03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson;:

Herra forseti. Ég vil fyrst gera grein fyrir brtt., sem ég er meðflutningsmaður að. Er þá fyrst að nefna brtt. á þskj. 308 um að verja í samráði við vitamálastjórnina fé til að ljúka viðgerð á brimbrjótnum í Bolungavík vegna skemmda. Hv. þm. N-Ísf. gat þess áðan, að vitamálastjóri liti svo á, að heimild væri í fjárl. þessa árs til að greiða kostnað við að bæta þessar skemmdir, en framkvæmdavaldið leit öðruvísi á það. En hins vegar taldi ráðuneytið réttara að endurnýja þessa heimild á fjárl. næsta árs. Til að fullnægja þessu formsatriði flytjum við þessa brtt., því að það er sennilegt, að heimildin sé fyrir hendi til að bæta þetta tjón að fullu, því að svo skýrt stendur það í fjárl. Ég vona, að þetta sæti ekki fyrirstöðu og við fáum þessa heimild endurnýjaða og þessu formsatriði þar með fullnægt.

Þá flyt ég brtt. á þskj. 315 ásamt hv. þm. N-Ísf. Það er tillaga um, að teknar verði upp á fjárl. 30 þús. kr. til þess að kosta kennslu í 1. bekk menntaskóla við gagnfræðaskólann á Ísafirði. Það er í þriðja sinn nú í ár, að slíkri kennslu er haldið uppi með fullri vitund og samþykki menntmrh. Nemendurnir hafa verið prófaðir í menntaskólanum í Reykjavík, og hafa allir nemendurnir staðizt próf upp í 2. bekk menntaskóla. Síðan hafa þeir haldið áfram námi, flestir á Akureyri, en nokkrir í Reykjavík, og getið sér góðan orðstír. Skólameistarinn á Akureyri hefur látið þau orð falla, að hann telji eðlilegt, að gagnfræðaskólinn á Ísafirði fái heimild til að prófa sjálfur þessa nemendur, sem hafa gefizt með ágætum vel í menntaskólanum á Akureyri. Ef þessi tilhliðrun að heimila gagnfræðaskólanum á Ísafirði að annast þessa kennslu verður samþ., getur það orðið til að stuðla að því, að álitlegur hópur efnilegra, en fátækra nemenda geti byrjað menntaskólanám heima hjá sér, og stuðlað að því, að þeir geti haldið áfram til stúdentsprófs. Meiri hl. fjvn. fellst á það, að ríkið kosti kennslu til menntaskólahalds að Laugarvatni. Þar eru þrír bekkir, en ekki einn. N. hefur tekið 100 þús. kr. á fjárl. til að standast kostnað af þessari kennslu. Ég hefði talið eðlilegt, að eitt gengi yfir þessa skóla á Ísafirði og Laugarvatni. Ég mundi því telja okkur Ísfirðinga nokkru misrétti beitta, ef sú menntaskólakennsla í einum bekk ætti að vera kostuð af bæjarfélaginu, en ekki ríkinu, eins og er á öllum öðrum stöðum á landinu, og ég teldi það aðeins til samræmingar að veita þessar 30 þús. kr. í þessu skyni.

Þá er brtt. um, að varið verði allt að 180 þús. kr. til bóta vegna slysa, er urðu á Bolungavíkurvegi s.l. sumar. Þetta slys varð með þeim hætti, að tveir menn fórust og einn örkumlaðist, en aðrir limlestust meira og minna. Það lá fyrir fjvn. erindi frá hinum slösuðu um bætur. Af þessu fé er ætlazt til að 53 þús. fari til þess, sem lemstraðist mest, og 9 þús. til annars, er varð hart úti. Það voru ekki greidd atkv. um þetta í fjvn., en látin fara fram athugun á því, hvort ætti að fara inn á þessa leið yfirleitt. Var árangurinn af þeirri skoðanakönnun sá, að ekki væri fært að gefa slíkt fordæmi. Ég held, að það væri ekki farið inn á nýja leið með þessu. Það hefur verið þráfaldlega gert að bæta fólki skaða, sem það hefur orðið fyrir undir svipuðum kringumstæðum. Og þegar verið er að taka sárasta broddinn af með þessu, tel ég það sjálfsagt. Það lá einnig erindi frá bifreiðarstjóranum fyrir fjvn. með ósk um bætur vegna tjóns hans. En hann missti bifreið sína úr rekstri um langan tíma. Það greip einnig fólk ótti við að ferðast þessa leið, og hann var efnalítill fyrir. Er því tjón hans tilfinnanlegt. Það var því ætlun okkar, að af þessari 180 þús. kr. upphæð fengi bifreiðarstjórinn nokkurn hluta til að bæta honum rekstrartap sitt, en það drægi úr þeirri upphæð, sem aðrir aðilar fengju eftir till. okkar. Ég vildi mjög mælast til, að þm. sæju sér fært að verða við þessum óskum hins bágstadda fólks.

