13.12.1951
Sameinað þing: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þær umræður, sem hér fóru fram í gærkvöld af hálfu sósíalistaflokkanna, leiddu ekkert nýtt í ljós og voru að mestu endurtekning á gömlum slagorðum, sem farið er að slá í, og yfirlýsing um vanmátt þeirra til þess að færa fram nokkrar jákvæðar tillögur um úrlausn vandamála líðandi stundar. Þeir eru góðir verkamenn til þess að rífa niður, en þeir hafa aldrei verið smiðir til að byggja neitt upp.

Margir munu hafa brosað í gærkvöld, er hv. 5. landsk., Ásmundur Sigurðsson, stritaðist við að telja hlustendum trú um, að Íslendingar hefðu orðið stórum fátækari við að taka á móti nokkrum hundruðum milljóna króna í gjafafé frá Marshallstofnuninni, sem nú á að nota til stórkostlegra framkvæmda. Mörgum mun einnig hafa þótt kyndug ástæðan hjá hv. 4. þm. Reykv., Haraldi Guðmundssyni, fyrir fólksfækkun íðnaðarins. Það var vegna þess, að tilbúnar kápur eru fluttar inn eins og hver vill fyrir bátapeninga með 60% aukaálagi, en það getur iðnaðurinn ekki staðizt. Því miður er þetta nú ekki svona einfalt.

Eitt af þeim málum, sem nú eru ofarlega á baugi, eru erfiðleikar iðnaðarins og sá samdráttur, sem orðið hefur á starfsemi hans. Sósialistaflokkarnir gera nú mikið úr þeirri fólksfækkun, sem orðið hefur í ýmsum iðngreinum, og segja, að ríkisstj. sé að leggja iðnaðinn í rúst. Slíkar fullyrðingar, jafnillkvittnislegar og barnalegar og þær eru, eru ekki vel til þess fallnar að finna samhenta og velviljaða aðgerð til lausnar þessu máli.

Innlendur iðnaður hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum áratug. En hann hefur vaxið upp, ef svo mætti segja, á óhollum tíma. Hann hefur dafnað í skjóli innflutningshafta, sem vernduðu hann fyrir samkeppni erlendra vara. Það mætti segja um iðnaðinn eins og mannfólkið, að enginn verður óbarinn biskup.

Síðan innflutningshöftin voru afnumin að verulegu leyti, hafa ýmsar iðngreinar komizt í erfiðleika vegna samkeppni erlendra vara. Má í því sambandi nefna skógerð, dúkagerð og prjónles. Fólki hefur mjög fækkað í þessum greinum, sem hafa undanfarið veitt talsverða atvinnu. Það er illt til þess að vita, að svo er komið, þrátt fyrir það að mörg fyrirtæki í þessum iðngreinum hafa nýjan og góðan vélakost. Það, sem hér er að gerast, er, að þessi iðnaður verður nú í fyrsta skipti fyrir alvöru að taka þátt í samkeppni við sams konar erlenda framleiðslu. Hann gengur nú, ef svo mætti segja, í fyrsta sinn til prófs, og það sýnir honum, að hann þarf að ýmsu leyti að læra betur, ef hann á að halda sínum hlut í samkeppni við útlendu framleiðsluna. Að mínum dómi er þessi prófraun til góðs, bæði fyrir neytendurna í landinu og þessar framleiðslugreinar. Þær hafa að líkindum öll skilyrði til þess að keppa við erlendu vörurnar með breyttum framleiðsluháttum og meiri vöruvöndun. Margar iðngreinar eru samkeppnishæfar og halda velli. Sá stofninn, sem grænn er, visnar ekki.

Uppvaxandi iðnaði fylgja mörg vandamál og eitt mesta þeirra er að sjá þeim iðnaði farborða, sem heilbrigður er og þjóðinni nytsamlegur. Hins vegar er engum greiði gerður með því að vernda þann iðnað, sem á engan tilverurétt, er neytendum til byrði fjárhagslega eða bætir ekki úr þeirri þörf, sem honum er ætlað.

