18.12.1951
Efri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

139. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér eru það mikil vonbrigði, að hæstv. félmrh. skyldi taka svona í málið, og enn meiri vonbrigði, að hann skyldi ekki geta verið viðstaddur umr. Hefði því verið ástæða til að fresta umr. Hæstv. ráðh. hefur ekki heldur getað talað við n. um þetta mál, sem þó er nauðsyn að leysa í samráði við stj. Mín skoðun er sú, að n. hafi farið svo vægt í þetta mál sem unnt var. En hæstv. ráðh. lýsir ekki aðeins yfir, að hann muni ekki nota heimildina, heldur óskar einnig eftir því, að hún verði alls ekki samþykkt. Ég segi það enn, að mér þykir mjög fyrir því, að hæstv. ráðh. getur ekki verið við umræðuna, og ég tel, að það ætti að fresta henni. (Forseti: Ef hv. ræðumaður vill fresta umr. stutta stund, er það heimilt. En eftir því sem hæstv. ráðh. hefur tjáð mér, er nauðsynlegt að afgreiða málið áður en þingi verður frestað, og er því ekki hægt að fresta umr. nema stutta stund.) Hér eru nú viðstaddir tveir ráðh., og mun ég halda ræðu minni áfram.

Hæstv. félmrh. lýsti því yfir, að hann mundi því aðeins nota heimildina, að fé yrði veitt til þessa á fjárlögum, og óskaði einnig eftir því, að till. yrði ekki samþ. eins og hún er. Ég vil í sambandi við þetta benda á, hvernig fór um þetta mál í fyrra. Hæstv. ráðh. vildi þá ógjarnan taka við sams konar heimild, en þó fór svo að lokum, að nauðsynlegt reyndist að nota hana, enda hefði það orðið mjög mikill og tilfinnanlegur skellur fyrir Tryggingastofnunina, ef það hefði ekki verið gert.

Ég vil þá í nokkrum dráttum benda á, hvernig málið er nú vaxið. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að það mundi kosta þá, sem standa undir tryggingunum, 5 millj. kr., ef heimildin yrði notuð, þar af ríkissjóð 1.75 millj. Þá er sýnilegt, að sjóðir Tryggingastofnunarinnar eru settir í þessa hættu. Verður þá ríkissjóður síðar að leggja fram stóra fúlgu til að bæta þetta eða þá að gripa verður til þess að lækka bætur. Ég skal taka það fram, að þessi laun, þessar bætur, eru þau lægstu laun, sem greidd eru í landinu. Því er mér óskiljanlegt, að meðan stj. greiðir vísitöluuppbót á öll önnur laun, hugsi hún sér að skerða þessi laun, sem eru langlægst, nú þegar verið er að taka inn á 19. gr. fjárl. 3.5 millj. til aukinna launagreiðslna til opinberra starfsmanna. Ef ætlunin er ekki að draga úr bótum, getur þetta ekki endað á annan hátt en þann, að ríkissjóður verður, þegar allt er komið í þrot, að taka á sig þessar greiðslur, sem hann verður ekki færari um að bera þá en nú. Þau ár geta komið, þegar ríkissjóður hefur engan ágóða, en neyðist til þess að greiða gjöldin og verður að taka lán til þeirra greiðslna. Það er þess vegna óskiljanlegt, hvernig hæstv. ráðh. brást við, þegar hann sagði, að Tryggingastofnunin mætti vel við una að hafa marzvísitölu. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. á við. Tryggingarnar eru stofnun. sem verður að greiða sínar bætur og hefur ekki aðra möguleika til þess að afla fjár til þeirra greiðslna en með þeim íðgjöldum, sem hún fær. Og það er ekki sök þessarar stofnunar, þó að vísitalan stígi, hún ræður þar engu um. Hún getur ekki unað við annað en fá jafnmikið inn og hún verður að greiða í bætur.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að það er nýlega búið að samþ. að taka 600 þús. kr. til þess að greiða í lífeyrissjóð til uppbóta á laun embættismanna. Hæstv. félmrh. var sammála um, að þetta væri nauðsyn. En ef þetta hefur verið nauðsyn, hversu miklu nauðsynlegra er ekki að greiða til trygginganna, til þess að þær geti greitt sín laun til þeirra, sem lægstar tekjur hafa til þess að lifa af á landi hér. Og sé það svo, að það sé ekki meiningin að greiða til trygginganna þann mismun, sem kann að verða, þá er þar verið að fremja slíkt ranglæti sem ég vil ekki trúa að gert verði.

Ég vil ekki mælast til þess, að stj. samþ. till. óbreytta, heldur að hún taki höndum saman við heilbr: og félmn. þessarar hv. deildar og að hæstv. ráðh. endurskoði sína afstöðu og lýsi því yfir, að verði samþ. heimild handa honum til þess að greiða þetta, þá muni hann nota þá heimild. En á þeim tíma mun hann hafa getað rannsakað, hvort dýrtíðin muni hækka og hvað ríkissjóður muni þola. Það er mjög varhugavert að samþ. ekki þessa till., og hitt er þó enn varhugaverðara, að lýsa því yfir, að þó svo að heimildin verði samþ., þá muni ráðh. ekki nota hana né þá fjárveitingu, sem til þess verður ætluð á fjárlögum. Það hefur áður orðið að greiða stórar fjárhæðir vegna dýrtíðarinnar utan fjárlaga, og það er því ekki nein undantekning, sem hér er verið að gera, og ég skil ekki, hvers vegna á þá að gera þetta að undantekningu og spyrna við fótum í því.

Ég vil vænta þess, að þetta mál gangi fram og ríkisstj. endurskoði sína afstöðu í því.