafnvægi milli fiskiflotans og flutningaflotans. — Útvegsbankinn stjórnar B-deildinni, annast daglegan rekstur hennar og reikningshald og ber ábyrgð á öllu fé hennar gagnvart eigendum. Þó er honum heimilt að fela Fiskveiðasjóði Íslands útlánastarfsemi á fé því, sem er greitt inn frá eigendum fiskiskipa.

C-deild er iðnaðar- og verzlunardeild. Til hennar skal greiða öll fyrningargjöld af verksmiðjum, orkuverum og öðrum mannvirkjum í samræmi við það, er segir í frv. Úr fyrningarsjóði deildarinnar skal lána, þegar fé er fyrir hendi, til byggingar nýrra verksmiðja, orkuvera eða annarra hliðstæðra fasteigna og þeirra, sem fyrningargjald er greitt af til deildarinnar. Það er ætlazt til, að iðnlánasjóður og síðar iðnaðarbanki, ef hann verður stofnaður, stjórni þessari deild og sjái um daglegan rekstur hennar og reikningshald og beri ábyrgð á fé hennar gagnvart eigendum.

Næsta deild er íbúða- og verzlunarhúsadeild. Tekjur hennar eru fyrningargjöld af íbúðar- og verzlunarhúsum ásamt lóðum, sem þeim tilheyra. Úr þessari deild má lána til að byggja ný íbúðar- og verzlunarhús, og má ekki lána fé deildarinnar til annarrar starfrækslu. Landsbankinn stjórnar deildinni og ber ábyrgð á fé hennar gagnvart eigendum, en er þó heimilt að fela veðdeild bankans þessa lánastarfsemi.

Næsta deild er fasteignadeild bæjar- og sveitarfélaga. Til hennar á að greiða öll fyrningargjöld af fasteignum bæjar- og sveitarfélaga. Úr fyrningarsjóði deildarinnar skal lána fé, þegar það er fyrir hendi, til þess að koma upp nýjum fasteignum fyrir bæjar- og sveitarfélög og eigi til annarrar starfrækslu. Landsbankinn stjórnar þessari deild, annast daglegan rekstur hennar og reikningshald og ber ábyrgð á fé hennar gagnvart eigendum. Heimilt er honum þó að fela sparisjóðum í bæjar- og sveitarfélögum þessa útlánastarfsemi. Eðlilegt er, að þetta ákvæði sé sett í lög, vegna þess að í Reykjavík og ýmsum stærri bæjum er tilfinnanleg þörf fyrir slíkar nýbyggingar og endurbyggingar, og er þessu ákvæði ætlað að bæta úr því.

Þá er F-deild. Það er skipadeild bæjar- og sveitarfélaga. Til hennar greiðast öll fyrningargjöld af skipum í eigu bæjar- og sveitarfélaga. Úr fyrningarsjóði deildarinnar skal lána fé til smíði nýrra skipa eingöngu, og skulu bæjar- og sveitarfélög sitja fyrir slíkum lánum, ef þau æskja þess. Fyrningargjöld af fiskiskipum má ekki lána til smíði flutningaskipa né gagnkvæmt. — Það er svo til ætlazt, að Landsbanki Íslands stjórni þessari deild og annist rekstur hennar allan og beri ábyrgð á öllu fé hennar gagnvart eigendum. Heimilt skal þó Landsbankanum að fela sparisjóðum í bæjar- og sveitarfélögum að annast þessa lánastarfsemi.

Næst er fasteignadeild félagsheilda. Til hennar skal greiða öll fyrningargjöld af fasteignum félaga, sem ekki eru skattskyld, eins og þau eru ákveðin í lögum þessum. Úr fyrningarsjóði deildarinnar skal lána fé, þegar fyrir hendi er, til að koma upp hliðstæðum fasteignum og fyrningargjöldin eru runnin frá, og má ekki lána fé deildarinnar til annarrar starfrækslu. — Landsbanki Íslands stjórnar fasteignadeild félagsheilda, annast daglegan rekstur hennar og ber ábyrgð á fé hennar gagnvart eigendum.

Næst er fasteignadeild ríkissjóðs. Til hennar renna öll fyrningargjöld af fasteignum ríkissjóðs. Fé deildarinnar má aðeins verja til þess að auka og koma upp nýjum fasteignum, er ríkissjóður sé eigandi að. Má ekki nota féð til fasteignakaupa eða viðhalds fasteignum ríkissjóðs. Skal gæta þess, eftir því sem við verður komið, að fénu sé varið til aukningar á hliðstæðum mannvirkjum og þeim, sem fyrningargjöldin eru runnin frá. Eins og ég gat um í upphafi, er svo til ætlazt í l. nr. 78 5. júní 1947, um fyrningarsjóð ríkisins, að hann liggi í vörzlum fjmrn., en hér eftir er ætlazt til, að hann liggi í vörzlu fasteignadeildar ríkissjóðs.

