13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í umr. hér í gærkvöld talaði fyrstur af hálfu ríkisstj. hæstv. forsrh. Hann hóf mál sitt með umvöndun við stjórnarandstöðuna og sagði, að hún yrði að vera ábyrg og gæta hófs í ádeilum sínum. Hæstv. forsrh. tók svo til við vandaverk sitt að finna ríkisstj. sinni nokkrar málsbætur, ef unnt væri. Þá sagði hann, að menn yrðu að minnast þess, að órofasamband væri á milli þess ástands, sem nú væri við að glíma í þjóðmálum okkar, og þess ástands, sem verið hefði, þegar stjórn hans tók við völdum og einnig þess, sem verið hefði, þegar stjórn Stefáns Jóhanns tók við völdum. Svo kom lýsing hæstv. forsrh. á því ömurlega ástandi, sem var í íslenzkum þjóðmálum, þegar stjórn Stefáns Jóhanns lét af völdum. Lýsing hæstv. forsrh. var eitthvað á þessa leið: Komið var fram á árið 1950 og engin fjárlög afgreidd fyrir það ár, ríkissjóður gersamlega févana, allt flækt í höftum og skömmtunum, almenningur leið af svartamarkaðsokri, enginn gat gert út nokkra fleytu, algert atvinnuleysi blasti við, allt fjárhagslíf þjóðarinnar var á glötunarbarmi. — Þannig var lýsing hæstv. forsrh. á ástandinu, sem við blasti, þegar stjórn hans tók við. Þetta ástand hafði skapazt í tíð þeirrar ríkisstj., sem flokkur hans sjálfs, Framsfl., átti sæti í í 3 ár.

Þau 3 ár, sem Framsókn átti fulltrúa í fyrrverandi ríkisstj., var sú stj. góð. Þá töluðu fulltrúar flokksins af kappi, bæði á þingi og í útvarp, og hældu stj. á hvert reipi. En hvað kemur til, að sú stj., sem áður var góð stj. í ræðum Eysteins Jónssonar og Bjarna Ásgeirssonar, er nú orðin þessi stj., sem nærri var komin með allt þjóðarbú Íslendinga í glötun? Ástæðan er einfaldlega sú, að hin illræmda stjórn Stefáns Jóhanns, íhalds og Framsóknar þarf nú að vera enn þá verri en hún í rauninni var, til þess að núverandi ríkisstj. geti skapað sér þannig samanhurð, að frambærileg afsökun geti talizt, þegar verk hennar nú í dag eru tekin til athugunar. — Það eru sannarlega kaldhæðin örlög fyrir Eystein Jónsson og þá aðra, sem voru í fyrrverandi ríkisstj. og eru jafnframt í þessari, að þurfa nú í dag að afsaka stjórnarglöp sín með því, að þeir hafi í fyrrv. stj. gert enn þá meiri afglöp.

Ræða hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, hér í útvarpið í gærkvöld var fyrst og fremst afsökun á þeim gífurlegu tolla- og skattaálögum, sem hann manna mest stendur fyrir að leggja á þjóðina. Hann neitar því nú afdráttarlaust að hafa lofað því að létta af söluskattinum við samþykkt gengislækkunarinnar. Slík neitun er haldlaus, því að hvort tveggja er, að í l. um söluskattinn stendur beinlínis, að sá skattur sé á lagður til þess að standast greiðslur vegna fiskábyrgðar ríkissjóðs, einnig eru ótal sannanir fyrir því, að blað hans og yfirleitt allir, sem að gengislækkuninni stóðu, gerðu ráð fyrir að afnema þá skatta, sem beint voru á lagðir vegna fiskábyrgðarinnar, um leið og sú ábyrgð var úr gildi felld. Hæstv. ráðh. viðurkennir, að álögur ríkisins á þegnana séu miklar, en telur þó, að þær séu tæplega nógu miklar eftir útliti á komandi ári.

