28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3169)

81. mál, heildarendurskoðun á skattalögum o.fl.

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er að vísu nokkuð naumur fundartími nú, en langt er síðan till. kom fram, og ég vil ekki verða til þess að tefja fyrir, að hún komist sem allra fyrst til n. Skal ég því reyna að gera grein fyrir henni í eins stuttu máli og mér er unnt. En þó verð ég að segja, að hún gefur tilefni til þess, að nokkur frekari rökstuðningur sé látinn fylgja en í grg.

Því er nú haldið fram af sumum, að till. svipaðar þeim, sem eru hér á ferð um heildarendurskoðun vissra þátta þessarar löggjafar, geti orðið til að tefja umbætur á einstökum sviðum löggjafarinnar og stundum jafnvel til að drepa málinu á dreif. Og ég vil ekki neita, að stundum stendur svo á, að slík staðhæfing getur verið rétt. En slík skoðun væri röng í sambandi við þessa till. um að endurskoðun skattalöggjöfina, sem við hv. þm. Ak. höfum leyft okkur að flytja. Það er orðin brýn og augljós nauðsyn þess að taka þessi mál fyrir í heild, eins og till. gerir ráð fyrir, þannig að við getum lögfest hjá okkur heilsteypt skattakerfi, m. ö. o. að taka ekki aðeins vissar greinar beinna skatta til ríkisins, heldur til bæjarfélaga einnig og fella þessi mál í heilsteypt og samræmt form.

Mér finnst einkum vera fjögur atriði, sem telja má öðrum fremur til rökstuðnings því, að slík till.samþ. eða að sú heildarendurskoðun. sem hún gerir ráð fyrir, verði hið bráðasta látin fara fram. Ég nefni sem fyrsta atriði, að skattstigar þeir, sem við höfum búið við, hafa yfirleitt verið óbreyttir síðustu áratugina, þegar þó mestar breytingar hafa átt sér stað í efnahagslífinu og verðlag og peningagildi hafa verið eins og kvikasilfurskúla. Annað atriði er það, að á árinu 1947 stofnaði þáverandi fjmrh. til endurskoðunar á skattalöggjöfinni, og var mönnum þá þegar orðin mjög ljós nauðsyn þess, að endurskoðun færi fram á þessu sviði. Var þá skipuð mþn., sem starfaði um nokkuð langt skeið að þessum málum og skilaði allýtarlegu nál., sem aðallega fól í sér endurskoðun tekju- og eignarskattslaganna. Hins vegar kom þetta nál. ekki fram í dagsljósið, og mér skilst, að það hafi stafað að nokkru leyti af því, að allverulegur ágreiningur reis á fleiri sviðum þessara mála. En þetta sýnir, að menn hafa þá þegar haft opin augu fyrir því, að nauðsynlegt væri að endurskoða skattalöggjöfina. Í þriðja lagi má svo benda á þann þátt þessara mála, sem meir hefur komið í dagsljósið upp á síðkastið og ekki sízt á þessu ári. Það er fjárþörf sveitarfélaganna, sem nú eiga mjög erfitt uppdráttar, ekki sízt vegna þess, hve ríkisvaldið á undanförnum árum hefur gengið langt í því að taka sína tekjustofna, þannig að sveitarfélögin hafa raunverulega ekki haft neitt til sinna þarfa nema útsvörin. Þau eru ekki nægileg, og innheimta þeirra þeim mun lakari sem ríkið gengur lengra í sinni skattheimtu á öllum sviðum. Fjórða atriðið vil ég svo minna á, sem sýnir þörfina fyrir heildarendurskoðun þessara mála, og það er allur sá fjöldi tillagna, sem fram hefur komið á Alþ. um breyt. á einstökum þáttum skattalöggjafarinnar, og margvíslegar aðrar till., sem samþ. hafa verið af félögum og félagasamtökum í þjóðfélaginu um breyt. á einstökum greinum skattalaganna.

Ef vikið er nánar að þeim þætti, sem ég talaði fyrst um til rökstuðnings því að endurskoða skattalöggjöfina, þá er mjög áberandi, hversu skattahækkun hefur orðið mikil hér á landi eingöngu við það, að ekki er samræmi milli skattstigans og verðbreytinga í þjóðfélaginu. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á nokkrum dæmum þessu til sönnunar. Þessi mál hafa að undanförnu m. a. verið rædd í einu af stærstu stjórnmálafélögum landsins, 1andsmálafélaginu Verði í Reykjavík. Samkv. athugun þeirra manna, sem eru mjög vel kunnugir og starfa á skattstofunni, hefur það komið í ljós, að vegna þess að tekjur eru ekki umreiknaðar nema að mjög litlu leyti hjá einstaklingum og alls ekki hjá félögum, þá hafa skattar hækkað mjög mikið á sambærilegum tekjum miðað við 1941. Þeir hafa hækkað stórlega á einstaklingum, en enn meir hjá félögum.