Þá er síðasta deildin. Það er skipadeild ríkissjóðs, en til hennar skal greiða fyrningargjöld af öllum skipum ríkissjóðs, eins og þau eru ákveðin í lögum þessum. Fé úr skipadeild má aðeins verja til endurnýjunar skipastól ríkisins, og skal þess jafnan gætt, að fénu sé varið til endurnýjunar á þeim flokkum skipa, sem hliðstæðir eru þeim skipum, sem gjaldið er greitt af. Landsbanki Íslands stjórnar skipadeild ríkissjóðs. Hann annast daglegan rekstur hennar og reikningshald og ber ábyrgð á öllu fé deildarinnar gagnvart ríkissjóði. Ég skal geta þess, að þrátt fyrir það að ríkissjóður greiðir í sérstakan sjóð fyrningargjald af fasteignum sínum, þá greiðir hann ekki fyrningargjöld af skipum, og er því hér um nýmæli að ræða.

Í 4. gr. er ákveðið, hvað eigendur fasteigna, sem flokkaðar eru undir A-, C- og D-liði 3. gr., skuli greiða árlega í fyrningarsjóði viðkomandi deilda, en það eru þær upphæðir, sem leyfðar eru sem fyrningarfrádráttur á rekstrar- og efnahagsreikningum og dregnar eru frá sköttum á skattaframtali, þó aldrei yfir 2% af því verði eignanna, sem fyrningarhundraðshlutinn er miðaður við. Eins og þetta er nú, er þessi frádráttur leyfður á rekstrarreikningi, en er haldið í fyrirtækinu sjálfu og er því í framkvæmdinni aðeins bókfærsluatriði, án þess að tryggt sé, að ekki sé hægt að eyða fénu, en með þessu er fyrirbyggt, að því verði eytt.

Í 5. gr. segir, að eigendur skipa, sem eru 6 smálestir (ekki þótti rétt að miða við smærri skip) og stærri, hverju nafni sem nefnast, og flokkuð eru undir B-lið 3. gr. þessara laga, skuli greiða árlega í fyrningarsjóð viðkomandi deildar þær upphæðir, sem leyfðar eru sem fyrningarfrádráttur á rekstrar- og efnahagsreikningum og dregnar eru frá sköttum á skattaframtali, þó aldrei yfir 3% af því verði skipanna, sem fyrningarhundraðshlutinn er miðaður við. Skipafélög, er njóta skattfrelsis samkv. sérstökum lögum, skulu greiða þetta sama gjald, og kemur það til greina t. d. með Eimskipafélag Íslands. Nú er það svo, að fyrningargjöld eru víða hærri en hér segir, eða 5–25%, af hinum nýju skipum. En að sjálfsögðu þótti ekki tiltækilegt að miða við svo háar afskriftir, heldur að miða við það, að hægt verði að endurnýja þann flota, sem til er í landinu, þannig að fyrningargjöldin ásamt vöxtum nemi andvirði skipanna, er þau hafa náð meðalaldri skipa hér á landi, sem mun vera um 25 ár.

6. gr. Bæjar- og sveitarfélög greiða árlega í fyrningarsjóð viðkomandi deildar þær upphæðir, sem reiknaðar voru af fasteignum þeirra samkv. 4. gr., ef þær væru í eigu einstaklinga. Og sama gildir tilsvarandi um skip, ef til eru í eigu bæjar- eða sveitarfélaga. — Á sama hátt og í 6. gr. segir skulu félagsheildir samkv. 7. gr. greiða fyrningargjöld af fasteignum og skipum, ef til eru, og í 8. gr. segir, að ríkissjóður greiði þessi gjöld með sama móti.

Í 9. gr. eru ákvæði um, að fé það, sem greitt sé í fyrningarsjóð samkv. lögum þessum, skuli skráð á nafn þess, er hefur greitt það, og er það hans eign. En þó má ekki greiða honum það úr sjóðnum, nema full trygging sé fyrir því, að fénu verði varið til endurnýjunar þeirra mannvirkja, sem lög þessi mæla fyrir um. Hins vegar má eigandi selja eða veðsetja innstæðu sína, og taka má hana lögtaki til tryggingar á vangreiddum skuldum. En hinn nýi eigandi tekur þá á sig sömu skuldbindingar og skyldur, að hann má ekki nota féð til annars en ákveðið er í þessum lögum. Þegar inngreiðsla er skráð á nafn aðila, skal þess jafnframt getið, af hvaða fasteign eða skipi gjaldið er greitt, svo að eigi verði um villzt, hvaða deild það tilheyri. — Þá er loks svo til ætlazt, að vextir af innstæðum leggist jafnan við höfuðstólinn og gildi sömu reglur um vextina og sjálfan höfuðstólinn.

