09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3431)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 195 ásamt 3 öðrum þm. till. til þál. um ræðuritun á Alþ. Þess er óskað samkv. þessari till., að Alþ. álykti að skora á forseta Alþ. og ríkisstj. að gera ráðstafanir til að koma ræðuritun á Alþ. í viðunandi horf, svo sem þar segir, en það hefur löngum verið viðurkennt og raunar verið kannske minna um það rætt opinberlega en efni standa til, að ræðuritun á Alþ. hafi ekki verið og sé ekki í svo góðu lagi sem vera skyldi, og talin helzta ástæðan, að ekki hafi verið gert að ófrávíkjanlegu skilyrði til þess að öðlast þetta starf, að um hraðritara sé að ræða. Hefur raunar mjög lítið verið að því gert af þingsins hálfu að ýta undir, að til þessa starfs veldust hraðritarar öðrum fremur. Lengi vel var mjög mikil og áberandi ótrú á því í þinginu, að hraðritarar gætu unnið þetta starf jafnvel og því síður betur en aðrir ritarar. Ég held, að sú ótrú sé fyrir löngu horfin, en samt hefur haldizt við það gamla lag, að ekki hefur verið lagt svo mikið upp úr, að það hefði úrslitaþýðingu um það, hvernig maður reyndist til þessa starfa, að hann væri góður hraðritari. Úr því að Alþ. hefur þá stefnu að vilja geyma sem heimild til síðari tíma þær ræður, sem fluttar eru á Alþ., þá liggur í augum uppi, að til þess er nauðsynlegt að hafa þá beztu tækni, sem völ er á, og ég fullyrði, að sú bezta tækni, sem við a. m. k. þekkjum og völ er á í sambandi við þetta starf, sé fullkomin hraðritun. — Það hafa að vísu komið fram hér á þingi till. um annað form á þessu. Þær hafa ekki orðið útræddar, enda líka kannske ekki heldur neinn grundvöllur fyrir því, að hægt væri að taka slíkt upp, bara vegna tæknilegra vandkvæða. Ég veit til þess, að a. m. k. á hinum stóru alþjóðaþingum, sem haldin eru, þar sem tækni öll er framar okkar tækni, eru aðeins hraðritarar, en það mun vera óþekkt, að þar séu notaðir langhandarræðuritarar. Ég vil svo geta þess, að í sumum hinum stóru nefndum, t. d. Evrópuþinginu, þar sem maður gat vel fylgzt með því, sem fram fór, þar er notuð hraðritun, — að vísu á vélar, sem nú eru að komast í notkun, en hraðritun þó, en ekki vélræn upptaka og því síður langhönd.

Ég mun svo ekki hafa um þetta fleiri orð, till. útskýrir sig sjálf og grg., sem henni fylgir. — Ég býst við, að eðlilegt þyki, þó að 1angt sé liðið á þingið, að þessi till. fari til n., og ef það verður ofan á, ætti hún helzt heima hjá allshn., og geri ég það að till. minni, að henni verði vísað þangað.