Í þessu sambandi hefur verið bent á það, að sá einstaklingur, sem hafði árið 1941 31 þús. og 400 kr. í tekjur, ætti miðað við núverandi vísitölu og verðbólgu að hafa 75 þús. kr. Árið 1941 greiddi hann 9% af þessum tekjum, en 1951 um 15%. Er þá verðbreyting peninganna sízt ofreiknuð. Einstaklingur, sem árið 1941 hafði kr. 64100, ætti í samræmi við það að hafa 150 þús. kr. nú. Skattur á slíkar tekjur hefur hækkað úr 16,6% árið 1941 og upp í 33,7% árið 1950, eða meir en um 100%. En í fyrra dæminu hækkaði skatturinn um meira en 60%. Þessi mismunur er enn meir áberandi á félögum, sem ekki njóta neins umreiknings á tekjum. Séu teknar nokkru lægri tekjur en 31400 kr. fyrir árið 1941, var skatturinn 12.8%, en af sambærilegum tekjum er hann 1951 29%. Hækkun á skatti á lægstu skattskyldar tekjur hjá félögum hefur á þessu tímabili orðið um 125%. Ég skal láta þessi dæmi nægja til þess að vekja athygli á því, hvað skattahækkunin hefur orðið mikil af þessari ástæðu einni, að skattstiginn hefur ekki að neinu leyti verið færður til samræmis eða hlutfalls við þær miklu verðbreyt., sem orðið hafa á peningunum. En hækkunin af þessari ástæðu einni hefur orðið enn tilfinnanlegri vegna þess, að á þessum síðasta ánatug hafa verið lagðir á margir þungir, nýir skattar, eins og t. d. eignaraukaskatturinn á sínum tíma, sem ummyndaðist í stóreignaskatt. Sannast að segja gegnir það furðu, þar sem framkvæmd var mjög gagngerð athugun við eignakönnunina árið 1947, að ekki skuli hafa verið tekið fyrir að færa skattstigann í samræmi við þær miklu verðbreytingar, sem orðið höfðu, því að eignakönnunin átti rót sína að rekja til þeirrar gerbyltingar, sem varð í efnahagslífi þjóðarinnar.

Ég skal þá koma að öðru atriði málsins. Ég minntist á mþn., sem var skipuð í skattamálum árið 1947. Margt af því, sem kom fram um nauðsyn á endurskoðun skattalaganna, er í fullu gildi enn. Vil ég vekja athygli á, að þáverandi hæstv. fjmrh. tók það fram, að hann óskaði eftir, að nefndin athugaði sérstaklega sameiningu tekjuskattsins, tekjuskattsviðaukans og stríðsgróðaskattsins, en ekkert hefur orðið úr því enn. Það er óeðlilegt að hafa allar þessar tegundir skatta, ekki sízt tekjuskattsviðaukann og stríðsgróðaskattinn, sem ætti að vera orðinn úreltur. Mörg önnur atriði þarf að taka til athugunar og samræma, svo sem ýmis sérákvæði, skattgreiðslu samvinnufélaga, skattgreiðslu útlendinga, lögfestingu útsvarsstigans og svo um innheimtu og þá sérstaklega, að tekjuskattur og aðrir beinir skattar væru innheimtir um leið og tekna væri aflað. Ég nefni þessi atriði, sem n. var af fjmrh. sérstaklega bent á að athuga árið 1947, en þess er sannarlega ekki síður þörf nú árið 1951. Það liggur fyrir endurskoðun á þessu af milliþinganefnd, sem var skipuð 1947, og mundi hún að sjálfsögðu greiða fyrir þeirri endurskoðun skattalaganna, sem nú yrði framkvæmd.

