30.11.1951
Sameinað þing: 20. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að mæla hér fyrir neinum brtt. En mig langar til að vekja athygli á tveimur till. hv. fjvn. Önnur er við 14. gr., þar sem n. leggur til, að felld verði niður úr liðnum fyrsta málsgr., sem er um, að íslenzkir námsmenn í Ameríku og Sviss, sem hófu nám sitt 1949 eða fyrr, fái af þessari fjárveitingu allt að 350 þús. kr. Nefndin segir, að það sé rétt að leggja á vald menntamálaráðs, hvernig þessu sé hagað og hvort heppilegt sé að nema sumar námsgreinar, sem hér er um að ræða, annars staðar, þar sem það sé ódýrara. Mér virðist hér gæta misskilnings. Ástæðan fyrir því, að þessi grein kom inn, er sú, að þeir menn, sem hófu nám í Ameríku og Sviss fyrir gengisbreytinguna, hafa lent í greiðsluvandræðum með námskostnaðinn vegna þess, hversu greiðslur hans hafa hækkað við þær tvær gengisbreyt., sem farið hafa fram. Og það er ekki hægt fyrir þessa menn, þó að þeir vildu snúa við og fara eitthvað annað, nema byrja upp á nýtt með námið í öðru landi. Sumir þeirra eru komnir langt í sínu námi og reyna því að klífa þrítugan hamarinn til þess að reyna að ljúka námi í þessum löndum, þótt erfitt sé. Og ástæðan fyrir því, að þetta komst inn í fyrra, er sú, að það á að hjálpa þessum mönnum, sem stendur alveg sérstaklega á fyrir og þannig var komið fyrir, þegar gengisbreyt. kom, að þeir gátu ekki valið sér nám í öðru landi en því, sem þeir voru þegar komnir að námi i.

Hin brtt. kemur frá hv. fjvn. og er um það, að lagt verði til, að veittar verði 100 þús. kr. til menntaskólakennslu á Laugarvatni, og segir í nál.: „Hefur kennsla til stúdentsprófs farið fram á Laugarvatni, og þykir því rétt að leggja til að taka upp í frv. þessa upphæð til að mæta þeim kostnaði, sem af þessari kennslu leiðir.“ Þetta er ekki alls kostar rétt. Í l. nr. 58 frá 1946 er svo til tekið, að það skuli vera tveir menntaskólar, annar í Reykjavík, en hinn á Akureyri, en sá þriðji skuli stofnaður í sveit, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Með því að veita fé á fjárl. nú til menntaskóla á Laugarvatni væri sá skóli stofnaður. Hér er ekki eingöngu verið að greiða þann kostnað, sem leiðir af kennslunni þarna, sem hefur verið undanfarið, að nokkrir nemendur hafa lært þar í vissum bekkjum lærdómsdeildar, — það væri ekki eingöngu verið með þessu að leggja fram fé til þessa kostnaðar, heldur væri með þessu slegið föstu, að það skuli hér eftir vera rekinn menntaskóli á Laugarvatni, enda væri það í samræmi við l. eins og þar er ákveðið. Ég hefði nú haldið, að áður en n. tæki svo stórt skref að stofna menntaskóla, mundi hún leita álits fræðslumálastjóra í málinu. En mér vitanlega hefur hv. fjvn. ekki leitað slíks álits og hefur því tekið alveg upp á sína arma að leggja fyrir þingið, að þessi skóli skuli stofnaður. Samkvæmt áætlun fræðslumálastjóra er ekki hægt að reka menntaskóla á Laugarvatni, hafa þrjá fasta kennara og skólastjóra eða rektor, með minna en 270 þús. kr. Það er því fyrirsjáanlegt, að þessar 100 þús. kr. endast kannske í vetur og fram á næsta haust. En um leið og skólinn er stofnaður þarna þarf hann miklu meira