Það er barnalegt að halda því fram, að ríkisstj. sé vitandi vits að reiða öxina að rótum iðnaðarins með því að gefa frjálsan innflutning iðnaðarvara. Innflutningur hefur verið gefinn frjáls til þess að almenningur í landinu gæti átt kost á sem ódýrustum og beztum vörum. En af því leiðir einnig, að íslenzki iðnaðurinn, með þeirri vernd, sem hann hefur, verður að bjóða jafngóða kosti og erlenda varan. Hins vegar er ljóst, að ráðstafanir þarf að gera til þess, að iðnaður, sem heilbrigður er og æskilegur, hafi nægilega vernd. En ár því verður ekki skorið meðan ströng innflutningshöft eru í gildi, hvaða iðnaður er heilbrigður og samkeppnisfær.

Iðnaðurinn er orðinn stór þáttur í atvinnurekstrinum í landinu. Þess vegna á að vernda hann, að svo miklu leyti sem bað samrýmist hagsmunum almennings. En við megum ekki verða uppnæmir samstundís og veruleikinn gefur til kynna, að sumar iðngreinar geti ekki lífað nema í skjóli strangra innflutningshafta. Ef til vill þurfa sumar hverjar af þessum iðngreinum ekki annað en að taka upp önnur vinnubrögð, er samrýmast betur hinu nýja viðhorfi, til þess að þær hafi nóg að starfa.

Ég álít sjálfsagt að veita iðnaðinum alla þá aðstoð, sem hægt er, ekki með því að loka hann inni, svo að enginn gustur samkeppni komist að honum, heldur með því að veita honum sanngjarna vernd og greiða götu hans til þess að fá hráefnin, sem henta honum bezt og þar sem þau eru ódýrust.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að skýra nokkru nánar, hvar erfiðleikar iðnaðarins koma aðallega fram.

Samkvæmt greinargerð Iðju, félags verksmiðjufólks, hefur fækkað hjá 18 verksmiðjum um 320 manns síðan í árslok 1949 til 1. des. 1951. Þar sem hér er um tveggja ára tímabil að ræða, verður ekki af skýrslunni séð, að hve miklu leyti fólksfækkunin stafar af áhrifum hins frjálsa innflutnings. Vafalaust hefur talsverð fækkun átt sér stað áður en frílistinn var gefinn út, eða á árinu 1950, svo að samdrátturinn í iðnaðinum á sér dýpri rætur.

Þeim verksmiðjum, sem hafa neyðzt til að draga saman seglin og skýrsla liggur fyrir um, má skipta í þrjá aðalflokka: ullar- og prjónaverksmiðjur, sem höfðu 1950 138 manns, en hafa nú 23, skó- og leðurgerð, er höfðu áður 151 mann, en nú 76, og kjóla- og fatagerð, er höfðu 100 manns, en nú 34. Þetta eru fáar iðngreinar og allur samdráttur í þeim stafar ekki af erlendri samkeppni.

En svo er önnur hlið þessa máls, sem lítið er minnzt á. Með auknu verzlunarfrelsi hafa sumar verksmiðjur aukið starfsmannafjölda sinn. Vinnufatagerð Íslands hafði um 30 manns, þegar höftin voru ströngust, en nú hefur þessi verksmiðja 80–90 manns í vinnu, eftir að innflutningur var gefinn frjáls. Sama er að segja um raftækjaverksmiðjuna í Hafnarfirði. Fyrir 2 árum hafði sú verksmiðja 55 manns í vinnu, en nú hins vegar 71.

Þetta er gersamlega ópólitískt mál, þótt kommúnistar reyni að gera það að pólitísku árásarefni á ríkisstj. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir almenning í landinu, bæði að því er varðar atvinnu í iðnaðinum og verðlag á framleiðslu hans. Ríkisstj. mun leitast við að leysa það vandamál á þann hátt, er horfir til mestra hagshóta fyrir allan almenning, en ekki á kostnað hans, og mun hún þó taka allt tillit til iðnaðarins í landinu, sem hægt er.