Þá er þriðja atriðið, sem gerir það að verkum, að þess er enn meir þörf en áður að endurskoða skattalögin. Fundur bæjarstjóra, sem haldinn var hér í höfuðstaðnum, vakti athygli manna á því, hversu mjög er teflt á tæpasta vaðið hjá sveitar- og bæjarfélögum um að koma saman endum á fjárhagsáætlunum sínum. Hefur meðal annars orðið sá árangur af bæjarstjórafundinum, að fluttar eru í þinginu nú till. af þessum fundi í hv. Ed., er hníga að því, að bæirnir fái um helming söluskattsins. Mér þykir líklegt, að það geti orðið erfið glíma fyrir Alþingi að mæta þeim óskum, sem uppi eru af hálfu bæjar- og sveitarstjórna í þessu efni, en þær óskir eru settar fram af brýnni nauðsyn. Svo hafa mönnum dottið í hug aðrar leiðir til þess að mæta þessum þörfum bæjar- og sveitarfélaganna og láta þau fá aðra tekjustofna. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem fást við stjórn bæjar- og sveitarfélaga, vita, að það er ekki öruggt að leysa málið á þennan hátt, og það er hæpið fyrir sveitar- og bæjarfélögin að hafa aðeins beinu skattana til að byggja sinn rekstur á, en þeir geta að sjálfsögðu brugðizt að verulegu leyti. Það væri meira öryggi fyrir fjárhag þeirra, ef þau nytu meiri óbeinna skatta jafnframt heldur en nú er. Vegna þess, hve þarfir sveitarfélaganna eru brýnar og að ríkið hefur gengið langt í skattaálagningu þá er þáltill. sú, er við flytjum, ekki aðeins miðuð við það að endurskoða skattalöggjöfina, heldur einnig við það, hvernig tekjuskiptingin er á milli ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Tilgangurinn er sá að skipa þessu í heildarkerfi, sem ekki nái eingöngu til ríkisteknanna, heldur einnig til ýmissa opinberra gjalda, er bæjar- og sveitarfélögin fái að halda.

Það hefur oft verið talað um það undanfarin ár, að of miklu fé væri eytt til að innheimta beinu skattana, annars vegar frá bæjar- og sveitarfélögum og hins vegar úr ríkissjóði. Ef athuguð væri samræming á skattakerfinu í heild, þá ætti þetta atriði einnig að koma til athugunar.

Ég hef minnzt á það, að það hafa komið fram bæði hér á þinginu og annars staðar mjög margar till. um endurbætur á ýmsum einstökum þáttum skattalaganna. Það vildi ég meina, að væru rök fyrir því að taka málið í heild sinni til endurskoðunar og lagfæra þannig þessa þætti, sem till. eru um. Nú liggja mjög mörg frv. þessa efnis fyrir þinginu, og tel ég ástæðulaust að telja þau upp fyrir hv. þm., en þau eru sannarlega ekki fá. Það er að vísu svo, að það má búast við því, að hv. flm. þessara frumvarpa leggi áherzlu á, að það verði ekki látið bíða heildarendurskoðunar skattalaganna, að þeirra mál nái fram að ganga, og er það ekki óeðlilegt af hv. flm., en okkur flm. þessarar till. voru ljósir þessir ýmsu annmarkar á skattalögunum, sem ýmsir hv. þm. vilja leiðrétta í sínum frv. Álítum við, að með því að taka einstaka þætti þessara mála nú og samþ. lausn á þeim, gæti verið spillt fyrir því, að gagngerð endurskoðun færi fram á þessum málum. Það má lagfæra ýmislegt í þessum efnum, og mörg þessara frv. hníga að því að stórbæta hag einstaklinganna, t. d. að hækka persónufrádrátt, leyfa að draga frá húsaleigu- og upphitunarkostnað og setja nýjar reglur varðandi skattamál hjóna. Ég efast ekki um, að margt mætti færa til betri vegar og gera ýmsa skattþegna ánægðari þar með. En menn mega ekki gleyma atvinnurekstrinum, sem er undirstaða efnahagslífsins í þjóðfélaginu. Gæti þá svo farið, að með því að höggva af ýmsa minni brodda, þá væru eftir skildar ýmsar meinsemdir, sem lömuðu stofninn og spilltu fyrir hagstæðu efnahagslífi. Þess vegna leggjum við áherzlu á, að málið sé tekið fyrir í einni heild og endurskoðun verði látin fara fram til hlítar í þessu máli, þó að brýn þörf sé á einstökum leiðréttingum.