Um aðrar till. mun ég ekki fjölyrða nú, en ætla að víkja að því að svara nokkuð ræðu hæstv. fjmrh. Ég bjóst við, að hann mundi rjúka upp af því, sem ég sagði, því að það voru viðbrögð hans í fyrra. Hann taldi þá, að till. mínar væru barnaskapur einn og allt ofmælt, sem ég sagði. En það voru einmitt þau atriði, sem ég sýndi fram á hér í dag með tilvitnunum í Alþt., og það sýndi sig, að ég hafði ekki oftalað mig þá. Tekjur ríkissjóðs, sem ég áætlaði 32 millj. hærri en hann, urðu allmiklu hærri en ég hafði áætlað.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort ég vildi ekki draga úr útgjöldum til heilbrigðismála, til lækna og til landhelgisgæzlu. Ég skal upplýsa hæstv. ráðh. um það, að ég hef ekki borið fram neinar till. til lækkunar á þessum liðum. Þó er ég alls ekki viss um, ef þetta væri rannsakað, nema spara mætti eitthvað á þessum liðum, t.d. varðandi forstjóra Skipaútgerðarinnar og ýmsa liði við nýja Þór. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti, áður en hann lækkar kaup sjómanna, að athuga, hvort hann vildi ekki koma eitthvað til móts við formann fjvn., hvort ekki mætti athuga að lækka eitthvað laun sumra starfsmanna í ríkisstofnunum, sem hafa í árslaun 80–90 þús. kr., en ættu að hafa eftir launalögum 30–40 þús. Ef hæstv. ráðh. vill taka á móti einhverjum sparnaðartill., þá ætti hann að athuga þetta og kippa því í lag í samræmi við lög, áður en farið er að tala um að lækka laun sjómanna.

Þá spurði hæstv. ráðh., hvort ég vildi ekki láta fækka sýslumönnum. Það kæmi mjög til álita að fækka þeim, ekki síður en prestum. En áður en til þess kæmi, væri rétt að byrja á því að taka fyrir þá fjölgun á starfsmönnum hjá sýslumönnum, sem hefur orðið á hverju einasta ári, og einnig að hætta við hálfu fulltrúana í ráðuneytunum og yfirleitt að fjölga ekki starfsmönnum í opinberum stofnunum. Ég held, að enginn bóndi, sem hefði 16–17 manns í heimili, mundi fara að bæta við sig hálfs dags manni. Hann mundi heldur endurskoða og bæta bústjórnina, ef hann væri í sparnaðarhugleiðingum. Þetta mun hæstv. ráðh. hafa sézt yfir. Og þessi hálfi fulltrúi verður orðinn heili áður en árið 1952 er liðið.