Þá vék ráðh. að sparnaðarmöguleikum í rekstri ríkisins. Niðurstaða hans varð líka sú, sem reynslan hefur sýnt í stjórnartíð hans: „Ekkert er hægt að spara, — eða hvað á að spara?“ Svo kom fáránleg upptalning á ýmsum fjárveitingum ríkisins. — Hæstv. fjmrh. veit vel, að þenslan á ríkisbákninu hefur verið jöfn og stígandi í mörg undanfarin ár. Hann veit, að hann sjálfur og þeir, sem stjórnarstólana hafa fyllt, hafa ekkert viljað á sig leggja til þess að stöðva þennan vöxt í ríkisbákninu. Ég skal nefna örfá dæmi til sönnunar þessu. Árið 1949 var kostnaður við ríkisstj. 5.4 millj. samkv. fjárl., en er áætlaður 10.8 millj. 1952. Hækkunin er 100%. — Árið 1949 var kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn áætlaður 11.7 millj., en 1952 21.8 millj. — Á sama tíma hækka framlög til hafnarmála um 18% og til vegamála um 30%.

Það er hægt að spara í rekstri ríkisins á fleiri vegu en lækka laun starfsmannanna. Það er sannarlega hægt að fækka óþörfum embættum og minnka starfslið í stað þess að auka það frá ári til árs.

Þá kom hæstv. fjmrh. að sínu aðalmáli, sem er tekjuafgangur ríkissjóðs. Hann taldi, að þessi ríflegi tekjuafgangur væri beinlínis undirstaðan að gengi atvinnulífsins. „Það, að ríkissjóður hefur tekjuafgang, eykur á lánveitingar til atvinnuveganna“, segir hæstv. ráðh., „því að með því er ekki hætta á, að ríkissjóður dragi til sín fé bankanna, sem aftur geta þess í stað veitt framleiðslunni þeim mun ríflegri lán.“ „Hallalaus búskapur kemur í veg fyrir lánasvelti atvinnuveganna“, sagði hæstv. ráðh. Hvaðan kemur sá fjmrh., sem svona talar? Þekkir hann ekki það lánasvelti, svo að notuð séu hans eigin orð, sem atvinnuvegirnir þjást af nú í dag og þjást af meira nú í dag en nokkru sinni áður? Heldur hann, að það sé ráð við fjárþörf atvinnuveganna að láta ríkissjóð rífa í sig 100 millj. kr. meira á einu ári en venjulega af atvinnuvegunum og landsmönnum, að slíkt sé leið til þess að bæta úr fjárþörf atvinnuveganna? Það kann sannarlega ekki góðri lukku að stýra, ef fjmrh. landsins er þeirrar trúar, að auknir skattar og tollar, að síauknar ríkisálögur á atvinnuvegína og landsmenn séu atvinnuvegunum til framdráttar. Nei, skattpíning ríkisvaldsins, fyrst og fremst gegnum söluskatt og tolla, miðar nú stórkostlega að því að draga mátt úr atvinnulífinu og hækka verðlagið í landinu gífurlega og torveldar reksturinn.

Þá talaði formaður Sjálfstfl. og vísaði til landsfundarræðu sinnar. Hann taldi, að gengislækkunin hefði náð tilgangi sínum. „Hallarekstur í atvinnulífinu hefur verið stöðvaður, og engin ný verðhækkun hefur myndazt innanlands síðan genginu var breytt“, sagði atvmrh. En aðalsigur ríkisstj. kvað hann þó vera, að hún hefði bægt frá dyrum almennings allsherjar atvinnuleysi. Heldur skýtur þetta nú skökku við það, sem staðreyndirnar segja, eða hvaðan hefur formaður Sjálfstfl. þær upplýsingar, að hallareksturinn í atvinnulífinu hafi verið stöðvaður eftir gengisbreytinguna? Eru þær upplýsingar kannske frá iðnaðinum í Rvík, sem nú hrynur blátt áfram niður, eða eru upplýsingarnar frá Landssambandi útvegsmanna, sem nýlega hefur reiknað út, að nú sé stórkostlegra tap á meðalfiskibát á vetrarvertíð en nokkru sinni áður, þó að reiknað sé með þeim gjaldeyrisfríðindum áfram, sem voru á þessu ári? Nei, upplýsingar atvmrh. eru eitthvað litaðar í þessu efni. Svipað er að segja um þá furðulegu staðhæfingu, að engin ný verðhækkun hafi myndazt innanlands síðan gengisbreytingin var gerð, eða eins og sagt er: Engin ný verðbólgumyndun, sem er af innlendum ástæðum, hefur átt sér stað síðan. Þetta er undraverð fullyrðing. Hver verðhækkunin — líka bein innlend verðhækkun — hefur rekið aðra síðan genginu var breytt, og samkvæmt hinni nýju vísitölu hefur verðlagið hækkað um hvorki meira né minna en 51%.

