08.10.1951
Sameinað þing: 3. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. minntist á áðan, að bæjar- og sveitarsjóðir hefðu verið neyddir til að hækka launin, vegna þess að ríkisstj. ákvað að hækka laun opinberra starfsmanna. Ég vil taka fram, að ríkisstj. var kunnugt um, að Reykjavíkurbær vildi, að þessi breyting yrði gerð. Var hv. þm. Barð. að reyna að sneiða að Framsfl. og sagði, að hann hefði lofað að stöðva dýrtíðina. Þetta er ósatt hjá hv. þm. Það var sagt, að annaðhvort yrði að verða gengislækkun eða allsherjar niðurskurður, Engum hefur komið til hugar að segja, að verðlækkun yrði samfara gengislækkuninni.

Ég verð að segja, að ég get alls ekki verið óánægður með ræður stjórnarandstæðinga. Þeir hafa varla víkið að fjárl. sjálfum, og ber það vott um, að eigi sé um auðugan garð að gresja hjá þeim. Er það aðeins eitt eða tvö atriði, sem hægt er að festa hendur á, og mun ég koma að þeim síðar.

Þeir hafa haldið því fram, að ástandið í verzlunarmálum hafi farið versnandi og að flett hafi verið ofan af óheiðarlegum ráðstöfunum. Að vísu þrífst ýmislegt, sem mér dettur ekki í hug að verja, en því ber ekki að neita, að ástandið er ekkert sambærilegt nú við það, sem það var. Verzlunaránauðin var svartur blettur á þjóðinni, sem nú hefur tekizt að afmá. Áður þurfti fólk að knékrjúpa fyrir kaupmönnum til að fá helztu nauðsynjavörur. Verkamenn urðu að vera nær vinnufatalausir langtímum saman, og svo má lengi telja. Þessari plágu hefur nú verið aflétt til ómetanlegs hagræðis fyrir íslenzk heimili. Nú getur almenningur gert sína verzlun þar, sem kaupin eru hagfelldust og vöruval mest, og getur flutt verzlun sína á milli kaupmannaverzlana og kaupfélaga eftir vild. Nú geta menn látið okrarana eiga sjálfa sínar vörur. Menn mega ekki flana að því að kaupa að óathuguðu máli, heldur eiga menn að leita fyrir sér og stilla svo til, að sá, sem gerir hagkvæmust innkaup, njóti viðskiptanna, en hinir tapi. Það hefði verið nær fyrir þessa hv. þm. að skora á almenning að fara þannig að en kalla á verðlagseftirlit, sem þeir vissu, að var ekkert annað en nafnið tómt og gaf þegnunum litla sem enga vernd. Það væri bægt að nefna fjöldamörg dæmi um það, hvernig ástandið var í þessum efnum. Þrátt fyrir bátaútvegsgjaldeyrinn voru sumar vörur, sem inn voru fluttar eftir þeirri leið, ódýrari en þær voru áður á markaðnum hér innanlands. Ég vil nefna eitt dæmi, en það eru nylonsokkar, sem eru mjög nauðsynleg vara fyrir kvenfólkið, og eru þeir ódýrari nú en þeir voru meðan hitt fyrirkomulagið var, þrátt fyrir bátagjaldeyrinn. — Framsfl. hefur aldrei haft neina tröllatrú á verðlagseftirliti. Hann hefur keppt að því að auka fjárhagslegt jafnvægi til þess að auka frelsi í verzlun og leysa kaupfélögin úr verzlunaránauð, þannig að þau gætu keppt við kaupmenn og þannig orðið hið raunverulega verðlagseftirlit, sem kaupendur gætu treyst, og það er það ástand, sem nú er að skapast hér og vonandi heldur áfram að skapast. Og þegar talsmaður kommúnista, hv. 5. landsk. þm., var að kvarta undan þessu, þá láðist honum að geta þess, að kommúnistar hafa innan neytendasamtakanna ár eftir ár heimtað afnám á öllu verðlagseftirliti og það áður en vöruframboð fór að aukast í landinu. En af því að það hefur verið upplýst, að nokkrir einstaklingar hafa misnotað þetta frelsi, snýst þessi hv. þm. á móti þessu fyrirkomulagi, því að hann heldur, að það geti einhvers staðar orðið vinsælt. Ég vil að lokum endurtaka það, að það verður aldrei hægt að treysta verðlagseftirlitinu, heldur verður að koma á því ástandi, að vöruframboð sé nægilegt í hlutfalli við kaupgetuna.