Hæstv. ráðh. óskaði eftir till. Það eru ekki till., sem vantar. Það voru fjölmargar till. til sparnaðar í fjvn., en þær voru strádrepnar, eftir að meiri hl. hafði tekið sér umhugsunarfrest. Stjórnarflokkarnir höfðu tekið afstöðu á móti þeim, og þá er tilgangslaust að flytja þær till. (Fjmrh.: Sjálfsagt að flytja þær.) — Við 5. landsk. þm. bárum fram þá till., að unnið yrði að því nú, að ríkisstofnanir fengju ekki meira fé á þessu ári, 1952, en árið 1951. Þetta var fellt. Ég skal nefna dæmi um slíkar hækkanir. Dómsmrn. taldi sig þurfa í fyrra 426 þús., en nú 552 þús. Er þetta nauðsynlegt? (Fjmrh.: Hvað heldur hv. þm.?) Ég álit þetta ekki nauðsynlegt, af því að það er ekki starfsfólkið, sem á að segja ríkisstj. og Alþ. fyrir verkum. Þá er endurskoðunardeild fjmrn. Hún kostaði 550 þús. 1951, nú á hún að kosta á53 þús. Það er auk þess komið í ljós nú, að það er ekki einhlítt, að endurskoðunin kosti sem mest. Viðskmrn. fær árið 1951 137 þús., nú 226 þús. Í utanríkisþjónustunni er hvert einasta sendiráð með stórfellda hækkun. Og í stað þess að maður bjóst við, að utanríkisþjónustan mundi lækka vegna niðurlagningar sendiráðsins í Moskvu, sem lagt var niður, er hún nú hærri en nokkurn tíma áður. Ferðakostnaðarliðir til útlanda í sambandi við samninga og sendingu fulltrúa á alþjóðasamkomur hafa hækkað um hundruð þúsunda. Ég býst við, að það sé hægt að hafa þetta lægra með því að láta sendiráðin annast meira af þessum störfum. Lögreglukostnaður á að stóraukast á þessu ári, eða verða 3 millj. 513 þús. Er það m.a. til að koma til móts við óskir lögreglunnar í Reykjavík um fleiri bila. En bilar lögreglunnar skipta nú tugum. En það er sagt já við öllu, sem farið er fram á. Það er athugunarvert, að hæstv. ráðh. spurði mig, hvort ég vildi ekki láta lækka þá liði, sem sízt ætti að lækka. En hann lækkaði róminn, þegar kom að 10. og 11. gr. Hann spurði einnig, hvort ég vildi láta draga úr mæðiveikivörnunum. Ónei, ekki beinlínis, en mér blöskrar, að þetta skuli kosta á 16. millj. kr. Mér þykir það næsta ótrúlegt, að ekki skuli vera hægt að komast af með minna en 15-16 millj. kr. í þessar varnir, sem eru ekki öruggar. (Fjmrh.: Hvað er það, sem hv. þm. blöskrar í þessu máli?) Það er að vísu rétt, að það er sums staðar gætt sparnaðar. T.d. hafa verið veittar 10 þús. kr. til Alþýðusambands Íslands. Það var nú farið fram á 100 þús. Það var fellt. Þá 50 þús. Það var fellt líka. En það voru efni til þess að borga 30 þús. kr. vegna halla á útgáfu Freys, þrefalda þá upphæð sem A.S.Í. hefur fengið. (Forsrh.: Þetta er hreinn misskilningur.) Auk þess er ritstjóri Freys talinn hænsnaræktarráðunautur og hefur 4 þús. kr. í ferðakostnað vegna þess starfs. Búnaðarfélag Íslands fær þar að auki 240 þús. sérstaklega til bókaútgáfu. Og þó að ég vilji, að landbúnaðurinn fáí sem mest fé til nauðsynlegrar starfsemi sinnar, vil ég, að það fé komi bændum að gagni. Ég held, að það þurfi t.d. ekki að verja fé til þess að rannsaka, hvort borgi sig að fita lömb í 1/2 mánuð fyrir slátrun, eða að veita fé til þess að rannsaka, hvort borgi sig betur að ala gemlingana vel og hafa þá með lömbum eða ala þá illa og hafa þá gelda, eða til að rannsaka rakastig í fjósum sunnanlands. Það er bara gert sunnanlands. Hvers vegna ekki eins á Vestur-, Norður- og Austurlandi? Ég held, að lítill skaði væri skeður, þótt ekki væru gerðar tilraunir með fóðrun eða ormahreinsun á útigangshrossum. Ég efast líka um, að það sé nokkur ástæða til að gera tilraunir með votheysverkun eða sláttartilraunir, hvenær borgi sig bezt að slá grasið. Ég veit, að bændur eru nokkurn veginn færir til þess sjálfir að segja sér þetta. Þeir hafa í því aldagamla reynslu. Ég er alveg viss um t.d., að landbúnaðurinn bíður ekki neitt áfall við það, þó að ekki sé verið að kosta til þess af opinberu fé að gera tilraunir um, hvort það borgi sig að beita kúm á ræktað land. Þetta veit ég að bændur eru líka búnir að fá staðfest af reynslu. — Hæstv. forsrh., fyrrv. búnaðarmálastjóri, vefengdi, að tímaritið Freyr fengi 30 þús. kr. upp í útgáfukostnað. Þetta er þó sannað, að svo er. — Það er mörg matarholan í fjárl., sumar smáar að vísu, en þær eru svo margar, að það mundi gefa von til þess, að hægt væri að draga úr kostnaði víða á fjárl., ef hv. þm. beittu sér fyrir sparnaði á þeim og ef hæstv. ráðherrar væru húsbændur, hver hjá sér, yfir þeim greinum, sem þar kæmu til greina. En það er vitanlega mjög svo hlálegt, þegar hæstv. fjmrh. segir: Stjórnarandstaðan á að koma með tillögur um að breyta öllum stjórnarháttunum á þá leið, sem hún vill vera láta, — því að það er hið sama og að segja við stjórnarandstöðuna: Stjórnið þið landinu. Og hæstv. ráðh. lét liggja orð að því, að hv. 5. landsk. þm., sem væri eljumaður, gæti samið skrá yfir allar launagreiðslur í landinu. Svona svör og þessum lík eru vitanlega alveg út í hött. Það er vitanlega réttur þingmanna, að samin sé skrá yfir þessar launagreiðslur, sem ríkið innir af hendi. Og þau svör, sem ég gat um, og þeim lík eru vitanlega algerlega ábyrgðarlaust tal, eftir að ríkisstj. hæstv. og hennar flokkar hafa drepið hverja einustu till., sem hefði getað orðið til sparnaðar og hefur komið frá stjórnarandstöðunni. Það er ekki furða, þó að þessir menn biðji um fleiri sparnaðartill. frá stjórnarandstöðunni, eftir að stjórnarflokkarnir eru búnir að ganga af öllum sparnaðartill. dauðum, sem fram hafa komið frá stjórnarandstöðunni. Við höfum borið fram till. um að áætla sömu fjárveitingu og í fyrra til dómgæzlu og lögreglustjórnar o.fl. þess háttar og marka þannig stefnuna um að stöðva útþensluna í ríkisútgjöldunum. En þær till. okkar í stjórnarandstöðunni hafa allar verið felldar.