Svo rekur þó furðulegasta fullyrðingin lestina. Hæstv. ráðh. sagði: „Ríkisstj. hefur bægt frá dyrum almennings allsherjar atvinnuleysi.“ Þetta hljómar napurlega í eyrum þess fólks, sem nú í hundraðatall hefur misst atvinnu sína, og þess fólks, sem barizt hefur við atvinnuleysi undanfarna mánuði. Menn minnast þess, að þegar núverandi ríkisstj. tók við, var ekki verulegt atvinnuleysi, en nú er ástandið ólíkt eða margfalt verra, en samt hælir stjórnin sér af því að hafa sigrazt á mesta bölinu, hinu almenna atvinnuleysi, eins og hæstv. atvmrh. sagði. Hvílíkt háð! Hvílík fjarstæða! Það er augljóst á ræðum ráðh., að ríkisstj. er ánægð með gerðir sínar og telur allt miða í rétta átt í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar.

Staðreyndirnar eru þessum fullyrðingum heldur óþægilegar. Rifjum upp í örfáum atriðum nokkrar helztu staðreyndirnar úr atvinnu- og fjárhagslífi þjóðarinnar eins og þær blasa við hvers manns sjónum í dag. Fjárskortur atvinnuveganna hefur aldrei verið meiri en nú í dag. Blátt áfram öll fyrirtæki, ung og gömul, kvarta undan fjárþröng. Lánsfjárskorturinn hefur beinlínis lokað mörgum fyrirtækjum og önnur verða að draga saman rekstur sinn vegna fjárskorts. Lánsfjárkreppan magnast með hverri viku. Þetta vita allir, sem nokkuð koma nærri atvinnurekstrinum. Svo kemur hæstv. ríkisstj. og segir, að jafnvægið í atvinnulífinu sé að nást og að skattaálögur hennar örvi lánamöguleika bankanna. Atvinnuleysið fer ört vaxandi. Í verksmiðjuiðnaði hér í borginni unnu 1200 manns í byrjun þessa árs. Í árslok verða þeir 500. — Samkvæmt nýjum skýrslum stéttarfélaganna í Reykjavík eru nú taldir atvinnulausir eða hafa fengið uppsögn á atvinnu sinni um 1200 manns. Iðnaðurinn hrynur beinlínis niður. — Úti um land er atvinnuástandið þó enn verra. Hæstv. ríkisstj. hefði haft gott af því að heimsækja nokkur þorp og kaupstaði úti á landi. Þar er víðast hvar hið sárasta atvinnuleysi. Þar hafa flestir vinnufærir menn lítið sem ekkert haft að gera í allt haust. — Er þetta jafnvægið í atvinnumálunum, sem ríkisstj. segir að óðum sé að koma?

Nei, hið sanna er, að ástandið í atvinnumálunum fer ört versnandi, og er nú svo komið, að víða verða bæjar- og sveitarfélög að leita til ríkisvaldsins með bráðabirgðafyrirgreiðslu vegna gífurlegs framfærsluþunga. Þetta veit ríkisstj. Bæjarfélögin sækja nú fast á að fá hluta söluskattsins. Í sambandi við þessa fjárbeiðni bæjarfélaganna er nú stríð mikið á stjórnarheimilinu. Framsóknarráðh. hóta að segja af sér, ef nokkuð af söluskattinum verður látið renna til bæjarfélaganna. Rétt er að spyrja þann fulltrúa íhaldsins, sem hér talar á eftir: Ætlar íhaldið að glúpna undan hótunum Framsóknar í þessu máli? — Já — eða nei.

Þannig er ástandið í dag: Atvinnutækin eru að stöðvast. Lánsfjárkreppan dregur úr framleiðslunni. Verzlunin er gróðalind braskara. Atvinnuleysið magnast. Dýrtíðin fer sívaxandi. Sú vísitala, sem stjórnarflokkarnir tóku við í ársbyrjun 1949, 310 stig, er nú í um 600 stigum. Ríkisálögur í formi tolla og söluskatts vaxa stöðugt.

