03.12.1951
Sameinað þing: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. þm. Barð., form. fjvn., sem ég vildi gera stutta athugasemd við. Ég kann ómögulega við það, að hann tali um, að við 6. landsk. þm. höfum ekki haft vitneskju um það, hve mikill kostnaður yrði við þær framkvæmdir, sem hafa verið gerðar á brimbrjótnum í Bolungavík á síðastl. sumri. Það er nefnilega svo fráleitt, að við, sem höfum barizt fyrir því, að bætt yrði það geipitjón, sem hefur orðið á þessu mannvirki haustið 1950, höfum ekki getað gert okkur ljóst jafnóðum og verkið var unnið, hvað það kostaði. En hitt er svo rétt hjá hv. form. fjvn., að hvorki okkur né hann né heldur yfirstjórn hafnarmálanna óraði fyrir því, hvað þetta verk yrði dýrt. Það er rétt, að þegar till. var flutt á síðasta þingi um svipaða heimild og hér liggur fyrir, munu hafa verið nefndar upphæðir, sem voru miklu lægri en áætlun verkfræðings vitamálastjórnarinnar varð. En hv. þm. veit líka, að slíkum áætlunum geigar oft og kannske ekki sízt á tímum eins og þeim, sem við lifum á, þegar verðlag breytist frá mánuði til mánaðar. Ég skal hins vegar verða við þeirri ósk hv. þm. Barð. að taka till. aftur til 3. umr. Vil ég mjög gjarnan ræða við hv. fjvn. um hana. En það ræður af líkum, að slíku verki verður ekki hætt fyrr en því er fullkomlega lokið. Það væri vissulega fráleitt að hætta í miðju kafi við hafnarmannvirki sem þetta, hvort sem við erum þar komnir út á hála braut, þegar við hlaupum þannig undir bagga með þeim, sem hafa orðið fyrir óhappi. En hv. þm. Barð. veit, að það að neita um hjálp eins og þá, sem hér um ræðir, að ríkið borgi tjónið, það þýðir, að þessi staður leggist í auðn og örbirgð. Þessi staður hefur aðeins 800 íbúa, og ris því byggðarlagið ekki undir slíkum milljóna kostnaði, sem kemur til viðbótar við þessa framkvæmd, sem þeir hafa lagt hart að sér fyrir á undanförnum árum. Ég veit, að hv. þm. Barð. skilur þetta vel, og þess vegna fjölyrði ég ekki um það.

Svo er annað atriði, sem ég vildi leiðrétta. Það er alveg fráleitt, að ég hafi í minni stuttu framsöguræðu hér gefið í skyn, að till., sem ég flutti um slysabætur vegna slyssins á Bolungavíkurvegi, væri byggð á því, að þessi vegur væri óöruggur og að ríkinu bæri þess vegna að bæta það tjón, sem stafaði af þeim slysum, sem á honum yrðu. Ég gæti ekki hafa haldið þessu fram, vegna þess að það er mín skoðun, að þessi vegur sé ekki miklu óöruggari en fjöldamargir aðrir vegir þessa lands.

Hins vegarbyggði ég till. mína og hv. 6. landsk. þm. á því, hversu sérstætt og sérstakt þetta slys var, hversu gersamleg tilviljun réð því, að þetta hörmulega og sorglega slys varð. Um þetta skal ég ekki ræða frekar hér, til þess að fara ekki að rekja mjög ömurlega atburði. Ég tel einmitt, að vegna þess, hversu sérstætt þetta slys var, þá sé hættandi út á þá braut fyrir Alþingi að bæta líf og limi og eignir þeirra aðila, sem urðu fyrir þessu hörmulega slysi, að svo miklu leyti sem það er á okkar valdi.

Ég skal svo alls ekki fara að kappræða við hv. form. fjvn., hv. þm. Barð., um skiptingu vegafjárins. Við stöndum þar trúlega allir í óbættum sökum hverjir við aðra, hv. þm., að okkur finnst stundum, að allir aðrir en við sitji meira sólarmegin gagnvart till. frá hv. fjvn. um skiptingu vegafjárins. Ég skal ekki fara að gera það að neinu umtalsefni hér. En lagt er til, að kjördæmi hv. form. fjvn. fái 705 þús. kr. til brúa og þjóðvega, en N.-Ísafjarðarsýslu, sem er í sama landshluta, eru hins vegar áætlaðar 425 þús. kr. Mér dettur ekki í hug að angra minn vin, hv. þm. Barð., með því. að segja, að þetta sé of mikið fyrir hans viðienda og veglausa hérað. En ég hygg, að sá mismunur, sem er á fjárveitingu til þessara tveggja héraða, styðjist ekki við réttlæti nema að afar litlu leyti. N.-Ísafjarðarsýsla er jafnvegalítil og Barðastrandarsýsla og fjarlægðirnar eru þar svipaðar og aðstæður fólksins erfiðar. En ég skal ekki fara í langan meting við hv. þm. Barð. um þetta. Ég vil styðja hann og hann trúlega mig, — eða að minnsta kosti ég hann, — til þess að fá fé svo sem frekast er unnt til þess að leggja vegi um sýsluna. En ég vænti, að eftir að ég hef vikið að þessu máli, þá styttist bilið milli sýslnanna, þegar fjárlög verða samin næst og hv. fjvn. leggur á ný fram till. um skiptingu vegafjárins. Hærri kröfur geri ég nú ekki að þessu sinni, og hygg ég, að hv. þm. Barð. þurfi ekki að kvarta undan kröfum mínum í þessu efni.