Í 10. gr. eru síðan ákvæði um, að ef eigandi vill fá inneign sína greidda, skuli hann tilkynna stjórn sjóðsins það með 12 mánaða fyrirvara. Ég hef sett þetta ákvæði vegna þess, að skylt er að lána féð út, og er fyrirvarinn nauðsynlegur vegna þessara útlána, enda er það svo, að venjulega þarf alllangan undirbúningstíma frá því að ákveðið er að nota féð þangað til þarf að borga það út, hvort sem um er að ræða byggingu fasteigna eða skipa, og ætti því ákvæðið ekki að koma að sök. Að þeim tíma liðnum leggur hann fram skilríki um, að nota eigi féð á réttan hátt, og er það þá greitt út til eiganda. Hafi féð verið greitt út til eiganda og sannazt síðar, að hann hafi notað það á annan hátt en að framan greinir, skal skylt að endurgreiða það sjóðnum með 10% álagi auk venjulegra vaxta til greiðsludags. Þessi 10% eru þá sekt fyrir að hafa misnotað féð.

Í 11. gr. segir, að ef ekki sé nægilegt fé í sjóðnum, þegar greiða skal eiganda innstæðu, vegna þess að það sé þá bundið í útlánum, þá skuli stofnun sú, er stjórnar viðkomandi deild, skyldug að lána sjóðnum upphæðina, þar til nægar inngreiðslur séu í sjóðnum til að endurgreiða hana. Má segja, að hér sé verið að leggja sérstakar skyldur á bankann, en ég álít, að ekki sé um að ræða svo þungar skyldur, að saki, þar sem fyrir fram er vitað, að hér er um töluvert mikið fé að ræða í sjóðnum og aðeins um bráðabirgðalán að ræða.

Í 12. gr. er ákvæði um, að ef ekki finnst löglegur eigandi að innstæðu í sjóðnum, skuli lýsa eftir honum í Lögbirtingablaðinu þrisvar sinnum og hafi hann ekki gefið sig fram innan 4 mánaða frá síðustu birtingu, falli féð til þeirrar deildar, er varðveitir það. Er gert ráð fyrir þessu í 2. gr., 3. tl.: „aðrar tekjur, er sjóðnum kunna að hlotnast “

13. gr. er um skattfrelsi fyrningargjalda og sjóðsins sjálfs og starfsemi hans.

14. gr. ákveður yfirstjórn sjóðsins, og er hún skipuð 3 mönnum, kosnum af Alþ. hlutbundinni kosningu til 4 ára og einn þeirra skipaður formaður af bankamálaráðherra. Stjórn sjóðsins skal hafa yfirumsjón með starfsemi sjóðsins og gæta þess, að fyrirmælum þessara laga sé framfylgt í hvívetna. Ráðh. ákveður þóknun til sjóðsstjórnar. Ég álít, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt, þótt bankinn sjái um daglegan rekstur og reikningshald og beri ábyrgð á fé gagnvart eigendum.

15. gr. segir, að stjórn sjóðsins ákveði í samráði við stofnanir þær, er annast rekstur sjóðsins, vaxtaupphæðir, lánstíma og tryggingu fyrir lánum.

Í 16. gr. er ætlazt til, að gjalddagi fyrningargjalda sé sami og gjalddagi ríkisskatta. Skulu gjöldin innheimt af sömu aðilum og á sama hátt og ríkisskattar og skilað jafnóðum til sjóðsins. Kostnað við innheimtu skal greiða úr ríkissjóði. Ég tel, að ekki sé lögð of þung byrði á ríkissjóð með þessu ákvæði og ríkissjóður hljóti, ef þetta nær fram að ganga, svo mikinn hag, beinan og óbeinan, að eðlilegt sé, að hann annist kostnað við innheimtuna. — Í 17. gr. er ákveðið, að ráðh. setji sjóðnum reglugerð um öll þau atriði, sem snerta starfrækslu hans samkv. þessum lögum.

Um 18. gr. vildi ég biðja hv. þm. d. að athuga að hér hafa verið lög um þetta efni, sem hér er ætlazt til að falli úr gildi, en það eru l. nr. 59 7. maí 1946, um sérstakar fyrningarafskriftir, svo og l. nr. 15 1949 og l. nr. 103 1950, um breytingar á þeim lögum. Þessar tilvitnanir í 18. gr. eru rangar og þarna á að standa: lög nr. 78 frá 5. júní 1947, um fyrningarsjóð ríkisins, því að það eru l., sem eiga að falla úr gildi við gildistöku þessara laga, ef frv. verður samþ. Þetta eru mistök, sem eru til athugunar fyrir þá n., sem fær þetta til meðferðar. En verði þetta frv. samþ., er nauðsynlegt að fella úr gildi lög nr. 78 frá 1947.

Ég hef þá gert grein fyrir þessu máli. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vildi vænta þess, að hv. form. þeirrar n. hraðaði afgreiðslu þessa máls svo, að það mætti ná fram að ganga, ef mögulegt er, á þessu þingi, því að ég er þess alveg fullviss, að hér er um að ræða atriði, sem gæti verið sterkasti og traustasti hyrningarsteinninn undir framtíð landsins í sambandi við mörg þau mál, sem nú er talið að þurfi aðstoðar við, og sérstaklega í sambandi við byggingu húsa, bæði í sveitum og kaupstöðum, og í sambandi við aukningu skipastólsins. En eins og við vitum, byggist bókstaflega afkoma þjóðarinnar á því, að þessi tvö meginatriði séu ekki vanrækt.