En hvernig víkur þessu við? Er virkilega þörf á því, að ástandið í atvinnumálum Íslendinga sé svona báglegt? Hvað veldur? Íslendingar eiga mikil og góð framleiðslutæki. Enginn flokkur kvartar undan því, að atvinnutæki vanti. Og þjóðin var svo lánsöm að eignast öll þessi tæki án skuldasöfnunar erlendis. Hún eignaðist þau fyrir þann gróða, sem henni áskotnaðist á stríðsárunum. Atvinnutækin eru til, og fólkið, sem við tækin á að vinna, er einnig til og vantar atvinnu. Á hverju stendur þá? Geta þessi tæki ekki framleitt nóg fyrir þjóðina? Eða eru vandkvæði á að koma framleiðslu þeirra í verðmæti?

Þrátt fyrir aflabrest á síldveiðum og heldur lélegan afla á nokkrum stöðum á landinu á öðrum veiðum er augljóst, að framleiðslutæki okkar geta framleitt yfrið nóg fyrir batnandi lífsafkomu allrar þjóðarinnar. Og markaðir fyrir sjávarvörur okkar eru nægir og góðir. Í ár hefðum við getað selt meira magn af öllum fegundum sjávarafurða okkar en við gerum. Við höfum beinlínis ekki átt nægan saltfisk til upp í sölur, sem til boða stóðu. Sama er að segja um frysta fiskinn. Og það sama gildir unt allar tegundir sjávarafla. Markaðirnir eru til, og verðlagið hefur yfirleitt verið hækkandi í ár.

En á hverju stendur þá? Tækin eru til, fólkið bíður eftir atvinnu, og markaðirnir vilja meiri framleiðslu.

Við höfum rekið atvinnutæki okkar illa vegna rangrar fjármálastefnu og illrar stjórnar í landinu. Ég skal nefna dæmi: Á hverju ári hefur bátaflotinn tapað 1–2 mánuðum framan af vetrarvertíð vegna seinagangs hjá ríkisstj. um aðkallandi ráðstafanir vegna rekstrarins. Með þessu höfum við tapað tugum milljóna í framleiðslu. Mikill hluti bátaflotans hættir rekstri, þegar komið er heim af síldveiðum á haustin. Orsökin er sú, að engin fyrirgreiðsla fæst með rekstrarlán, en ríkisstj. hefur látið þau mál afskiptalaus. Allt frystihúsakerfi landsins hefur verið nær ónotað mikinn hluta sumars og allt haustið, þó að með hyggilegum ráðstöfunum hefði verið hægt að tryggja rekstur þeirra. fyrsta stjórnarári núverandi ríkisstj. lá mestur hluti togaraflotans um fjóra mánuði í verkfalli. Gjaldeyristap af því hefur varla verið undir 80 millj. kr. Ríkisstj. virtist láta sér í léttu rúmi liggja, þó að þannig væri haldið á málunum, og nú virðist siga í sama horfið. Sams konar togarastöðvun er nú fram undan, og verður sú stöðvun eflaust ekki skemmri tíma, ef afstaða ríkisvaldsins verður lík og áður. Þá er og augljóst, að togarafloti landsins hefur engan veginn verið rekinn á þann hátt, sem þjóðarheildinni kemur að mestu gagni. Togararnir hafa á mjög vafasömum tíma árs siglt með afla sinn óunninn á erlendan markað, en með því hefur mikil atvinna tapazt landsmönnum og mikill gjaldeyrir. Orsök þessa hefur verið sú, að rekstrarfé hefur skort til innanlandsvinnslu á aflanum.

Ef atvinnutæki þjóðarinnar, fiskibátar, togarar, frystihús, fiskverkunarhús, að ógleymdum iðnaðarfyrirtækjum, væru rekin af fullum krafti með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, þá væri auðvelt að útrýma öllu atvinnuleysi úr landinu nú. En til þess að svo sé, þarf að veita fjármagni þjóðarinnar í framleiðsluna og til þeirra atvinnufyrirtækja, sem eru í beinu sambandi við framleiðsluna.

Ég sá þess nýlega getið í blaði, að Englandsbanki hafi gefið út þá yfirlýsingu, að hann mundi nú einbeita öllu fjármagni sínu í þá átt að auka og efla framleiðslu Breta. Slík yfirlýsing þyrfti að koma hér frá bönkum og ríkisstj.

