19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég brtt. um það, að framlag til byggingar fjórðungssjúkrahúss á Akureyri hækkaði úr 500 þús. kr. í 1 milljón. Ég sýndi þá fram á, að eins og framkvæmdum þessarar sjúkrahússbyggingar er nú komið, þá skuldar ríkissjóður allt að 11/2 millj. kr. af lögboðnu framlagi til byggingarinnar, og ef miðað er við þá áætlun, sem gerð hefur verið um, að byggingin fullgerð kosti 9 milljónir, þá mundi ríkið þurfa að leggja fram af því um 5 1/2 millj., en hefur enn ekki lagt fram nema 21/2 milljón, og ef látið er sitja við þessar 500 þús., sem nú eru á fjárlfrv., þá mundi það nema 3 millj., en standa eftir í lögboðnu framlagi ríkisins til byggingarinnar 21/2 millj. Miðað við sama áframhald til þessarar byggingar mundi það taka a.m.k. 5 ár enn þá, að ríkið lyki þessum greiðslum sínum, þó að byggingarkostnaður færi ekki fram úr þeirri áætlun, sem upphaflega var gerð. Nú eru byggingarframkvæmdir þegar búnar að standa um 6 ára skeið, og það er sannast mála, að sá tími er orðinn allt of langur, sem þessi bygging hefur staðið yfir, og orðin nauðsyn, að henni sé lokið sem fyrst, enda upplýst af þeim, sem fyrir byggingunni standa, að það eru allir teknískir möguleikar á því að ljúka henni til fulls á næsta ári. Byggingin sjálf má heita nálægt því fullgerð, lækningatæki hafa verið keypt og innanhússmuni er hægt að fá fyrirvaralítið, þannig að ef ekki stæði á fjárframlögum til byggingarinnar, þá væru engin vandræði að ljúka henni á næsta ári og leysa þar með úr mikilli þörf, sem er á því, að þessi stofnun geti tekið til starfa. Ég taldi þess vegna líklegt, að þegar fjvn. og alþm. yfirleitt hugleiddu þetta mál nánar, eftir að hafa heyrt færð fram þessi rök, þá mundu þeir fallast á að ganga þetta til móts við þörfina á að hækka fjárveitinguna um þessar 500 þús., sem fólst í till. minni, og í því trausti tók ég till. aftur til 3. umr., í von um, að fjvn. mundi sýna þessu máli skilning og fallast á það að mæla með minni till.

Nú hefur reyndin orðið sú, að það hefur alls ekki neitt komið fram um þetta í till. fjvn., og hv. frsm. hennar minntist ekki á þetta mál í sinni framsögu, þrátt fyrir það að hann segði frá því, að n. hefði rætt við þá aðila, sem tekið hafa till. sínar aftur til 3. umr. Við mig sem flm. þessarar till. hefur ekkert verið rætt, og standa kannske ekki efni til þess, því að það, sem hv. form. fjvn. hefur sennilega átt við, eru aðeins þeir aðilar, sem eru stuðningsmenn núverandi ríkisstj., við hina þykir ekki þurfa að ræða um þau mál, sem þeir hafa fram að bera. En hvað sem því líður og þó að ekki virðist blása byrlega um undirtektir undir þessa till., þá hef ég freistað þess að taka hana upp við þessa umr. og mun láta hana ganga undir atkv., hver sem örlög hennar verða. En ég vil leyfa mér að segja það enn, sem ég tók fram við 2. umr., að mér finnst það næsta furðulegt, þegar fjárhag ríkisins er þó þannig komið eins

og allir vita, að mjög verulegur tekjuafgangur hefur orðið s.l. ár, sem er til ráðstöfunar, og þegar ríkisstj. hefur líka boðað, að hún muni leggja fyrir þingið till. um að ráðstafa nokkrum hluta þess tekjuafgangs til þess að greiða nokkurn hluta þeirra vangreiddu framlaga, sem ríkinu ber að greiða til hafnarmála og til byggingar skólahúsa, þá þykir mér furðulegt, að sjúkrahúsabyggingum skuli alveg sleppt í því sambandi, og ekki aðeins það, heldur þrjózkazt við svo hógværri till. í því efni sem hér um ræðir. Það eru ekki rök til fyrir því, að ríkið geti ekki í þessu tilfelli lagt á næsta ári 1 millj. í byggingu fjórðungssjúkrahússins, ef nokkur vilji er til þess að gera það. Meðal annars er hægt að rökstyðja þetta með þeim mikla tekjuafgangi, er verður á árinu, sem nú er að líða, og það má færa rök fyrir því, að fjárhagslegir möguleikar eru fyrir hendi til þess að gera þetta, — það vantar bara viljann. Og ég verð að segja það einu sinni enn, að mér finnst þetta viljaleysi alveg furðulegt, þegar um er að ræða jafnbráðnauðsynlega framkvæmd og að byggja þetta fjórðungssjúkrahús, sem búið er að taka jafnlangan tíma og það hefur gert, ef það á að draga í 5–6 ár enn að greiða það, sem ríkinu ber að greiða til þessarar byggingar, vitandi það, að fólkið á Akureyri og Norðurlandi bíður eftir því, að þetta sjúkrahús geti tekið til starfa og fullnægt mikilli þörf, sem fólkið hefur fyrir stærra og vandaðra sjúkrahús heldur en nú er til á þessum stað. — Maður talar hér fyrir tómum stólum að heita má, og hefur virzt svo líka, þótt fleiri áheyrendur væru, að talað væri fyrir daufum eyrum um þetta mál. En ég hef samt sem áður ekki viljað láta hjá líða að taka upp þessa till. og flytja enn á ný rökin, sem fyrir henni eru, svo að þessu máli væri ekki gersamlega gleymt, þó að örlögum þess eða þeirri ákvörðun, sem virðist vera búið að taka um þessa fjárveitingu, verði þess vegna ekki haggað.