16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

81. mál, heildarendurskoðun á skattalögum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till., og leggur meiri hl. til, að hún verði samþ. með breyt., sem bornar voru fram á þskj. 143 af hv. þm. S-Þ. — Þegar málið var rætt í n., kom það fram, að allir nm. voru sammála um það, að endurskoða þyrfti skattalöggjöfina í heild og taka til rækilegrar athugunar tekjuskiptinguna milli ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Hv. 5. landsk. þm. (ÁS) gat þó ekki mælt með till. n. nema með verulegum breyt., og kemur hann því með sérstakt nál. ásamt brtt.

Að undanförnu hafa verið uppi allháværar raddir um, að ástæða væri til að breyta ýmsum ákvæðum skatta- og útsvarslaganna. Á þessu þingi hafa t. d. komið fram allmörg frv., sem fælu í sér allverulegar breyt., ef þær næðu fram að ganga og væru samþ. sem l. frá Alþ. Það er ekki nema eðlilegt, að það komi oft fram till. um breyt. á skattal., og þá ekki sízt þegar miklar verðlagsbreyt. hafa átt sér stað og miklar breyt. á tekjum manna, eins og orðið hefur hin síðari ár, ef það er rétt og sanngjarnt, að skattalöggjöfin verði að taka tillit til kringumstæðna eins og þær eru hverju sinni.

Till. þessi fer fram á það, að ríkisstj. beiti sér nú þegar fyrir því, að öll ákvæði skatta- og útsvarslaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að leiðrétta ýmsa annmarka á löggjöfinni og gera hana einfaldari og samræma hin einstöku ákvæði hennar. Það er einnig gert ráð fyrir því í till., að endurskoðuð verði og athuguð tekjuskiptingin milli ríkisins og sveitarfélaganna. En forsvarsmenn sveitarfélaganna halda því fram, að réttur þeirra sé fyrir borð borinn og nauðsynlegt sé fyrir sveitarfélögin að fá stórum auknar tekjur. — Það er óþarfi fyrir mig að ræða þessa till. mikið, þar sem henni fylgir allýtarleg grg., og einnig hefur hv. 1. flm. skýrt málið mjög rækilega við fyrri umr.