23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

42. mál, verðlag

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. gerði þá athugasemd í sambandi við mína till. á þskj. 569, að ef hún yrði samþ., þá mundi það mikið auka skriffinnsku frá því, sem ætlazt er til í frv. Í aðalatriðum er þetta algerlega þvert á móti, vegna þess að í 3. gr. þessa frv., eins og það liggur fyrir; segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Verðgæzlustjóri skal mánaðarlega birta skýrslu, er sýni hæsta og lægsta verð á helztu nauðsynjavörum, sem framfærsluvísitalan byggist á.“ M.ö.o., hæsta og lægsta verð er ekki hægt að sýna nema safna skýrslum um allt verðlag og það hér í Reykjavík — um hver einustu mánaðamót. Nú ætlast ég til þess, og það er grundvöllurinn fyrir minni till., að í stað þess, að þetta sé gert mánaðarlega, sé það gert á þriggja mánaða fresti varðandi Reykjavík, en það sé líka athugað, hvernig þetta stendur úti um landsbyggðina, og það sé gert tvisvar á ári.

Ég skal játa, að það er rétt hjá hv. 3. landsk., að það er ekkert farið út í það í minni till., hvað langt skuli ganga í að birta þessar skýrslur, því að það er framkvæmdaratriði, sem viðkomandi ráðherra hefur á valdi sínu, hvað langt hann gengur í því að birta skýrslurnar, og tilgangurinn er auðvitað sá, að ekki sé birt nema það, sem verulega munar frá því almenna, annaðhvort lægra eða hærra verð. En úr því að verið er með þessa stofnun og alla þessa skýrslusöfnun, þá þykir mér réttara, að það sé þá gert þannig, að það komi í ljós, hvaða verzlanir það eru, sem selja dýrast, og hvaða verzlanir það eru, sem selja ódýrast, því að það mun vera svo með allan almenning, eins og er með mig, sem ekki á í neinni verzlun, nema að ég er félagsmaður í Kaupfélagi Húnvetninga, að mig varðar það mestu, hvað verðið á vörunni er í útsölu, en ekki fyrst og fremst hitt, hver álagningarprósentan er á hverjum stað, því að það er í mörgum tilfellum þannig, að þótt álagningarprósentan sé hærri á innkaupsverð hjá einni verzlun en annarri, þá gelur sú hin sama verzlun selt þá sömu vöru miklu lægra verði í útsölu, en á sér stað í sumum öðrum verzlunum.

Að öðru leyti þarf ég ekki að skýra þetta nánar, en eins og tekið er fram í mínum till., þá ætlast ég til, að þessi 3. gr. um mánaðarlega skýrslusöfnun falli niður.