18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur lagt hér fram brtt. á þskj. 461, og er hún við brtt. á þskj. 365. Við 2. umr. hér í hv. deild var boðað af hálfu n., að hún mundi leggja fram nýja brtt., og er hún flutt hér með.

Aðalbreytingin, sem meiri hl. n. leggur til að gerð verði frá því, sem er í frv. nú, er viðbót við 2. gr. frv. og er á þessa leið: „Nú hefur vísitöluálag á tekjustofna Tryggingastofnunarinnar næstliðið ár verið lægri en vísitöluuppbót á bætur hennar, og er þá ráðh. heimilt, að fengnum till. tryggingaráðs, að hækka álagið á tekjuliðina um allt að því, sem vísitölumunurinn nam.“ M.ö.o., í þessum málslið er gert ráð fyrir því, að þegar gengið hefur verið á sjóði Tryggingastofnunarinnar á einu ári með því að leggja hærra vísitöluálag á bætur hennar en fengizt hefur á tekjuliðunum, þá er ráðh. heimilt að hækka álagið á tekjustofnunum árið eftir. Þetta er sú trygging, sem meiri hl. n. vildi reyna að fá gegn því, að gengið sé um of á sjóði stofnunarinnar. Ég vil vekja athygli á því, að hér er um heimild að ræða, en ekki kvöð.

3. málsliður var áður leiðréttur, en þar hafði af vangá fallið niður úr frv., því að í frv. sjálfu er gert ráð fyrir, að álagning á iðgjöldin miðist við kaupgjaldsvísítölu marzmánaðar það ár, sem gjöldin eru á lögð, en við gerum ráð fyrir, að iðgjöld lögskráðra sjómanna skuli innheimt samkv. kaupgjaldsvísitölu janúarmánaðar, þar til vísitöluálag ársins hefur verið ákveðið.

Þá flytur meiri hl. n. einnig brtt. á þskj. 462. Það hefur verið venja, í stað þess að láta hinar mörgu lagabreyt. vera hingað og þangað, að fella þær inn í meginmál l., og er gert ráð fyrir því með þetta atriði. — Ég vil svo geta þess, að n. var sammála um það, að hún teldi sig ekki geta orðið við tilmælum, sem hún hafði fengið frá hv. 1. landsk. um þessi mál.