Að því er snertir skýrslu þá, sem hér um ræðir og birt hefur verið, er það að segja, að hæstv. viðskmrh. hefur aldrei komið til hugar, að hún yrði ekki birt. Það eina, sem hann vítti, var það, að hún var birt án þess, að höfð væru um það samráð við viðskmrn., því að auðvitað átti það rn. að sjá um birtingu skýrslunnar, sem samin var gagngert í þeim tilgangi að fylgjast með því, hvernig þróunin yrði. Annars er einnig rétt að benda á, að vitanlega gefur það enga örugga mynd af því, hvernig þessi leið verður í framkvæmd, hvað gerzt hefur á þeim fáu mánuðum, sem þetta fyrirkomulag hefur staðið. Menn vita, að þegar þetta byrjaði, ætluðu ýmsir sér að flá feitan gölt og leggja meira á vörurnar en góðu hófi gegndi og spenntu bogann of hátt. En ef allir fá nægilegar vörur til að verða með, gætu einstakir okrarar ekki komizt áfram með slíkt, þannig að þetta hlyti að leita jafnvægis og slík undantekningartilfelli hverfa úr sögunni.

Það má segja, að þessum þm. úr stjórnarandstöðunni blöskraði ekki smávegis, þegar þeir halda því fram, að dýrtíðaraukningin á árinu 1951 sé heimatilbúin. Ég tók hér af tilviljun með mér fáeinar setningar úr upplýsingum frá sendiráðum okkar í Kaupmannahöfn og London. Í upplýsingum sendiráðsins í Kaupmannahöfn segir, „að dýrtíð hafi aukizt hröðum skrefum í Danmörku, einkum síðustu 12 mánuðina, svo að nú er heildarsöluvísitalan þar 48% hærri en við gengisfellingu sterlingspundsins í september 1949“. — Í skýrslu sendiráðsins í London segir, að karlmannafatnaður hækki um 20% á næstu vikum ofan á 35–50% hækkanir fram að þessu. Kvenfatnaður hefur hækkað hlutfallslega eins og karlmannafatnaður. Skófatnaður karla og kvenna hefur hækkað um 100% frá því 1948. Skósólanir og viðgerðir hafa hækkað um 75% og jafnvel meira í sumum tilfellum. Fargjöld í strætisvögnum og lestum hafa hækkað um 331/3%. Brauð hefur hækkað um 25%, mjólk 20–25%, þvottur 75%, kol 100%, smjör 50%, kaffi 32%. — Þannig mætti halda áfram að lesa upp verðhækkanir þær, sem orðið hafa í viðkomandi löndum. En svo koma þessir þm. og segja: Dýrtíðaraukningin á þessu ári er heimatilbúningur íslenzku ríkisstj. — Hér hefur engin dýrtíð orðið fyrir innlendar ráðstafanir siðan áhrif gengislækkunarinnar hættu að mega sin.

Ég get ekki gert þessu atriði frekari skil, en vil þá koma að því, sem þeir töluðu um fjárl., þó að það verði víst að vera mjög stutt, þar sem ég mun vera langt kominn með minn ræðutíma.

Hannibal Valdimarsson vildi ekki bera á móti því, að afkoma ríkissjóðs væri góð, og hafði að því leyti ekki neitt við ræðu mína að athuga, en sagði, að þessi ráðh. væri dálítið þröngsýnn og hefði asklok, þ.e. hirzlu ríkissjóðs, fyrir himin. Í ræðu minni lagði ég áherzlu á það, að góð afkoma ríkissjóðs er undirstaðan undir heilbrigðri stefnu í fjárhags- og atvinnumálum landsins yfirleitt. Ég ræddi ekki málið eingöngu frá sjónarmiði ríkissjóðs, en sýndi fram á, að það að ríkissjóður hefði rekstrarafgang væri undirstaða þess, að takast mætti að ráða við fjárhags- og atvinnumálin, eins og ástatt er í landinu, og að við gætum haldið uppi sömu framfarastefnu. — Ekkert af þessu reyndi hv. þm. að hrekja í fullyrðingum sínum.