Ég vil þá víkja að því, sem ég minntist á áðan, að mál þessi hafa verið mikið rædd, t. d. af hálfu landsmálafélagsins Varðar, eins stærsta stjórnmálafélagsins, og Stúdentafélags Reykjavíkur, og mjög ýtarleg samþykkt var gerð í þessu máli á landsfundi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri í sumar sem leið. Ég ætla mér ekki að tíunda allar þær hugmyndir, sem hafa komið fram frá einum og öðrum á þessu stigi. En ég tel skylt að vekja athygli á nokkru af því, sem komið hefur fram af hálfu sjálfstæðismanna, áður en ég lýk máli mínu. Þær ábendingar snerta sumar hverjar einstök frv., sem liggja fyrir þinginu, en þær eru ekki settar fram sem ákveðnar till., heldur miklu fremur sem ábendingar um einstaka þætti málsins. Einnig er nýútkomin mjög athyglisverð grein og niðurstöður eftir Sigurbjörn Þorbjörnsson fulltrúa, sem var frsm. um skattamálin í Varðarfélaginu. Í stuttu máli skal ég svo minnast á aðalatriðin í þessum ábendingum.

1. Gæta þarf þess, að gildandi tekju- og eignarskattsstigar verði samræmdir núverandi ástandi í efnahagsmálum okkar og geti orðið breytilegir í samræmi við breytingar í efnahagsmálunum. Þar er ekki aðeins innifalið að færa skattstigana til samræmis við núverandi efnahagsástand og ástand í atvinnumálum, heldur búa svo um, að atvinnuvegirnir geti orðið blómlegir í framtíðinni.

2. Að útsvarsstigi á tekjum og eignum verði fastákveðinn. — Nú kemur fram í grg. mþn., sem skipuð var 1947, að ýmsir borga meiri skatt en tekjur yfirstandandi árs nema, og gildir það bæði um félög og einstaklinga.

3. Að tekjur, sem aðeins hrökkva fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, verði skattfrjálsar.

4. Að rannsakað verði, hvort framkvæmanlegt sé að veita skattfríðindi í eitt eða tvö ár í sambandi við stofnun heimilis, byrjun búrekstrar eða stofnun mikilvægra atvinnufyrirtækja.

5. Að skattálagningu á tekjur hjóna verði breytt svo, að samræmis og jafnréttis gæti á því sviði.

6. Að afnumin verði óeðlileg skattfríðindi samvinnufélaganna, en þó tryggt, að samvinnufélög, útgerðarfélög og önnur atvinnufyrirtæki, sem starfa að mikilvægum verkefnum í þágu þjóðarinnar, geti safnað nægilegum varasjóðum til að tryggja starfsemi sina. Hér er aðalatriðið, að um jafnrétti sé að ræða milli fyrirtækja, sem starfa á sambærilegum atvinnugrundvelli. Þetta er m. a. ein af þeim ályktunum, sem ungir sjálfstæðismenn samþ. á Akureyri á síðasta sumri. Hef ég orðið var við það, að í opinberum málgögnum hefur þessi ályktun verið mistúlkuð og misskilin. Í þessu felst alls ekki það að taka ekki fullt tillit til sérþarfa samvinnufélaganna um skattfríðindi, heldur aðeins, að þar sem um er að ræða atvinnurekstur að öllu leyti sambærilegan við rekstur annarra, þá njóti hann sömu aðstöðu. Þetta má gera með tvennu móti, annaðhvort með því að afnema þau fríðindi, sem eru óeðlileg hjá samvinnufélögum, miðað við annan sambærilegan atvinnurekstur, eða láta önnur félög, þegar þau starfa á sambærilegum grundvelli við samvinnufélögin, njóta einnig þessara fríðinda, sem samvinnufélögin nú hafa, og þau haldi þá sínum fríðindum án þess að þau verði skert. En það er reginmunur á því, hvort samvinnufélögin njóta skattfríðinda, sem þau hafa alltaf notið og upphaflega voru miðuð við neytendasamtök, sem þá var rökstutt með því, að þeim hagnaði, sem af slíkri samvinnuverzlun fengist, yrði skipt milli meðlimanna, en yrði ekki gróði einstaklingsfyrirtækis, — það er mikill munur á því, hvort þessi fríðindi eiga að standa í slíkum tilfellum eða hvort þau eiga að yfirfærast í atvinnurekstur, sem er algerlega sambærilegur við einstaklingsrekstur. Ég sé ekki ástæðu til, þegar ég fer með bílinn minn til viðgerðar í viðgerðarverkstæðið Jötun, sem S. Í. S. rekur, fremur en ef ég fer með hann í Ræsi, sem er einstaklingsfyrirtæki, að viðgerðarverkstæðið Jötunn hafi skattfríðindi, þar sem um sambærilegan rekstur er að ræða hjá þessum tveimur félögum. Eins er um rekstur lyfjabúða, hótela og margvíslegan annan rekstur, sem er alveg sambærilegur við einstaklingsrekstur og er því kominn út af þeim grundvelli, sem samvinnufélögin voru upphaflega stofnuð á og var forsenda fyrir þeim fríðindum, sem samvinnufélögunum voru tryggð. Mér finnst, að þetta mál þurfi ekki að ræða af neinni tortryggni eða misskilningi. En menn verða að skilja, að í lýðræðislegu þjóðfélagi verður sambærilegur atvinnurekstur að hlíta sömu reglum.