En það, sem mér þótti þó sérkennilegast við ræðu hæstv. fjmrh., var, að hann minntist ekki einu orði á ágreining okkar frá því í fyrra um það, hvernig háttað var áætlun fjárl. þá um tekjur ríkissjóðs. En það er höfuðmál, sem snertir afgreiðslu fjárlagafrv. nú, af því að hæstv. fjmrh. hefur hagað till. sínum nú nákvæmlega á sama hátt og í fyrra um alla tekjuhlið frv., þar sem tekjurnar á frv. eru of lágt áætlaðar, svo að nemur áreiðanlega mörgum milljónatugum. Alþfl. mun, eins og ég áðan sagði, bera fram till. um að áætla tekjuhlið fjárlagafrv. hærri, en þó þannig, að það sé alveg fullvíst, að sú tekjuáætlun verði ekki of há, eins og reynslan hefur nú sýnt, að tekjuáætlun Alþfl. í fyrra var of lág, en ekki of há. Jafnframt mun Alþfl. vera fús til að leggja fram till. fyrir 3. umr. um niðurfærslu á útgjöldunum, svo að jafnvægi fáist á fjárl. tekna- og gjaldamegin, þó að ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar gangi inn á að fella niður söluskattinn. En verði söluskatturinn ekki felldur niður, mun Alþfl. bera fram till. um hækkanir á gjöldum, þ.e.a.s., að hækkaðar verði fjárveitingar til verklegra framkvæmda fyrir þann tekjuafgang, sem þá er fyrirsjáanlegur á árinu 1952 að söluskattinum óniðurfelldum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða um þetta frekar að sinni. Ég tel, að það, sem hér stendur á, sé, að hæstv. ríkisstj. vilji ekki beita sér fyrir neinum sparnaði, þar sem drepnar hafa verið allar sparnaðartill. stjórnarandstöðunnar. Átti hún þó þess kost strax þegar fjvn. fór að starfa í haust, að gengið væri frá því þá þegar, hvort söluskattinum væri haldið áfram. Og ef hann ætti ekki að verða áfram, bauð stjórnarandstaðan þá ýtarlega samvinnu um sparnaðartill. á fjárl., svo að greiðslujöfnuður næðist þrátt fyrir það.