Þeir tveir þm., sem talað hafa fyrir stjórnarandstöðuna, hafa talað um, að þetta væri hæsta fjárlfrv., sem lagt hefði verið fyrir Alþ., og aldrei hefði þurft að greiða svona mikla skatta og tolla. En ég vil benda á, að þótt við gerum ráð fyrir háum sköttum og háum tollum, er ekki gert ráð fyrir, að ríkissjóður hafi nema 19% hærri tekjur en hann hafði fyrir gengislækkunina. Hvaða stofnun, sem ekki hefur líka hærri útgjöld, hefur ekki hækkað tekjur sínar meira en um 19% frá því fyrir gengislækkun? Sannleikurinn er sá, að útgjöld ríkissjóðs hafa lækkað stórlega frá því fyrir gengislækkun, þegar tekið er tillit til verðiags þá og breytingar á gengi peninganna.

Nú sagði hv. þm., Hannibal Valdimarsson, að þinggjöldin væru óviðráðanleg og óbeinu skattarnir gífurlega þungir, sem er raunar rétt, en hv. þm. gleymdi að segja frá því, hvað hann eða hans flokkur vill gera. Ekki getur verið meiningin að hækka þinggjöldin, og þá vist ekki heldur óbeinu skattana, en þá gleymdi hann að geta um, hvað það er á fjárl., sem þeir ætla að fella niður, hvaða þjónustu ríkið á að hætta að inna af höndum fyrir borgarana, ef taka á mark á þessu skrafi hans, og sama er að segja um skraf hv. 5. landsk., Ásmundar Sigurðssonar.

Hannibal Valdimarsson sagði einnig, að auðséð væri, á hvert stig skattpíningin væri komin undir fjármálastjórn minni. En hvaða skattaákvæði og tollaákvæði eru það, sem ég hef farið eftir? Sömu skattaákvæðin, sömu tollaákvæðin og giltu áður en ég tók við þessum málum, sömu skattaákvæðin og sömu tollaákvæðin, sem giltu þegar flokksmaður hv. þm. var forsrh., og sömu skattstofnarnir og löggiltir voru yfirleitt til þeirrar stj. með sáralitlum breytingum til hækkunar og lækkunar. Það er m.ö.o. sama skattpíningin og landsmenn voru beittir, þegar formaður Alþfl. var stjórnarformaður, en hefur ekki verið komið á af mér, en sá er munurinn, að sökum þess, hve ríkisstj. hefur tekizt að færa aukið líf í atvinnureksturinn, þá gefa þessir skattstofnar nú nokkru meiri tekjur en þeir gerðu þá, og einnig vegna ýmissa annarra ráðstafana ríkisstj. getum við nú sýnt talsverðan tekjuafgang hjá ríkissjóði, en þegar formaður Alþfl. var stjórnarformaður, var stórfelldur halli á ríkissjóði þrátt fyrir það, að hann lagði á þessa sömu skatta og þessi sömu gjöld.

Hv. þm. sagði, að óhætt hefði verið að áætla tekjurnar hærri. Það voru engin rök fyrir því, þegar það var gert. Hann gat ekki vitað, að það mundi verða stórfelld hækkun á innflutningsverði erlendra vara, og vissi ekki frekar en ég, að þá mundi verða mögulegt að slaka á höftunum, eins og gert var, og auka birgðainnflutninginn, þar sem ekki var búið að koma því í kring, þegar fjárl. voru samþ. Hvernig hefði farið, ef till. hans hefði verið fylgt um að auka svo gífurlega tekjuáætlunina eins og hann vildi? Þá hefðum við varla getað mætt þeim hækkuðu gjöldum, sem urðu af þeim sömu ástæðum og tekjurnar hafa aukizt, en þessu sleppti hv. þm., þegar hann reyndi að gera grein fyrir, að hann hefði haft rétt fyrir sér. — Enn fremur er auðséð, að ef farið hefði verið eftir till. hv. þm., þá hefði enginn afgangur orðið þrátt fyrir þau mikið auknu viðskipti og tolltekjur, sem nú hafa átt sér stað, og þá hefðum við ekkert getað greitt niður af lausaskuldum og verzlunarstefna sú hin nýja orðið óframkvæmanleg, því að það, sem hefur gert hana framkvæmanlega, er það, hvað við höfum þurft að leita minna til Landsbankans vegna hinnar góðu afkomu ríkissjóðs, sem ég hef skýrt.

Ég skal svo láta þetta nægja. Það hefði verið til of mikils mælzt, að stjórnarandstæðingar lýstu ánægju sinni yfir góðri afkomu ríkissjóðs. En þeir hafa gert það óbeint með ræðum sínum, og hef ég því ekkert undan undirtektum þeirra að kvarta.