Nú ríður á að einbeita fjármagni landsmanna að aukinni framleiðslu, en miða ekki allar aðgerðir stjórnarvaldanna að því að draga úr lánveitingum. Það verður að snúa aftur af þeirri braut lánsfjárkreppu, sem dregur saman framleiðsluna og minnkar á þann hátt þjóðartekjurnar.

Ég skal taka tvö dæmi, sem glögglega ættu að sýna, hvernig hægt er að auka þjóðartekjurnar og skapa aukna atvinnu í landinu með hagkvæmari rekstri togaranna. Ef 25 nýsköpunartogarar hefðu stundað veiðar fyrir frystihús í október, nóvember og desember, — en þessa mánuði er mjög hæpið að láta yfir 40 skip stunda siglingar með ísfisk á Bretlandsmarkað, — þá má ætla, að útflutningsverðmæti þess afla, sem þeir hefðu lagt hér á land, næmi um 70 millj. kr. Hefðu þessi skip siglt þetta tímabil á Bretlandsmarkað, hefði útflutningsverðmæti þeirra varla verið yfir 20 millj., eða gjaldeyrisvinningur um 50 millj. Að vísu þarf nokkru meiri gjaldeyrisnotkun vegna innanlandsvinnslunnar. Vinnulaun, sem skapazt hefðu af þessum rekstri, má áætla um 25 millj. kr., en það mun samsvara stöðugri vinnu um 2000 karlmanna og 2000 kvenna þessa þrjá mánuði. — Annað dæmi: Hugsum okkur 30 nýsköpunartogara, sem stunda saltfiskveiðar við Grænland í þrjá mánuði. Ef þessi skip sigla með saltfiskinn til Danmerkur, elns og þau gerðu mörg í sumar og haust, ná þau aðeins tveim túrum, en ef þau leggja aflann upp hér heima, mundu þau eins vel ná þrem túrum á þessum tíma. Með hliðstæðu aflamagni má áætla, að útflutningsverðmæti aflans, ef siglt væri til Danmerkur, væri um 33 millj. kr. En væri afli skipanna seltur hér á land og helmingur aflans fullverkaður, þá má áætla útflutningsverðmætið um 70 millj. kr., eða gjaldeyrisaukning um 37 millj. kr. Vinnulaun mundu líklega skapast sem nemur 15–20 millj. kr. En til þess að þetta sé hægt, verður að stórauka fjármagn í rekstri framleiðslunnar. Og ríkisvaldið verður að sjá um, að réttur framleiðslunnar sé ekki fyrir borð borinn og að saman fari hagsmunir þeirra, sem að framleiðslunni vinna, og þjóðarheildarinnar.

Sá tími styttist nú óðum, sem núverandi stjórnarflokkar hanga saman í ríkisstj. Fleiri og fleiri dæmi sanna, að þeir eru farnir að hugsa til hreyfings. Kannske stökkva þeir í sundur næsta sumar og kenna þá hvor öðrum um allt það illa, sem þeir sameiginlega hafa unnið. Þá verður leitað til háttvirtra kjósenda og þeir beðnir um stuðning. Þá verður komið til ykkar, sem nú eruð atvinnulaus. Þá verður komið til ykkar, sem gefizt hafið upp við atvinnurekstur. Þá verður kallað á stuðning húsnæðisleysingja, og þá verða loksins gerðar reisur hinna fínustu manna þjóðarinnar út í þorp og kaupstaði og út um dreifbýli landsins til þess að sanna ykkur, sem þar búið, að dýrtíðin skuli minnka, að atvinnan skuli aukast, að stórframkvæmdir skuli hafnar o.s.frv., o.s.frv., bara ef þið viljið leggja blessun ykkar yfir ráðsmennsku þeirra manna, sem nú stjórna landinu á þann hátt, sem sár og bitur reynsla ykkar segir til um. Reynslan er fengin. Hún er ólygnust. En viðbrögð fólksins þurfa að verða samkvæmt reynslunni. Valdhafarnir verða að fá verðug svör. Þá á að afgreiða eins og sjómenn mundu orða það: Það á að gefa þeim mönnum pokann sinn, sem reynzt hafa liðléttingar á þjóðarskútunni.