fé til sinna umráða en gert er ráð fyrir. Og þetta verður Alþingi að gera sér grein fyrir. Í lögunum stendur, að fastir kennarar skuli vera jafnmargir og deildirnar í menntaskólanum. Og núverandi skólastjóri á Laugarvatni hefur tekið það fram, að hann ætlist til þess, að skólinn hafi bæði máladeild og stærðfræðideild, svo að hér er ekki aðeins um það að ræða, að skólinn sé bundinn við máladeildina eina. Og þetta gæti krafizt að minnsta kosti 7 fastra kennara. En svo er annað, sem er nú þyngra á metunum. Fræðslumálastjóri lýsti því, að það sé ekkert húsnæði nú til á Laugarvatni fyrir héraðsskóla og menntaskóla. Héraðsskólinn hafði samþ. á sínum tíma, að gamla húsnæðið á Laugarvatni skyldi selt íþróttakennaraskólanum. Íþróttakennaraskólinn er nú í alveg ófullnægjandi húsnæði og getur ekki verið þar framvegis. En þegar þessi hugmynd er komin fram, hefur héraðsskólinn, þrátt fyrir það að samningar höfðu verið gerðir um það, að íþróttakennaraskólinn skyldi fá þessa eign, skorazt undan því að halda áfram nokkrum samtölum um það efni, þó að búið sé að borga eina afborgun upp í eignina. En þetta stafar af því, að ef á að stofna menntaskóla á Laugarvatni, þá verður hann að taka til afnota gamla húsið, og það mun ekki hrökkva til, þannig að ef um þessa tvo skóla á að vera að ræða á Laugarvatni, menntaskóla og héraðsskóla, þá verður að byggja yfir annan hvorn þessara skóla, hvor þeirra sem tæki það húsnæði, sem nú er. Akureyrarskólinn hefur nú 300 nemendur. Hann gæti tekið á móti 5V0 nemendum. Oft hefur verið rætt um, að dvalarkostnaðurinn væri miklu lægri á Laugarvatni en á Akureyri og þess vegna mundi vera hagkvæmara að sækja menntaskólanám til Laugarvatnsskóla en til Akureyrarskólans. Eftir því sem mér er skýrt frá, er mánaðarkostnaðurinn á Akureyri 548.00 kr., en á Laugarvatni 465.00 kr. Þetta mun því vera 100–800 kr. munur á ári. Þeir, sem sækja skólann á Laugarvatni, þurfa hvort sem er að flytjast frá heimilum sínum, og meðan Akureyrarskólinn getur tekið við 200 nemendum til viðbótar, virðist ekki mikill hagur í því að halda menntaskóla á Laugarvatni með ærnum tilkostnaði. Þessi 100 þús. eru ekki nema brot af því. Laugarvatnsskólanum var gefið leyfi til að kenna nokkrum nemendum í lærdómsdeild, og þeir nemendur tóku síðan próf undir umsjón menntaskólans í Reykjavík. Þetta var gert fyrir nokkrum árum, þó að það væri ekki í samræmi við lögin. Nú hefur menntaskólinn í Reykjavík skorazt undan að annast þessi próf og Laugarvatnsskólinn því kominn í vandræði. Ég sagði við skólastjórann, að ég mundi ekki taka af þeim þennan rétt, þó að ég hefði ekkert formlegt leyfi til að leyfa slíkt, en hann yrði sjálfur að bera ábyrgð á því, að þessir nemendur gætu gengið undir próf. Næst skeði það svo, að Laugarvatnsskólinn fór að nota auglýsingastarfsemi og áróður til að ná í nemendur til sín, og nú eru þar 34 nemendur í lærdómsdeild, þar af 14 í 2. bekk og 6 í 4. bekk. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á þessu. Og mín skoðun er sú, að mjög sé rasað að því ráði, ef þetta er gert nú. Spurningin er, hvort heldur eigi að vera héraðsskóli eða menntaskóli á Laugarvatni.