Ég ætla að minnast á annað mál, sem mikið hefur verið rætt um. Alþfl. hefur reynt að gera frjálsa verðlagið að stórmáli til árásar á ríkisstj., en tekizt illa, enda var málið rekið af flokknum með miklum óheilindum og lítilli sannleiksást.

Athugun á verðlaginu og álagningunni hefur verið haldið áfram. Skýrslur liggja nú fyrir um álagningu í október, og verða þær afhentar blöðunum til birtingar eftir nokkra daga. Sérfræðingur Alþfl., hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, hefur fengið að kynna sér þessar skýrslur. þótt þær hafi ekki enn verið birtar, til þess að honum gefist kostur á við þessar útvarpsumræður að miðla almenningi af þekkingu sinni og á þann hátt, sem bezt hentar tilgangi hans. Til þess að gera honum auðveldara að skýra rétt frá málinu, ef hann hefði hug á því, samþykkti ég, að gerðar væru fyrir hann sérstakar skýrslur í sambandi við bátagjaldeyrinn, því að fyrir honum hefur hann mestan ábuga. Geri ég ráð fyrir, að hann muni ætla sér að sanna, hvað mikil sé álagningin á allan bátagjaldeyrinn samkvæmt því sýnishorni, sem hann leggur til grundvallar.

Í því sambandi vil ég benda á ummæli atvmrh. í umræðunum í gær, er hann sagði, að hugsunarvilla stjórnarandstæðinga í þessu máli lægi í því, að þeir byggðu á skýrslum, sem næðu aðeins til fimmtugasta hluta alls bátagjaldeyrisins. Færði hann rök fyrir því, hversu þetta væri villandi mynd, þar sem engum heilvita manni kæmi til hugar, að hægt væri að leggja á allan bátagjaldeyrinn eins mikið og fyrsta 50. hlutann. Komi Gylfi Þ. Gíslason með slíka fullyrðingu, er hann kominn út á hálan ís. Er því hætt við, að myndin, sem hann vill sanna, verði ekki hárrétt og að það fari fyrir honum eins og blindu mönnunum, sem vildu vita, hvernig fíllinn liti út. Sá fyrsti tók utan um fót fílsins og fullyrti, að hann væri eins og stórt tré.

Þingmaðurinn hefur hins vegar látið í ljós, að hann hafi engan áhuga fyrir upplýsingunum um álagningu á matvörur, sem liggur fyrir í skýrslunum. Er varla hægt að draga af því aðra ályktun en þá, að þingmaðurinn hefur engan áhuga fyrir lágri álagningu. Er honum óneitanlega nokkur vorkunn í því efni.

Þegar þetta mál var til umræðu fyrir nokkru hér í þinginu, lét ég það álit í ljós, að þær misfellur, sem komið höfðu fram í álagningunni við fyrstu athugun, mundu lagast eftir nokkurn tíma, en verðlagið mundi þurfa marga mánuði til að ná eðlilegu ,jafnvægi. Þetta hefur nú svo greinilega komið í ljós við þá athugun, sem nú hefur farið fram, að ekki verður um villzt.

Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið

frá verðgæzlunni, er niðurstaðan þannig af þeim tveimur athugunum, sem gerðar hafa verið:

Vöruverðshækkun að meðaltali frá fyrri verðlagsákvæðum, bæði í heildsölu og smásölu til neytenda á bátalistavörunum, var samkv. ágústskýrslum 22.8%, en samkvæmt október-skýrslum 16.8%. Vöruverðshækkunin í okt. er því nær þriðjungi minni en í ágúst.

Meðalvöruverðshækkun til neytenda í vefnaðarvörum skv. ágúst-skýrslum var 17%, en samkvæmt október-skýrslum 11.2%.

