16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

81. mál, heildarendurskoðun á skattalögum o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka meiri hluta hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls og að hún skuli leggja til, að till.samþ. með þeim breyt., sem hún leggur til. Vil ég lýsa yfir fyrir hönd okkar flm., að við erum breyt. sammála og teljum hana til bóta. Ég sé einnig ástæðu til að þakka sérstaklega form. n., Gísla Jónssyni, fyrir að fylgja þessari till., að vísu í trausti þess, að sérstök athugun fari fram. En hann hefur haft sérstöðu í þessu máli og er einn þeirra þm., sem hafa flutt till. um breyt. á skattalögunum og kannske þá róttækustu, um að fella úr gildi tekju- og eignarskattslögin. Um afstöðu minni hlutans vil ég segja það, að ég tel, að flestar till. hans um breyt. á þáltill. séu atriði, er tilheyri endurskoðuninni sjálfri. Við kusum að hafa till. almenns eðlis, en ekki ákveða einstaka þætti, hvernig þeir ættu að vera að endurskoðuninni lokinni.

Það hefur komið fram, að ekki þýddi að samþ. svona till. um endurskoðun og ekki væri meira að vænta af henni en áður, t. d. endurskoðuninni 1947. Ég vil vekja athygli á, að hér er um allt öðruvísi endurskoðun að ræða en þá var. Í fyrsta lagi er hér um að ræða heildarendurskoðun á lögum um skatta og útsvör, sem stefnir að því að lögfesta heilsteypt kerfi í skattamálunum, þar sem sérstaklega verður lögð áherzla á, að það skapist eðlileg samvinna og samræmi í tekju- og verkaskiptingu ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, sem nú hefur verið vikið að á þessu þingi og leitt fram í dagsljósið, miðað við breyttar aðstæður, sem ekki var þörf sérstakrar athugunar á, þegar mþn. fjallaði um þessi mál. Það, sem gefur málinu meira gildi nú, er, að endurskoðunin byggist á þál. og fram hefur komið ákveðinn vilji þm. á heildarendurskoðun, og tekur það einnig til hv. minni hluta, því að enginn ágreiningur er um meginefni málsins. Þar við bætist svo, að till. hefur verið tekið vinsamlega af hæstv. ríkisstj., og vil ég sérstaklega þakka hæstv. forsrh. Mér finnst að öllu athuguðu, að þessi till. gæti markað tímamót, ef endurskoðunin bæri þann árangur, sem vonir standa til.