7. Um leið og skattabyrði borgaranna er létt, ber að ganga ríkt eftir því, að framtöl séu rétt, og refsað harðlega fyrir skattsvik.

8. Komið verði á fót sérstökum dómstólum í skattamálum í stað yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar og girt fyrir handahóf í framkvæmdum.

9. Tekin verði upp innheimta skatta og útsvara af tekjum jafnóðum og tekjurnar myndast, eins og lengi hefur verið gert í Bandaríkjunum og víðar.

10. Komið verði á skattfrelsi sparifjár í miklu ríkari mæli en gert er ráð fyrir í till. þeirri, sem um þetta er flutt nú.

11. Gerðar verði ráðstafanir til þess, að skattahækkanir verki ekki aftur fyrir sig.

12. Skattar verði aftur frádráttarhæfir, eins og þeir vöru frá 1935 til 1941–42. Það var að vísu sagt, þegar hætt var að heimila að draga skatta og opinber gjöld frá, að það ætti að breyta skattstiganum, og var það gert, en reynslan hefur sýnt, að með þessu hefur verið kippt burt helzta varnarmeðali einstaklinga gegn ágengni hins opinbera á pyngju þeirra. Það sést bezt á því, þegar það er vitað, eins og kemur fram í áliti mþn., að í mörgum tilfellum verða fyrirtæki og atvinnurekendur að borga meira í skatt en nemur heildartekjum þeirra á því ári, þegar skattar eru innheimtir. Það stafar af því, að tekin hafa verið gjöld af veltu fyrirtækjanna, sem þarf ekki að vera rétt í hlutfalli við það, hvort viðkomandi aðilar hafa hagnazt af rekstri sínum eða ekki. Ég tel mjög mikils virði, að þessi regla verði aftur tekin upp í okkar skattalöggjöf, eins og meiri hluti nefndar þeirrar, sem starfaði að þessu máli 1947–48, — þ. e. a. s. 3 af 5 nefndarmönnum — lagði til.

13. Að lögfest verði hæfilegt hlutfall milli framleiðslutekna þjóðarinnar og þess, sem hið opinbera getur krafizt í sköttum og opinberum gjöldum. M. ö. o., að það verði fundnar leiðir til þess, að framleiðslutekjurnar á hverju ári, ef þær verða meiri eða minni en árið áður, setji eftir vissum reglum takmörkun á það, hve ríki og bæir megi taka mikið af skattþegnum sinum.

Ég vil taka það fram, að ég hef ekki gert minnstu tilraun til þess að setja hér fram tæmandi upptalningu á því, hvaða atriði í skattalögunum ég tel nauðsynlegt að verði tekin til þeirrar endurskoðunar, sem með þessari þáltill. er farið fram á. Aðeins vildi ég taka það fram, að það, sem gerð er grein fyrir í grg., er rökstuðningur fyrir því, að þessi þáltill. er fram komin. Svo hef ég bent hér á smáatriði, sem fram hafa komið í frv. einstakra þm. á þessu þingi. Ég hef þannig aðeins rökstutt frekar en gert er í grg. þörfina á því, að mál þetta fái hraðan byr í þinginu, hvort sem þáltill. verður samþ. í þessu eða öðru formi, þannig að gangskör verði gerð að því, að hv. Alþingi taki þessi mál til rækilegrar athugunar. Við höfum á tveim undanförnum árum, eftir að gengisbreytingin var samþ. hér, verið að reyna að koma á vaxandi efnahagslífi í landinu og koma okkar efnahagsmálum þannig fyrir, að atvinnuvegirnir geti verið reknir án opinberra styrkja. En um leið og mörgu hefur miðað vel áfram í þessu efni, þá er einn þrándur í götu í okkar þjóðfélagi, og er það sú óheilbrigði, sem ríkir í skattamálum okkar. Það ætti því að vera sameiginlegt áhugamál þeirra, sem vinna að því að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í lag, að taka þessi mál til skjótrar afgreiðslu.