Getur engum dulizt af þessu, jafnvel ekki 3. landsk., að álagningin er að færast óðfluga í rétt horf, þótt ekki sé hún enn fyllilega komin á þann grundvöll, sem hún ætti að vera. — Skýrslurnar sýna yfirleitt hóflega álagningu, bæði í smásölu og heildsölu. Ein áberandi undantekning er þó í þeim. Verzlun, sem flutti inn rakvélar, lagði á þær 142% og rakblöð 70% á útlagðan gjaldeyri. Þessi innflytjandi hefur þótzt þurfa að nota sér frjálsræðið.

Vegna þess að hv. andstæðingar reyna helzt að villa almenningi sýn í sambandi við bátalistann, er nauðsynlegt, að menn viti, að útreikningar samkvæmt verðlagsákvæðum leyfa ekki álagningu nema á 2/3 hluta bátagjaldeyrisins og alls ekki á 7–8% veltuskatt, sem greiddur er við tollafgreiðslu. Á þennan hátt er t.d. í sambandi við rafmagnsheimilistæki ekki reiknað með álagningu af 1/3 af raunverulegu andvirði vörunnar. Þannig kemur að sjálfsögðu í ljós mikill munur á álagningu skv. verðlagsákvæðum og álagningu á vöruna eins og hún raunverulega kostar hér með öllum kostnaði. En það er algild verzlunarvenja hvar sem er í heiminum, að álagningin er miðuð við allt andvirði vörunnar.

Ég skal geta þess, að samkvæmt hinum síðustu athugunum á verðlagningu alls konar ávaxta, sem eru á bátalistanum, ætti meðaltalsálagning nú skv. verðlagsákvæðum að vera aðeins 5% í heildsölu á raunverulegt kostnaðarverð varanna. Svo fráleit og fjarstæðukennd eru þessi ákvæði. En raunveruleg meðalálagning innflytjenda á þessar vörur, þegar tekið er tillit til alls kaupverðsins, reyndist að vera 13.6%, og mundi slík álagning á þessar vörur ekki talin glæpsamleg annars staðar.

Í sambandi við þetta er ekki ófróðlegt að athuga álagninguna á vefnaðar- og fatnaðarvörur á bátalistanum. Raunveruleg meðalálagning á þessar vörur samkvæmt síðustu skýrslum er 14.4% í heildsölu. Ef farið væri eftir verðlagsákvæðunum, þá væri heimilað 6.2% á raunverulegt kostnaðarverð.

Leyfð hámarksálagning í heildsölu í Svíþjóð er sem hér segir:

Gervisilki ……………… ….14-26 %

Ullarvefnaður .............. …12—16 —

Karlmannanærfatnaður …12—15 —

Bómullarsokkar ................16—18 —

Fatnaður karla og kvenna..17–20 —

Og svo halda spekingar Alþfl., að hér, í minnsta markaði veraldar, sé hægt að selja sömu vörur með 6–7% álagningu.

Skýrslurnar um álagningu á matvörur í kaupstöðum úti á landi sýna yfirleitt mjög hóflega álagningu, en sums staðar er samkeppnin svo hörð, að álagningin er lægri en verðlagsákvæðin greina. Athugun á verðlaginu verður haldið áfram, og ég vænti þess, að verzlunarstéttin, kaupmenn og kaupfélög, sýni þann þroska, sem nauðsynlegur er, til þess að frjálst verðiag geti haldizt í landinu.

Fyrir nokkru sendi Alþýðusamband Íslands ríkisstj. þau boð, að það mundi beita sér fyrir uppsögn núverandi vinnusamninga og knýja fram hækkun kaupgjalds í landinu, ef verðhækkunaraldan yrði ekki stöðvuð, sem risið hefur um skeið.

Ég veit ekki, hvort þeir menn, sem standa í forustu fyrir Alþýðusambandinu, gera sér fyllilega grein fyrir þeirri gífurlegu ábyrgð, sem á þeim hvílir, og hversu örlagaríkar ákvarðanir þeirra geta verið. En mörgum hefur fundizt, að þeir hafi stundum lítið fyrir að taka ákvarðanir, sem geta reynzt örlagaríkar fyrir alla þjóðina.

