31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég held, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að nær væri að reyna að finna á því einhverja lausn heldur en að hafa það í gamanmálum eða skattyrðast um það eins og hv. 1. þm. N-M. En það er nú gott, að þm. hér í sameinuðu þingi fái að hafa gaman af honum einstaka sinnum eins og við, sem í Ed. sitjum, þó að þetta mál sé ekki til gamanmála fallið, og ekki heldur tel ég, að það sé til þess að skattyrðast um það, eins og hv. 6. landsk. virðist hafa tilhneigingu til, sem sýnir, að honum er annað í huga en að finna lausn þessa máls eða bæta úr brýnum vanda. Ég vil þá snúa mér nokkuð að ræðu hans.

Hann vildi nú skipta sól og regni, ef svo má segja, og skipta því niður, hver ætti sök á einstökum gerðum stjórnar Stefáns Jóhanns, og taldi það sök þáverandi fjmrh., Jóhanns Jósefssonar, að það hefði verið orðið við kröfu hans um að fresta III. kafla laganna um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Ef Stefáni Jóhanni hefði verið þetta óljúft, hefði hann ekki orðið við þeirri kröfu, og sannleikurinn er sá, að stjórnin var öll sammála um þetta. Það var komið í ljós, að þetta var óframkvæmanlegt og þáverandi stjórn hefði reist sér hurðarás um öxl með samþykkt á byggingu þessara íbúða, og þess vegna var hún öll sammála um að fresta þessum kafla. Sannleikurinn er sá, að það er engin nýjung, að þessi lög þóttu ekki hyggileg. Það var bent á það strax á þinginu 1946, að þau mundu vera óframkvæmanleg.

Frv., sem síðar varð að lögum, var flutt á grundvelli till., sem ég og fleiri gerðum, og undirbjó þáverandi félmrh., Finnur Jónsson, frv. Ég benti á það í Ed., að þarna væri um ofrausn að ræða, og benti á, að þarna var um ótæmandi skuldbindingu að ræða samkv. þessum lögum. Þessi ræða er prentuð í B-deild Alþt. 1945, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ef þm., eftir að þeim hefur verið bent á þetta og ríkisstj. hefur verið bent á óheppilegar afleiðingar af frv., engu að síður halda fast í þessi ákvæði og vilja ekki fallast á sanngjarna og hófsama leiðréttingu, þá ganga þeir aðilar þar með opin augu í þá ófæru, sem á er bent, og það verður þá á þeirra ábyrgð.“ Þarna benti ég á, að það væri ofrausn að taka á sig 85% skuldbindingu af þeim byggingum, sem sveitarfélög kynnu að ráðast í, ríkisstj. gæti ekki staðið undir því. Menn vildu ekki hlusta á þetta þá, en einu og hálfu ári seinna sáu menn, að þetta var óframkvæmanlegt. Og það var ekki að kröfu fjmrh., að þetta var fellt niður, heldur sáu allir, að þetta var ekki hægt, og meiri hluti Alþingis var því samþykkur. Og ég held, að eftirmaður minn í borgarstjóraembættinu hafi verið mótfallinn niðurfellingu þessara ákvæða, ekki af því, að hann hafi ekki séð, að þetta var óframkvæmanlegt, heldur af hinu, að hann horfði fast í hag síns bæjarfélags. En allir hlutu hins vegar að sjá, að þetta var ómögulegt í framkvæmd.

Ég tel enn, að þó að lögin frá 1946 hafi verið af góðum hug sett, þá hafi ákvæði Finns Jónssonar verið of bjartsýn, og ég tel, að þeir þm., sem töldu vel hægt að fella þessi ákvæði úr gildi, þegar þeir áttu sjálfir hlut að stjórn landsins, ættu ekki að ætlast til meira nú.

Það var þessi leiðrétting, sem ég vildi koma fram með út af orðum hv. 6. landsk. þm. Menn verða að gera sér grein fyrir, hvað er framkvæmanlegt og hvað ekki.

Þá kom það mér undarlega fyrir sjónir, að hv. 6. landsk. þm. skyldi fara að minnast á Reykjavík, því þó að Alþfl. eigi allar þakkir skilið fyrir áhuga sinn og framgang um byggingu verkamannabústaða og setningu löggjafar um það, þá hefur þó bærinn og bæjarstjórnin borið þar langt af. (HV: Er þetta nú rétt?) Þess er skemmst að minnast, að þar sem hv. 6. landsk. þm. er voldugastur, á Ísafirði, þar hófst hann ekki handa um framkvæmdir til byggingar á verkamannabústöðum fyrr en að ég hygg nær áratug eftir að sjálfstæðismenn voru búnir að leggja fram fé til byggingar verkamannabústaða hér í bænum. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar vanrækti, — ég vil ekki nota það ljóta orð, þó að hv. 6. landsk. þm. noti það, að hún hafi svikizt um það, — en hún vanrækti að greiða úr bæjarsjóði lögskilið tillag til byggingarsjóðs verkamanna á staðnum, þannig að ekkert var aðhafzt í þessu, fyrr en bæjarstjórnin á Ísafirði var orðin sér til landsþekktrar skammar fyrir aðgerðaleysið. Og sérstaklega fyrir einar kosningar voru birtar myndir af þeim verkamannabústöðum, sem reistir höfðu verið hér fyrir forgöngu og atbeina Sjálfstfl., og hins vegar líka myndaðar urðirnar á Ísafirði, þar sem sást aðgerðaleysi kratanna á Ísafirði. Það var fyrst þegar Alþfl. skammaðist sín fyrir þá frammistöðu, að þeir hófust handa, til þess að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem þeir í orði kveðnu töldu hafa verið fyrir hendi á Ísafirði. — Þessa sögu mætti rekja lengri, en ég ætla ekki að gera það. En hv. 6. landsk. þm. ætti ekki að tala hér með rembingi um, að sjálfstæðismenn vilji sýnast í þessum málum, vegna þess að þeir hafa þar haft alla forustu um allar framkvæmdir.