Kaupgjald var hækkað á miðju þessu ári og bundið við framfærsluvísitöluna. Verðhækkun vegna þeirrar ráðstöfunar er enn að koma fram. Sú verðhækkun, sem Alþýðusambandið heimtar, að stöðvuð sé nú, er m.a. afleiðing þeirrar kauphækkunar, sem það knúði fram.

Miklar umræður hafa farið fram um þá hækkun, sem hér hefur orðið á vöruverði og svo hefur leitt af sér mikla hækkun vísitölunnar, er nú stendur í 151. Þeir, sem mest hafa legið ríkisstj. á hálsi vegna þessarar hækkunar, hafa viljað lítið gera úr þeirri miklu verðhækkun, sem orðið hefur á erlendum vörum og þjóðin getur ekki varið sig gegn. Sannleikurinn er hins vegar sá, að auk gengisbreytingarinnar eru tvær meginástæður fyrir verðhækkuninni í landinu á þessu árí, verðhækkun á erlendum markaði án tilsvarandi hækkunar íslenzkra útflutningsvara og almenn kauphækkun í landinu síðastliðið sumar.

Almenningur gerir sér litla hugmynd, hversu mikið vöruverð hefur hækkað á erlendum markaði síðan í marz 1950.

Hæstv. fjmrh. taldi upp nokkur dæmi um þá verðhækkun, sem hefur orðið á vörum á erlendum markaði, og skal ég því ekki endurtaka það hér. Þetta er gífurleg verðhækkun. En það er tilgangslaust fyrir þjóðina að reyna að bæta sér þennan halla með því að hækka laun sín að krónutali. Það er sama og segja framleiðslunni að greiða hallann, án þess að hún hafi fengið nokkrar auknar tekjur. Afleiðingin verður að síðustu uppgjöf þeirrar framleiðslu, sem þjóðin lífir á. Þess vegna hlýtur það nú að hvarfla að mönnum, þegar atvinnuleysið er sem vágestur fyrir margra dyrum, hvað við gerum til þess að tryggja þá atvinnuvegi, sem þjóðin lífir á. Því miður gefum við þessu lítinn gaum, og frumskilyrðið gleymist jafnan, en það er, að þjóðin geri ekki meiri kröfur til atvinnuveganna en þeir geta staðið undir.

Mesta bættan, sem nú vofir yfir atvinnu og efnahag þjóðarinnar, er ný verðbólga. Ekki er líklegt, að erlenda verðlagið hækki mikið fyrst um sinn. Skeð getur, að það lækki. En innlenda verðskrúfan, haldi hún áfram, getur siglt hér öllu í strand og gert atvinnuvegina óarðberandi. Ef við komumst enn einu sinni,í þá aðstöðu, er enginn máttur, sem getur hindrað það, að efnahagskerfið leiti á ný jafnvægis með verðfellingu gjaldmiðilsins.

Landsmenn verða að gera sér grein fyrir, að afkoma þeirra byggist á því, sem þeir sjálfir afla, og að það hefur komið fyrir og getur gerzt enn, að þeir geri of miklar kröfur til sinna eigin atvinnuvega. Það er hættan, sem nú vofir yfir. Um þessa hættu heyrist sjaldan talað í herbúðum sósíalistaflokkanna. Þeir líta á sig sem málafærslumenn verkalýðsins gagnvart atvinnuvegunum og gera sínar kröfur án tillits til afleiðinga og staðreynda. Þeir þeyta lúður lýðskrumaranna og segja það eitt, sem almenningur vill heyra. Þeir kynda undir óánægjunni, en þeir eru ekki menn til að taka á sig óvinsældir af nauðsynlegum, en sársaukafullum ráðstöfunum. Þeir gera alltaf kröfur til annarra, en aldrei til sjálfs sín, — og þegar hinn kaldi veruleiki leiðir vandamálin að þeirra eigin dyrum til úrlausnar, þá annaðhvort flýja þeir af hólmi eða þeir standa klumsa frammi fyrir vandarnum, sem þeir áður úthrópuðu aðra fyrir að leysa ekki.